04.09.1942
Sameinað þing: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (1095)

79. mál, ríkisstjórn

Sveinbjörn Högnason:

Ég hef ekki miklu við það að bæta, sem hv. þm. S.-Þ. (JJ) hefur þegar tekið fram um þetta mál, en þar sem ég er einu af flm., get ég ekki látið hjá líða að lýsa undrun minni yfir því, að hæstv. forsrh. lýsir yfir því hér, að stj. hans hafi aldrei verið þingræðisstj., hún hafi frá upphafi verið minnihlutastjórn, hafi ekkert þingfylgi haft. Á að skilja þetta svo, að hæstv. forsrh. og stj. hans hafi allan þennan tíma verið að traðka á lýðræðinu í þessu landi og ætli sér að gera það? Hver einasta stj. hefði auðvitað undir slíkum kringumstæðum sagt af sér. En það er mála sannast, að hæstv. forsrh. fer hér með hrein ósannindi, því að vantraust það, sem fram var borið, var fellt á s. l. vori. En nú hafa stuðningsflokkar stj. tveir lýst yfir því, að þeir muni ekki styðja stj. lengur, og þá bar henni auðvitað að segja af sér. En samt leyfir hæstv. forsrh. sér að segja það, að sín aðstaða sé óbreytt til þingsins. Þeir ætli sér að sitja, á meðan þeim sé ekki fleygt úr stólunum. Hins vegar hefur það komið fram, eins og við framsóknarmenn sögðum, að það væri auðséð, hvert stefndi. Það hafa verið teknar burtu allar skorður gegn hvers konar upplausn í landinu, og nú stefnir beint í opið stjórnleysi. Það virðist hins vegar alls ekki koma við samvizku stj., þó að þjóðin sé nú gersamlega stjórnlaus. Við höfum stj., sem ekkert má gera, og nú er búið að koma málum svo fyrir á Alþ., að ekki er hægt að mynda þingræðisstjórn. Ég álít, að þessir þrír menn, sem sitja í stj., og aðstaða þeirra nú sé í rauninni alveg rétt kóróna á það verk, sem hún hefur unnið undanfarnar víkur. Ég er sannfærður um það, að ekkert getur frekar orðið til þess að vekja þjóðina heldur en einmitt þessir 3 valdalausu menn, sem nú sitja í ráðherrastólnum, þegar þjóðin þarfnast mest mikilla átaka til þess að vinna gegn ýmiss konar öfugstreymi, sem nú er uppi í þjóðfélaginu. Annars vil ég vekja athygli á því, hvernig sagan frá 1927 endurtekur sig, ekki aðeins um þá till., sem hér er fram borin, heldur einnig um margt annað. Sjálfstfl. fór þá síðast einn með völd og varð valdalaus, áður en kosningar höfðu farið fram. Ég vil vekja athygli á því, að einnig þetta endurtekur sig nú, og það svo rækilega, að stj. hefur aðeins 1/3 hl. þingsins að baki sér.

Svo segir hæstv. forsrh.: „Það er allt í bezta lagi. Ég hef ekkert við þessu að segja. Það er allt eins og það var.“ Það er óneitanlega ömurlegt að heyra forsrh. í elzta þingræðislandi heimsins segja það, að hann hafi traðkað á lýðræðinu allan þann tíma, síðan hann tók við völdum. Ég hygg, að þetta sé einhver mesta lítilsvirðing, sem þingræði hefur verið sýnd í nokkru landi. Ég held þess vegna, að það sé hollt fyrir þessa stj. að fá þann dóm frá sjálfu Alþ., sem þessi þáltill. felur í sér, að þingið treysti henni ekki til neins og óski eftir því, að hún geri sem minnst.