11.08.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (1154)

3. mál, rafveita á Snæfellsnesi og í Suður-Þingeyjarsýslu

Jónas Jónsson:

Þetta mál er að nokkru leyti kunnugt hv. þm., nefnilega sá hluti þess, sem lýtur að Snæfellsnesi, því að þaðan hafa á tveimur undanförnum þingum verið sendar nefndir til Alþ. og ríkisstj. til þess að ræða um virkjun þar. Á síðasta þingi dagaði uppi till. í þessa átt vegna tímaleysis.

Atvikin hafa hagað því svo, að það, sem mest hefur hindrað framkvæmdir í málum eins og þessu, hefur verið gjaldeyrisvöntun landsins og erfið aðstaða til að kaupa efni í Ameríku. Nú er aðstaðan betri í gjaldeyrismálunum og mikill hugur í íbúum þeirra staða, sem till. okkar fjallar um, til þess að koma nú upp rafveitunum, enda margs konar undirbúningur hafinn heima fyrir. Fjárhæðirnar, sem farið er fram á ríkisábyrgð fyrir, eru byggðar á upplýsingum frá rafmagnseftirliti ríkisins.

Þau þrjú kauptún á Snæfellsnesi, sem nefnd eru í till., eru með þeim síðustu á landinu, sem fá rafmagn. Þau eru sem sé algerlega rafmagnslaus, nema í sambandi við frystihús. Það er því sérstök nauðsyn á að sinna þeim.

Um Húsavík er það að segja, að rafstöðin þar er 75 ha., en það er alltof lítið, svo að Húsvíkingar telja óhjákvæmilegt að komast í samband við Laxárstöðina eða virkja álmu af Laxá sérstaklega, nær sjó. Það hafa hafizt samningar milli rafveitu Akureyrar og Húsavíkurkauptúns, og eru góðar horfur á samkomulagi. Húsavík þyrfti að standa straum af 700 þús. kr. láni, og á því er till. okkar byggð, hvað Húsavík snertir.

Þá eru loks um 10 heimili, sem eru rétt við Laxárvirkjunina, en hafa ekkert rafmagn fengið enn. Það hefur þó verið um talað, síðan virkjunin var gerð, að þessi heimili fengju að njóta hennar, en ekki orðið úr framkvæmdum meðfram vegna gjaldeyriserfiðleika. Rafveitufélag bænda sendi skeyti í dag, og segir þar, að félagið hafi ákveðið að hefjast handa. og panta efni til raforkuveitu í sambandi við Akureyrarstöðina. Það hefur alveg sérstaka þýðingu að hlynna að þessu máli, því að hvergi á landinu er eins góð aðstaða til virkjunar, en byggðin sjálf er þéttbýl, svo að þarna getur fengizt reynsla um það, hvernig tekst að fullnægja rafmagnsþörf sveitanna.

Ég vil óska, að málinu verði vísað til fjvn., en aðalflm. till., hv. þm. Snæf., er ekki við í dag vegna veikinda á heimili sínu.