02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (1200)

18. mál, undanþága frá greiðslu á benzínskatti

Sveinbjörn Högnason:

Hv. 5. þm. Reykv. (BBen) heldur, að ég hafi farið hér rangt með gagnvart þingsköpum, og telur sig nú yfirsiðameistara í þessum efnum, kannske af því að hann er lögfróður eða af því að hann er borgarstjóri í Rvík og hefur skrifað bók um Alþingi og er náttúrlega vel kunnugt um, við hvað hv. þm. eiga að kenna sig hér á þingi. En þar sem hann gefur í skyn, að mér sé bezt trúandi til að fara með ósannindi, vil ég bera af mér sakir og minna á 34. gr. þingskapa Alþ., þar sem stendur m. a., með leyfi hæstv. forseta: „og kenna skal þingmann við kjördæmi sitt eða kosningu“. Þetta hélt ég, að væri skýlaust. En það er kannske svo, að þessum hv. yfirsiðameistara hæstv. Alþ. hafi sézt yfir þessa gr. — eða þá, að hann telji sjálfsagt, að hann eigi að bera rangt vitni hér á hæstv. Alþingi um það, hvað sé rétt.