04.09.1942
Sameinað þing: 14. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (1142)

33. mál, drykkjumannahæli

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það var aðeins þessi rökst. dagskrá, sem varð þess valdandi, að ég kvaddi mér hljóðs. Ég hélt, að hv. þm. væri mál þetta svo ljóst, að ekki þyrfti að verja töngum tíma til framsögu. En í tilefni af þessari rökst. dagskrá hv. 1. þm. N.-M. vil ég fyrst minna hv. þm. á það, að hæstv. Alþ. hefur nú haft þetta mál til meðferðar hvorki meira né minna en 6 sinnum á síðustu árum, og þetta er í 7. skiptið, sem það er lagt fyrir þingið. Saga málsins er þessi:

Árið 1935 flutti frú Guðrún heitin Lárusdóttir þáltill. í Ed. á þessa leið :

„Efri deild Alþingis ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa stofnun drykkjumannahælis og löggjöf þar að lútandi.“

Þessi þáltill. var samþ. fyrir 7 árum með 12 shlj. atkv. Síðan hefur ekkert til málsins spurzt. Ríkisstj. framkvæmdi ekki þennan undirbúning, sem henni var falið að láta gera.

Á næsta þingi lagði Guðrún Lárusdóttir enn fram till. í málinu og hafði þá sjálf samið frv. til l. um stofnun drykkjumannahælis, þar sem ríkisstj. hafði vanrækt málið. Þessu frv. var vísað til 2. umr. með 13 shlj. atkv. og til allshn. deildarinnar. Síðan hefur ekkert til þess spurzt, —- það hvílir þar enn. En Guðrún Lárusdóttir var ekki af baki dottin, því að á fyrra þinginu 1937 bar hún fram frv. um drykkjumannahæli. Því var enn vísað til allshn., og þar fékk það að hvíla sig. Og enn er haldið áfram. Sami hv. þm., frú Guðrún Lárusdóttir, ber fram á síðara þingi 1937 enn nýtt frv. um málið, og nú kemst það svo langt, að allshn., sem fær það til meðferðar, skilar nál., og er þar lagt til, að málið sé afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Með því að deildin telur réttara, eins og nú er, að reisa ekki eða stofna heilsuhæli handa drykkjumönnum, heldur taka upp í fjárlög fjárveitingu, sem sé til ráðstöfunar fyrir heilbrigðisstjórnina í þeim tilgangi að hjálpa slíkum mönnum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“ Þessi till. var samþ.

Á næsta þingi ber frú Guðrún Lárusdóttir enn fram till. um að ákveða í fjárl. 30 þús. kr. fjárveitingu til þessara þarfa, en þá gerist það undarlega fyrirbrigði, að till. fellur.

Síðan hefur verið hljótt um málið. Svo á síðasta þingi flytja 4 þm. þáltill., sem er að efni til nákvæmlega eins og sú, sem hér liggur fyrir, nema hvað upphæðin er önnur, sem hér er farið fram á. Þm., sem fluttu þessa till., voru: Pétur Ottesen, Ingvar Pálmason, Finnur Jónsson og Þorsteinn Briem. Þessi till. fór eins og margar aðrar til allshn. og kom þaðan aldrei aftur.

Ég vildi, áður en ég fer lengra út í þetta, spyrja, hvort hv. þm. finnist ekki mál til komið að ráða þessu máli til lykta og hætta þessum sífellda leik að drepa málinu á dreif með því að gera um það lauslegar ályktanir.

Ef einhverjir skyldu efast um það, að hér sé nauðsynjamál á ferðinni, vil ég lofa hv. þm. að heyra álit, sem ég hef í höndum frá tveimur mönnum, þ. e. lögreglustjóranum í Rvík og landlækni, og vil með leyfi hæstv. forseta lesa bréf þeirra.

Lögreglustjórinn segir svo:

„Þér hafið, herra alþingismaður, óskað eftir áliti mínu á nauðsyn drykkjumannahælis í Reykjavík.

Í nóv. og des. s. l. gerði ég mér sérstakt far um að kynnast af eigin reynd ástandinu á veitingastöðum hér í bænum. Heimsótti ég sérstaklega þá staði, þar sem ofdrykkjumenn og ofdrykkjukonur halda sig áberandi mest. Líf og líðan þessa fólks er í alla staði hin hörmulegasta: Aumingjar þessir, sem eru sjúkir á sál og líkama, láta skeika að sköpuðu um allan þrifnað. Ganga þeir því oft óafvitandi með kynsjúkdóma tímunum saman, auk annarra algengra óþrifnaðarsjúkdóma. Vinnu stunda þeir og sjaldnast, nema þá helzt til áfengiskaupa eða til greiðslu á áföllnum ölvunarsektum, þegar margra mánaða letigarðsvist bíður þeirra ella. Sumir þessara manna hafa á síðast liðnum sjö mánuðum lent allt að því 34 sinnum í varðhaldi lögreglunnar, og hefur þó áfengisverzlunin verið lokuð. Flestir liggja þessir aumingjar uppi á skyldmennum sínum, konum eða foreldrum, og er mér óhætt að segja, að þeir gerspilla lífi þessa fólks, sem er svo ógæfusamt að vera tengt þessum ræflum. Ættingjar þessara manna og kvenna hafa oftsinnis komið til mín og ýmist grátbeðið um eða krafizt verndar sér til handa gegn þessum aumingjum, sem koma heim, hvenær sem er nætur, brjótandi allt og bramlandi. Margir ættingjanna veigra sér þó skiljanlega við því að kalla á lögregluna til þess að láta hana fangelsa náinn ættingja, föður, son og jafnvel dóttur eða eiginkonu. Drykkjuræflar þessir hafa jafnan eld með höndum til þess að kveikja í vindlingum, og stafar því af þeim stórhætta, enda hafa þeir þegar valdið fleiri íkviknunum og jafnvel eldsvoðum.

Í einu tilfelli minnist ég þess, að vanfær kona var á einu þessara ógæfusömu heimila, og gat hún alls ekki fengið nægan svefnfrið þann tíma, þegar hún helzt þurfti hans með. Barn hennar fæddist lasburða og fyrir tímann og dó skömmu seinna.

Síðast liðinn vetur, er ég athugaði veitingahúsin, rakst ég flest kvöld á aumingja þann, er með drykkjuskap sínum olli hinu hörmulega bifreiðaslysi hinn 5. þ. m.“

Ég vil taka það fram, að það, sem lögreglustjóri talar hér um, er það dauðaslys, er hér varð í sumar, eins og hv. þm. vita, þar sem drukkinn maður ók á gamlan mann, sem beið bana af því. Lögreglustjóri heldur áfram :

„Var hann þá jafnan dauðadrukkinn eða algerlega sljór af neyzlu svonefnds hristings og annars óþverra. Þessi maður, ásamt að minnsta kosti 25–30 öðrum ölæðissjúklingum hér í bæ, átti fyrir löngu að vera kominn á þar til gerðan spítala, þar sem mjög líklega hefði mátt bjarga heilsu hans á tiltölulega mjög skömmum tíma. Nú hefur þessi aumingi orðið manni að bana, og líf hans er varla mikils virði. Þjóðfélag vort ber hér mesta sökina. Áfengi fyrir milljónir króna er veitt til þessara vesalinga, en hið opinbera hefur algerlega brugðizt þeirri skyldu sinni að sjá þessum andlegu og oft líkamlegu aumingjum fyrir sjúkrahúsvist, þá er þeir eru komnir í helgreipar ofdrykkjunnar.

Þjóðin má ekki láta það viðgangast einum degi lengur, að dauðsjúkt fólk í hópum sé látið eyðileggja líf heilla fjölskyldna og einstaklinga og jafnvel verða borgurum að bana. Borgarar þessa bæjar geta hvorki verið öruggir um líf sitt né velferð heimila sinna, fyrr en þessum vorkunnar verðu aumingjum hefur verið komið fyrir þar, sem þeir eiga heima, en það er ekki í varðhaldi lögreglunnar, heldur á fullkomnu drykkjamannahæli.“

Þetta er umsjón lögreglustjóra. Ég skal taka það fram, að ég hef einnig átt tal við sakadómara og hann hefur sagt mér alveg nákvæmlega sömu söguna. Hann sagði, að hér í bæ væru 30 menn, sem þyrftu að vera á hæli, og hann sagði, — ég vona, að það hneyksli ekki hv. þm., þótt ég hafi það eftir: „Þessir menn gera heimili sín að helvíti.“

Ég vil nú lesa bréf landlæknis :

„Ég staðfesti hér með samkvæmt beiðni samtal mitt við yður um nauðsyn drykkjumannahælis, sem ég tel, að fyrir löngu hefði átt að vera sett á stofn. Ég hef og, eins og ýmsum áhugamönnum um þetta mál, og þar á meðal í hópi þingmanna, er kunnugt, stungið upp á þeirri tilhögun í framkvæmd þess, að ekki þurfi þegar í stað að ráðast í nýb3ygingar. Erfiðleikar um byggingarframkvæmdir þyrftu því ekki að verða því til hindrunar, að rekstur inn gæti hafizt mjög fljótlega. Fremur mundi standa á hæfu starfsfólki, eftir því sem ástatt er í þeim efnum við aðrar ríkisstofnanir. Fyrir því þykir mér koma til álita, hvort ekki ætti að fela áhugafólki, þ. e. bindindissamtökunum, umráð og rekstur fyrirhugaðs drykkjumannahælis með hæfilegum styrk úr ríkissjóði og undir fullnægjandi opinberu eftirliti. Mætti ef til vill svo vera um fleiri stofnanir, sem reknar eru beinlínis af ríkinu. Sérstök lög um stofnun drykkjumannahælis eru að mínu áliti algerlega óþörf, enda ýmsar hliðstæðar stofnanir komnar upp og reknar án sérstakra laga, þ. á m. landsspítalinn. Hið eina, sem þörf er á, er, að ríkisstj. sé heimilað nægilegt fé til framkvæmdanna. Annað mál er það, sem ég hef fyrir löngu vakið máls á, að nauðsynlegt er að endurskoða löggjöfina um sviptingu lögræðis, með sérstöku tilliti til vistunar drykkjumanna, annarra eiturlyfjaneytenda og geðveiks fólks á viðeigandi hælum. Að lokum vil ég geta þess, að ungur læknir, vandaður maður og áhugasamur um þessi mál, hefur nú dvalið erlendis í æðimörg ár við framhaldsnám í geðveiki og í samráði við mig, gefið sérstakan gaum meðferð drykkjumanna og þess háttar vandræðafólks og rekstri hæla fyrir það. Því miður kemst hann ekki heim að svo stöddu vegna hernámsins. Hins vegar mundi ekki þurfa að standa á þeirri læknisþjónustu við fyrirhugað drykkjumannahæli, er una mætti við til bráðabirgða.“

Ég ætla nú, að hv. þm. megi sjá, að það er full þörf fyrir drykkjumannahæli, og ætla, að þeim muni einnig vera það ljóst, að það sé ekki sæmandi fyrir þingið að hrekja þetta mál, eins og hingað til hefur verið gert, með sífelldum drætti.

Ég tel ekki ástæðu til að fara út í það, hvernig rétt sé að haga fyrirkomulagi þessa hælis. Ég vil geta þess, að ég tel ekki rétt, að það verði sem fangelsisvist. Mér er þó tjóst, að vel megi til þess koma, að menn verði dæmdir á hælið, og skal ég aftur vitna í orð sakadómara. Hann segir: „Það er gott og blessað, að Alþ. leggi til hegningarlöggjöf, sem sé samboðin nútímaþjóðum, en það vantar bara allt til þess að fullnægja þeirri löggjöf, eins og það, að ekki skuli vera til drykkjumannahæli, svo að hægt sé að ráðstafa mönnum, þegar þess er þörf.

Ég tel, að þegar svo er ástatt, eins og lýst er í bréfi lögreglustjóra, ætti að vera til heimild, sem leyfi, að menn séu dæmdir til hælisvistar. Ég vil taka það. fram, að ekki ber að skoða það sem refsivist. Ofdrykkjumaðurinn er sjúklingur, en ekki glæpamaður, þó að þannig hátti, að almenningi sé hætta búin af honum og ofdrykkjan geti teitt til verka, sem eru refsiverð. Það þarf fyrst og fremst að fara með þessa menn sem sjúklinga.

Viðvíkjandi því, hvar þetta hæli eigi að vera, álít ég, að það eigi að vera í sveit og ekki komi annað til mála en búrekstur sé í sambandi við það, því að þessir menn þurfa, jafnframt því, sem þeir eru undir: læknishendi, að hafa tækifæri til að vinna.

Ég held, að það sé tvennt, sem þarf að gera fyrir þessa menn jafnhliða hælisvistinni, ef þeir eiga að hafa von um bata. Að hælisvist 1okinni þurfa þeir að fá góðan félagsskap. Þeir þurfa að vera með mönnum, sem hafa góð áhrif á þá, og fjarri þeim, sem draga þá út í vinnautn á ný, og þeir þurfa að fá að vinna. Ég tel till. landlæknis um að hafa samvinnu við bindindisfélögin í landinu geta orðið til þess, að þegar hælisvist er lokið, væri hægt að koma þessum mönnum í ný sambönd, sem gætu orðið til þess, að þeir gætu horfið til nytsamlegra starfa, þegar þeir hafa fengið lækningu á hælinu.

Ég vil ekki eyða miklum tíma í þetta að svo stöddu, en vona, að þm. skilji, að hér er um nauðsynjamál að ræða, sem þarf skjótra aðgerða, og að ekki er ástæða til að fresta málinu. Ég tel sjálfsagt, að keypt væri eign, þar sem hægt væri að byrja, þótt í smáum stíl væri, og að heilbrigðisstjórnin setji um það reglugerð, en ég sé ekki betur en með því að skjóta málinu á frest sé því þar með drepið á dreif um óákveðinn tíma.