04.09.1942
Sameinað þing: 14. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (1144)

33. mál, drykkjumannahæli

Sigfús Sigurhjartarson:

Það er alveg rétt hjá hv. þm. S.-Þ., að í fjvn. sátu og sitja menn, sem eru mjög velviljaðir og miklir áhugamenn um þetta mál, og þarf ekki annað en minna á það, að formaður hennar er hv. þm. Borgf., sem allra manna mest hefur fyrr og síðar barizt fyrir slíkum málum hér á þingi. Mér hefur aldrei komið til hugar, að till., sem borin er fram af fjvn., sé borin fram af illvilja. Hitt vissi ég, að það er af því, að fjvn. og form. hafa þá skoðun, að n. ætti ekki að afgreiða mál, sem hafa útgjöld í för með sér. Til sönnunar því, að þetta sé á rökum reist, þarf ég ekki annað en minna á það, að hv. þm. Borgf. flutti á síðasta þingi þáltill., sem var svo hljóðandi :

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að verja á þessu ári allt að 150 þús. kr. til stofnunar drykkjumannahælis, í viðbót við þá sjóði, sem fyrir hendi eru og ætlaðir eru til stofnunar slíks hælis.“ Svo að ég veit, að hv. þm. Borgf. er sami áhugamaðurinn um þetta mál, að hann er enn sama sinnis og áður, að í raun og veru megi afgreiða málið með einfaldri þáltill., en af þeim orsökum, sem ég hef nefnt, hefur hann ekki talið fært, að málið færi gegnum þingið að þessu sinni.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. S.-Þ. sagði, að málið væri illa undirbúið, og sannaði það eða vildi sanna með því, að enn væri notað nafnið drykkjumannahæli, og svo ímyndaði hann sér, að einhverjum dytti í hug að senda hann sjálfan og jafnvel einhverja aðra góða þm. þangað. Hér er algerlega málum blandað. Ég get skilið, að svo væri ástatt um þm., að þeir þyrftu að fara á stofnun, þar sem þeir fengju læknisaðgerðir, en þeir þyrftu ekki á drykkjumannahæli. Taugaveiklaðir menn þurfa að fara á hæli, en alls ekki drykkjumannahæli.

Það er víðast svo úti um heim, að slík hæli eru ekki í beinu sambandi við spítala. Öðru máli ar að gegna um taugaveiklunarspítala. Drykkjumannahæli eru yfirleitt ein sér og úti í sveit.

Ég vil vona, að hv. þm. meti þau gildu rök, sem fram hafa komið í þessu máli, og vona, að þeir sjái nauðsyn þess, að því sé ekki frestað. Ég tortryggi menn ekki um góðan vilja, en þrátt fyrir þann góða vilja hefur málið flækzt frá þingi til þings í 7 ár. Ég vil ekki trúa, að það sé af illvilja, að þm. þyki þægilegra að velta því af sér til næsta þings.

Ég held, að það sé rétt að treysta ríkisstj. og landlækni til þess að búa svo um þessa stofnun, að hún verði viðunandi, og legg eindregið á móti því, að málið verði afgreitt til stj. á þann hátt, sem fjvn. leggur til, en óska, að till. verði samþ. eins og hún liggur fyrir, þannig að það megi hefjast handa, þegar ríkisstj. sér möguleika til þess.