19.08.1942
Efri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Ég hafði kvatt mér hljóðs, nokkru eftir að þessar umr. byrjuðu, og það er ekki ætlun mín að lengja þessar umr. úr hófi fram eða halda hér langa ræðu, því að ég er einn af þeim, sem telja, að því fyrr sem þetta mál verður afgreitt og gert að l., því betra, og tel mig ekki eiga neina sök á því, þótt nokkur dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins hér í þessari hv. deild.

Ég sagði það þegar við 1. umr. málsins, að þessi l. eru ekki að ófyrirsynju fram komin og hefði átt fyrir löngu að vera búið að afnema gerðardóminn með brbl., úr því að síðasta Alþ. var ekki svo viturt að sjá, hvað var að gerast, og fella l. úr gildi, áður en þingi lauk. Reynslan er búin að tala sínu máli um það allt, sem við höfum sagt um þessi l., og það hafa rætzt allar okkar aðvaranir í þessu efni.

Frsm. meiri hl., sem flutti langa ræðu, gerði tvennt: að afsaka setningu l. og um leið að lýsa ástandinu eins og það er og lýsa því, hvers vegna l. væru numin úr gildi. Ég er honum algerlega ósammála um margt, sem hann sagði um setningu l., og er algerlega á þeirri skoðun, að l. hafi verið vanhugsuð frá upphafi, og reynslan er líka búin að sýna það. Aftur á móti er rétt að geta þess, að úr því sem komið er, verður ekkert betra gert á þessu þingi en að hraða afgreiðslu málsins sem verða má, ef með því væri hægt að koma í veg fyrir skæruhernað þann, sem nú er uppi og verður svo lengi sem þetta ákvæði er ekki numið úr gildi.

Eins og kunnugt er, stefndu l. að því að gera verkalýðssamtökin óvirk. Það var þungamiðja l., eins og kunnugt er, að gera þeim, sem kjörnir voru af félögunum til þess að hafa forustuna í málum þeirra, ókleift að hreyfa sig. Þetta var byggt á þeirri skoðun, að þeir, sem kjörnir væru til þess að hafa forustuna í verkalýðsfélögunum, væru ofbeldismenn, sem ætti að gera óvirka. Nú hefur það sýnt sig, að félagsmennirnir sjálfir gera ekki minni kröfur en forustumennirnir. Það þýðir ekki að sakast um það, að þessi skoðun var uppi, en ég vil geta þess, að sá andi, sem var við setningu þessara l. og ég vona, að aldrei endurtaki sig hér á landi, sá andi, að ganga algerlega á snið við þau samtök, sem lögleg eru í landinu, og þær stofnanir, sem verkalýðurinn hefur komið sér upp, er á góðum vegi með að eyðileggja allan vinnufrið, þegar þjóðfélaginu mest á ríður. Ég held, að sú reynsla, sem er fengin af þessa, ætti að kenna hverjum, sem fer með stjórn í landinu, að slíkar aðferðir ættu aldrei framar að vera um hönd hafðar.

Það er, eins og kunnugt er, háð hér í bænum deila hjá hafnarverkamönnum, og mér er kunnugt um, að það er dálítið erfitt að láta heildarsamninga verða gildandi, fyrr en búið er að afnema kaupgjaldsákvæðin úr gerðardómsl., og einnig vegna þess að nauðsynlegt er, ef sú deila á að leysast fljótlega, sem allir óska, að verði, að flýta málinu. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum að ræðu hv. frsm. meiri hl. Hann tók það fram, að við værum sammála um afgreiðslu frv. En það er ekki séð, hvort við getum orðið sammála um brtt., sem ég lýsti, að ég mundi bera fram, áður en 3. umr. yrði lokið hér í d., og er sú brtt. stíluð upp á það, að félögin fái nú frelsi til að segja upp samningum sínum með stuttum fyrirvara, svo að hægt verði að skapa heildarsamninga við þau félög, sem þess óska, og þau þurfi ekki að vera bundin af þeim samningum, sem nú gilda. Ég skal, til þess að gefa nokkra hugmynd um, hvað þetta þýðir, segja það, að allir farmenn eru bundnir til 1. apríl n. k., og það mundi þýða, að skæruhernaðurinn, sem þeir halda uppi í þessum atvinnugreinum, heldur áfram þangað til heimilt er að segja samningunum upp. Þetta er aðeins lítið dæmi um það, hve nauðsynlegt það er, að félögin fái að segja upp þeim samningum, sem þau eru bundin. Í mörgum tilfellum get ég búizt við, að þær kauphækkanir, sem hafa orðið í gegnum hinn svokallaða skæruhernað, verði bara viðurkenndar, og býst við því, að úti um land verði bara settur stimpill á þá samninga, sem gerðir hafa verið. Í öðrum tilfellum verða gerðir nýir samningar og eftir því; sem ég get gert mér hugmynd um, má búast við, að grunnkaupshækkanir verði almennar.

Það er vafalítið óheppilegt, að tekin skyldi vera upp jafn hörð mótstaða gegn grunnkaupshækkuninni af hálfu atvinnurekenda og raun varð á. Ég lít þannig á, að á þessum tímum sé ekki hægt að spyrna á móti hækkun kaupgjalds, því að þegar krepputímar koma, lækkar kaupgjaldið óhjákvæmilega, svo að það var sorgleg stífni að spyrna svo fast á móti grunnkaupshækkun, sem raun er á orðin. Ég er á þeirri skoðun, að ef leyfð hefði verið sú grunnkaupshækkun, sem beðið var um í byrjun, þá hefði skapazt annar mórall í sambandi við samningana en nú er.

Ég skal svo láta útrætt um þetta mál, en ég get ekki að því gert, að ég verð að minnast örlítið á minni hl., hv. þm. Str., ekki svo mjög nál. hans, heldur ummæli, sem komu fram í ræðu hans, og vil ég ekki láta þeim ómótmælt. Hann heldur því fram, að það hafi ekki verið rétt hjá frsm. meiri hl., að Framsfl. hafi verið hlynntur hinni frjálsu leið árið 1940. Það þarf nú ekki annað en að fletta upp í Tímanum árið 1940, því að þar eru margar greinar um það, að verkalýðurinn eigi nú að segja samningum sínum upp og fá kauphækkanir á frjálsum vettvangi. Þetta var á þeim tíma, þegar verið var að búa undir hækkun landbúnaðarafurðanna. Undir þetta var tekið. Það urðu dálitlar deilur hér í Reykjavík, en sérstaklega úti um landið urðu nokkrar grunnkaupshækkanir, sem ekki voru annað en leiðrétting á því ósamræmi, sem skapazt hafði í kaupgjaldsmálunum víðsvegar um land.

Það hefur yfirleitt verið stefna Alþýðusambandsins frá öndverðu að reyna að samræma kaupgjaldið sem mest, og reynslan hefur sýnt, að lágt kaupgjald á einum stað ýtir fólkinu á þá staði, þar sem kaupgjaldið er hærra.

Það er um fulla dýrtíðaruppbót að segja, að sú krafa kom frá verkalýðnum og var flutt af Alþfl. hér á sínum tíma. Það urðu mikil átök um þetta og nokkur tilraun gerð til þess að spyrna á móti af Framsfl., og mér er ekki grunlaust um, að innan Sjálfstfl. hafi einnig verið nokkur átök um málið og það hafi haft nokkur áhrif innan þess flokks, að kosningar stóðu fyrir dyrum og hann hafi þess vegna talið rétt að vera með 100% dýrtíðaruppbót hér á þinginu. Dýrtíðarvísitalan er í augum fjölda manna ekki talin vera fullnægjandi mælikvarði á dýrtíðina, og eins og allir vita, eru háværar kröfur um það að endurskoða vísitöluna. Ég skal engan dóm á það leggja, þangað til ég hef heyrt rök þeirra, sem reikna út dýrtíðarvísitöluna. Ég held því fram, að það sé nauðsynlegt, að dýrtíðarvísitalan sé reiknuð nákvæmlega út, svo að hún sýni rétt, hvað dýrtíðin er mikil, því að ef það er ekki gert, má alltaf búast við óánægju.

Hitt atriðið, sem hv. þm. Str. gat um, eru allar þær ráðstafanir, sem hann telur nauðsyn á að gera til þess að framkvæma l. Þessu voru gerð rækileg skil af frsm. meiri hl. Hann upplýsti hér eitthvað af þeim leynisamningum, sem gerðir voru við setuliðsstjórnina. Þessir samningar hafa ekki verið birtir. Það var óskað eftir því, að þeir væru birtir, en það hefur ekki verið gert. Þessir samningar hafa ekki verið haldnir, og það er viðurkennt, að ekki hafi verið fækkað eins mikið í setuliðsvinnunni og til var ætlazt. Ég held, að þetta sé á rökum reist, að fækkunin hafi ekki verið eins mikil og gert var ráð fyrir 1. júlí, en þá var gert ráð fyrir 2000 manns, sem áttu að hætta. Ég hef óbreytta skoðun á því, að með nokkurn veginn skynsamlegri hagnýtingu á því vinnuafli, sem til er í landinu, hafi verið nokkurn veginn óhætt að hafa jafnmarga menn í setuliðsvinnunni eins og 1941. Ég held ekki, að það gangi fleiri skip, en það er e. t. v. nokkru meir í byggingavinna.

Ef fylgt er þeirri reglu, sem hv. þm. vill fylgja, er farið inn á hættulega braut, því að það mundi skapa atvinnuleysi hjá mönnum, sem aðeins hafa vinnu hjá setuliðinu. Þangað hafa komizt menn, sem ekki geta unnið að framleiðslunni, unglingar og gamalmenni, og þetta er fundin atvinna fyrir þessa menn, bæði unga og gamla. Fram hjá þessu er algerlega gengið, þegar rætt er um þetta efni. Hins vegar verður maður að játa, að á sumum stöðum a. m. k. er meiri skortur á fólki en oft áður. En ég vil segja: Hvernig geta menn búizt við, að hægt sé að þvinga menn til að fara til landbúnaðarstarfa? Bæði búast þeir við að bera minna úr býtum, og svo kunna þeir ekkert til þess. Það er ekki hægt að segja hvaða manni sem er að fara til landbúnaðarvinnu. Það verða að vera menn, sem bera skyn á þessi störf. Að ógleymdu því, að það hefur komið í ljós, að menn í sveit hafa farið á þá staði, þar sem vinnumarkaðurinn er mestur, og yfirgefið þessi störf sín, svo að ég er á þeirri skoðun, eins og hv. frsm. meiri hl. benti á, að til þess að gera þetta virkt, væri ekki nema ein leið til, og það væri þvingunarvinna, og að það sé ekki hægt að koma því í framkvæmd nema með því að setja herlög.

Við verðum að játa það ástand, sem er í landinu, og skapa okkar afstöðu eftir því. Ég skal benda á það, að það var enginn skortur á mönnum til síldveiðistarfa. Það var svo mikið framboð, að skipin gátu ekki tekið á móti nærri því öllum, sem buðust. Eins var það á fiskiflotanum. Þetta er lögmálið, sem við verðum að horfast í augu við. Ég hef líka gert mér það ljóst, sem og margir fleiri, að með setningu þessara l. er verið með meira einræði en nokkurn tíma hefur bólað á í stjórnmálasögu okkar, síðan við fengum fullt frelsi í málum okkar. Einræði, sem ég tel mér skylt að vinna á móti með öllum ráðum, hvaðan sem það kemur.

Ég lofaði í upphafi, að ég skyldi vera stuttorður. Mér er kunnugt um af ástæðum, sem ég ekki þarf að greina, að hæstv. forseti mun ekki telja sig geta tekið málið til 3. umr. þegar eftir þennan fund, en ég segi eins og ég sagði áðan, því fyrr, því betra.