02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (1197)

18. mál, undanþága frá greiðslu á benzínskatti

Sveinbjörn Högnason:

Hv. 5. landsk. þm. segir, að sér hafi ekki verið boðið að gerast meðflm. að þáltill. þeirri, er ég stend að á þskj. 32. Ég veit, að hv. þm. rangminnir þetta. Ég sagði honum frá því, að ég mundi flytja þessa till., og átti hann þá þess kost að gerast meðflm. að henni, en svarið var, að koma fram með þáltill. á þskj. 18 strax á eftir. Þess vegna, þótt ég sem eldri þm. hefði ráðlagt honum heilt, þá vildu þeir ekki þá leið, heldur þá, sem ófær var. Þá er það rangt hjá hv. þm., að við séum á þskj. 32 fyrstir til að lýsa yfir því, að þeirra leið sé ófær og óframkvæmanleg. Sjálft Alþ. er búið að gera það áður.

Ég held, að það sé ekki rétt að vera að ræða miklu meira um, hver afstaða þessara uppbótarþm. er til kjósenda. Þessir menn eiga ekkert kjördæmi á Suðurlandi, það eiga þeir að vita, og þeir hefðu aldrei komizt á þing með þeim einum atkvæðafjölda, er þeir fengu, þar sem þeir buðu sig fram.

Þá eru það rökin hjá hv. þm. Barð. (GJ), og m. a. var það nærri hneykslanlegt að heyra frá honum ásakanir um atkvæðasmölun, þar sem honum ætti sízt af öllu að farast að tala um slíka hluti. Hygg ég það rangt hjá honum, að þau héruð, er við mest hafnleysi hafa að búa, hafi fengið mest af vegabótum. Mér þykir sanni nær, að þetta sé öfugt og þau héruð, sem verst eru sett með flutninga á sjó, hljóti tiltölulega minnst af þeim vegaframkvæmdum, sem gerðar eru. Eða halda menn t. d., að Gullbringu- og Kjósarsýsla, sem mun hafa einhverjar beztu hafnir á landinu, hafi orðið eitthvað útundan í vegaframkvæmdum og að þar hafn orðið eitthvað minna úr vegagerð en annars staðar á landinu?

Ég hygg, að það væri nokkuð fróðlegur samanburður á þessu efni. Þess vegna er það, að rök hv. þm. Barð. (GJ) hafa ekki áhrif, nema kannske á hann sjálfan. Því að hann verður að uppbyggja þau betur en hann gerði, ef þau eiga að hafa einhver áhrif í þessu efni.

Ætla ég svo ekki að orðlengja meira um þetta. Ég hef einnig tækifæri til að tala um þáltill. á þskj. 32 á eftir, og ég skal rekja þær röksemdir, sem fyrir þeirri till. liggja, þegar að henni kemur.