04.09.1942
Sameinað þing: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (1092)

79. mál, ríkisstjórn

Flm. (Jónas Jónsson) :

Það var orðtæki Tryggva heitins Þórhallssonar, að „sagan endurtæki sig“. Þetta spakmæli hefur rætzt oft og mörgum sinnum og líka í kvöld, því að till., sem hér er borin fram á þskj. 185, er lík þeirri till., sem Tryggvi heitinn Þórhallsson og fleiri framsóknarmenn báru fram fyrir 15 árum. Það stóð líkt á þá og nú. Sá flokkur, sem nú fer með stjórn, að vísu með öðru nafni, fór og þá með stjórn, en hafði ekki meiri hl. á þingi. Þá báru framsóknarmenn fram till., sem Tryggvi talaði fyrir og sagði, að þar sem flokkurinn hefði ekki meiri hl., en hins vegar væri skammt til kosninga og ekki líklegt, að hægt væri að mynda meirihlutastjórn, lýsti þingið yfir þeirri skoðun, að stj. væri að vísu ekki þingræðisstjórn, en gæti verið starfsstjórn með þeim einkennum og því minnkaða valdi, sem af því leiddi. Enn hefur ekki reynt á, hvort eins fer hér. Það mun atkvgr. sýna.

Það eru ekki nema fáir mánuðir, síðan núverandi stj. var mynduð, og stóðu þá að henni 3 flokkar, Sjálfstfl., Alþfl. og Sósfl. Það var glöggt, að þessir flokkar stóðu að henni, eins og sást við atkvgr. um vantrauststill., sem fram var borin. Í mínu kjördæmi í vor voru allir þessir flokkar í náinni samvinnu um frambjóðendur, og einn frambjóðandinn sleppti því á einum fundinum, að það væri eiginlega sama, hvern frambjóðandann kjósendur kysu. Það var staðreynd í vor, að stj., sem nú fer með völd, hafði þingmeirihluta, og það sannaðist í kosningunum. Þetta var ástæðan til þess, að eftir kosningarnar sá Framsfl. ekki þörf á því að bera fram vantrauststill., af því að það kom berlega fram um alla meðferð mála og í forsetakosningum hér á Alþ. og nefndakosningum, að flokkarnir stóðu saman. Okkur þótti ekki ástæða til að eyða tíma þingsins í vantrauststill., því að verkin töluðu um aðstöðu stj.

Fyrir nokkrum dögum risu upp hér í þinginu tveir stuðningsmenn stj., hvor fyrir sinn flokk, og tilkynntu, að stuðningnum við stj. væri lokið. Þegar þetta hafði gerzt, tilkynntum við framsóknarmenn, að við værum enn sem fyrr í andstöðu við ríkisstj. Þessu svaraði formaður ríkisstj. á þá leið, sem við andstæðingar hans undruðumst, og hélt því fram, að stj. hefði aldrei stuðzt við aðra flokka en Sjálfstfl. og ekkert treyst á aðra flokka um stuðning. Okkur virtist þetta í mótsögn við staðreyndir, og þegar leið að þingslitum, kom upp sú spurning hjá okkur. hvort rétt væri að ganga svo frá þessu þingi að láta ekki reyna á það, hver væri raunveruleg aðstaða ríkisstj. Niður staðan var sú, að við töldum, að í sjálfu sér yrði að líta svo á, að þeir 3 flokkar, sem ég hef nefnt, bæru enn ábyrgð á henni. Því máli, sem flokkarnir töldu sig starfa að sérstaklega, sem sé breyt. á stjskr., væri í raun og veru ekki lokið enn eða ekki fyrr en eftir kosningarnar. Þess vegna var það, að þegar við framsóknarmenn vildum prófa, hvort kominn væri annar andi í þingið en í byrjun, kom glögglega í ljós, að svo var ekki. Við skrifuðum hinum flokkunum og bentum þeim á, að reynsla þjóðarinnar væri sú, að mjög hefði sigið á ógæfuhlið í fjármálum og viðskiptamálum landsins, síðan þjóðstjórnin var rofin fyrir fáum mánuðum. Allt, sem hindraði verðhækkun og spornaði við dýrtíðinni, hefði verið sett til hliðar, og í öllum flokkum væri uggur um örlagaríkar afleiðingar af vaxandi dýrtíð. En samt sem áður, þó að sýnt væri, að sú stefna í fjármálum og atvinnumálum, sem leiddi af því, að þjóðstj. var rofin, hefði gefizt eins og ég hef lýst, svöruðu stjórnarflokkarnir, að þeir vildu halda áfram, eins og nú stæði, og það fólst í svarinu, þó að ekki væri sagt berum orðum, að þeir vildu hætta á að láta þjóðina í raun og veru standa undir fossafalli vaxandi dýrtíðar til kosninga. Af þessu leiddi, að það var tilgangslaust fyrir okkur að bera fram vantraust. Ekki af því að það væri ekki hugsanlegt, að hinir greiddu atkv. með vantrausti, en það, sem á eftir kom, hlaut að vera, að við framsóknarmenn stæðum á allt öðrum grundvelli en hinir flokkarnir, því að þeir höfðu lagt höfuðáherzlu á að framfylgja breyt. á kjördæmaskipuninni, hvað sem það kostaði, og á móti okkur. Það var því frá okkar sjónarmiði ekki hægt að gera ráð fyrir, að þó að hægt væri að fella núv. stj., gæti komið nokkuð það í staðinn, sem okkur væri geðfelldara. Úr því að verkamannaflokkarnir höfðu staðið með stj., væri eini grundvöllurinn fyrir þingræðisstj. í sambandi við samsteypu þessara þriggja flokka.

Ég hef nú reynt að skýra það, af hverju við álitum það ekki afsakanlegt gagnvart landshagsmununum að koma fram með vantrauststill., án þess að hægt væri að skapa betri stjórn, sem væri þingræðisstjórn.

Atkvgr. um þessa till. sker úr því, hver er aðstaða ríkisstj. Mér persónulega finnst eðlilegt, að Alþfl. og Sósfl., sem hafa málefnalega staðið með Sjálfstfl., sjái sóma sinn í því að veita honum stuðning til kosninga. En það er ekki mitt að setja þeim fyrir. Ég álít bara, að það væri skylda þeirra, enda skoða ég það enn sem möguleika, að þessi till. verði felld. En ef þeir með einhverju móti,— eins og þeir hafa áður tilkynnt, — yfirgefa ríkisstj. nú á skilnaðarstundinni, þá verðum við að víkja aftur að fordæminu frá 1927 um ráðuneyti Jóns Þorlákssonar, þegar Alþ. sagði: „Við gerum ráð fyrir, jafnvel þó að meiri hl. Alþ. sé á móti stj., að hún verði að starfa til kosninga, af því að ekki er hægt að mynda aðra þingræðisstj. á svo stuttum tíma.“ En til þess að undirstrika eðli „parlaméntarismans“, var sú stj. yfirlýst starfstjórn, en ekki þingræðisstjórn. Till. þessi miðar því að tvennu: að reyna að fá úr því skorið, hver sé aðstaða ríkisstj., hvort hún hafi í raun og veru nægilegan stuðning, og þá er að taka því, ef svo er, eða hvort hún hefur það ekki, en verður vegna atvikanna að fara með stj. næstu vikurnar, en þá verður hún að starfa með þeirri varfærni, sem leiðir af því, að hún hefur ekki þingmeirihluta.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um till. Hún mundi að sjálfsögðu vera rökstudd á allt annan hátt, ef hún væri vantrauststill., því að þá yrðu lagðar fram þær mörgu syndir, sem þessi ríkisstj. eins og margar aðrar ríkisstj. hefur drýgt. En án þess að ég vilji gefa henni syndakvittun, hef ég í þessum fáu orðum mótað ræðu mína af þeim höfuðlínum, sem leiðir af þeim kröfum, sem þingræðisskipulagið gerir til ríkisstjórnar, sem fer með þingræðisvald. Það kemur í ljós við atkvgr., hvort ríkisstj. hefur aflað sér liðstyrks eða ekki. Ef ekki, þá á hún að starfa samkv. þessu breytta viðhorfi.