02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (1194)

18. mál, undanþága frá greiðslu á benzínskatti

Helgi Jónasson:

Ég skal ekki vera langorður. Hv. þm. V.-Sk. hefur tekið flest af því fram um till. á þskj. 32, er máli skiptir.

Það er kunnara en frá því þurfi að segja, að árlega er varið miklu fé til að styrkja flutninga á sjó með ströndum fram, sem flestir landsmenn njóta góðs af. En svo er ástatt í þessum málum á Suðurlandi, að þar vantar hafnir, til þess að fólkið geti notið slíkra hlunninda í vöruflutningum sínum, og er því ekki nema réttmætt, að Alþ. hlaupi einnig þar undir bagga og greiði einnig fyrir vöruflutningum á Suðurlandi.

Hér liggja fyrir tvær till. um úrbót í þessu máli. Önnur fer fram á það, að létt verði af benzínskatti á Suðurlandi. Ég er að nokkru kunnugur þessu máli, það eð það hefur komið til umr. oft á undanförnum þingum og hefur ávallt reynzt ókleift að koma því á, þar sem talin hefur verið hætta á því, að það mundi rýra um of tekjur af benzínskattinum, því að önnur héruð mundu þá koma með svipaðar kröfur um afnám benzínskattsins á eftir. Það var talað við mig um það að gerast flm. að þessari till., en ég sá mér það ekki fært af þeirri ástæðu, er ég hafði rekið mig á, að ógerlegt mundi að fá till. samþykkta. Í stað þess hef ég ásamt öðrum hv. þm. farið inn á aðra leið, er fer í þá átt að styrkja vöruflutninga á landi, þá sem fara yfir 80 km vegalengd. Vera má, að önnur tala sé hér heppilegri. Það má vel vera, enda geri ég það að engu kappsmáli, hver kmtalan sé, enda má um það alltaf deila.

Af þeim brtt., er fram hafa komið, má ráða það, að erfitt verði að afnema benzínskattinn í þeim þremur sýslum, sem um getur á þskj. 13, nema þá að afnema allan benzínskatt, hvar sem er á landinu. En Alþ. hefur ekki talið sér það fært og viljað fá benzínskattinn áfram til vegabóta.

Því tel ég heppilegra, eins og við flm. till. á þskj. 32 viljum, að styrkja flutninga á langleiðum, þar sem ekki er hægt að koma við vöruflutningum á sjó.