11.08.1942
Sameinað þing: 4. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (1155)

3. mál, rafveita á Snæfellsnesi og í Suður-Þingeyjarsýslu

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. — Eins og hv. þm. vita, bar ég fram á síðasta þingi frv. um ábyrgðarheimild fyrir Akureyrarkaupstað til aukningar Laxárvirkjuninni. Það fékk þá afgreiðslu, að það náði samþykki við 1. umr., en komst svo ekki lengra, og var búið að hnýta aftan við það svo miklu, að mörgum hraus hugur við. Það dagaði svo uppi. Í þessari þáltill., sem nú liggur fyrir, er þriðja og fjórða lið hnýtt aftan við rafvirkjun Laxárfossanna. Þar sem ekki hefur komið fram neitt frv. um ríkisábyrgð fyrir Akureyri, vil ég skýra það mál. Ég hélt satt að segja, að þingið yrði ekki svo víðfeðma, að fram ættu að koma alls konar mál, en ég vil geta þess, að úr því sem komið er, mun ég koma fram með frv. í sömu átt og í fyrra, um ríkisábyrgð fyrir Akureyri.