02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (1193)

18. mál, undanþága frá greiðslu á benzínskatti

Flm. (Eiríkur Einarsson) :

Ég minnist þess, að hæstv. forseti hefur á fyrri fundum hér í Sþ. látið þess getið, að þegar rætt væri um það utan dagskrár, hvernig till., sem fyrir liggja, skyldu ræddar, í hvaða röð, valið þetta þannig, að till., sem eru mjög líkar að efni, skyldu ræddar samhliða. Þess vegna finnst mér, að mönnum þurfi ekki að koma það spánskt fyrir, þó að þessar tvær till. séu ræddar nokkuð samhliða.

Hv. þm. V.-Sk. talar um það, að till. okkar sé staðbundin, og það er rétt, að hún er miðuð við hafnlausu héruðin, nánar ákveðið þrjú sýslufélög. Við flm. teljum það kost við till., hvað stórt svæði það er, sem hún nær til, enda þótt hér sé um ákveðin héruð og ákveðin takmörk að ræða. Í sambandi við hina till. má spyrja : En hafnlausu héruðin í landinu, hvað ná þau langt? Ná þau til héraða í öðrum landsfjórðungum. Ég hygg, að það geti orkað tvímælis. Svo talar hv. þm. um það, að hann álíti, að þau héruð, sem yfirleitt verða að sækja vörur sínar svona langt, þau eigi heimtingu á að losna við benzínskattinn. En samt vilt hann takmarka þetta við 80 km. Nú vill svo til, að þessi héruð austanfjalls miða yfirleitt við Rvík sem næstu höfn, og þeir, sem búa í 60–80 km fjarlægð frá Rvík, finna það vel, að hafnleysið er farið að koma illa niður á þeim. Þetta virðist því eftir till. okkar ekki geta valdið neinum vafningi. Þó að einhver aki umfram venjulega áætlun bifreiða, þá er allur flutningur kominn í nokkurn veginn fastar skorður. Kaupmenn og kaupfélög hafa á sama hátt bíla, er fara fastar áætlunarferðir, og búendur, er mikið þurfa að flytja, hafa og reglubundin viðskipti við bíla til vöruflutninga. Þetta mun því litlum ágreiningi geta valdið. Mér finnst þetta og vera mjög heppileg leið, til þess að flutningastyrkurinn komi sem jafnast niður á alla með því að létta af benzínskattinum. Eins og getur um í þál. á þskj. 32, þá á með þeirri tilhögun að fela fulltrúum kaupfélaga- og verzlana að úthluta 200 þús. kr. styrk til landflutninga í hafnleysishéruðum landsins, og án þess að ég sé með neina tortryggni í garð manna þeirra, er ættu að úthluta þessum styrk, þá verð ég að segja það, að það gæti af nokkru handahófi verið gert. Í þessu sambandi er og rétt að geta þess, að ekki nærri allur þungavöruflutningur er háður verzlunum kaupfélaga eða kaupmanna, þar sem bændur hafa nú orðið mikil bein viðskipti við Rvík í þeim efnum, og þá hvorki kaupfélög né kaupmenn milliliðir til þess að geta annazt þessa fjárstyrksúthlutun. Ég er hræddur um, að hv. þm. V.-Sk., sem er maður orðhvass, hefði tekið þetta atriði rækilega til bæna, ef það hefði staðið í okkar till. Okkar till. er bæði sanngjarnari og réttsýnni, og því óska ég þess fastlega, ef n. fær þessar till. til athugunar, að hún skoði vel huga sinn um þetta mál, og þá mun hún komast að raun um, að okkar till. er miklu heppilegri til úrlausnar í þessu máli. Mér finnst ekki nema eðlilegt, að brtt. hafi komið fram við till. okkar, en um þær ætla ég ekkert að segja, heldur láta aðra um þær dæma.