02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (1202)

18. mál, undanþága frá greiðslu á benzínskatti

Bernharð Stefánsson:

Ég mun hafa sagt í hv. Ed., að landsk. þm. eða uppbótarþm. teldu sig sjálfir vera þm. þeirra kjördæma, sem þeir væru frambjóðendur í, en ekki, að þeir væru það í raun og veru. Ég mun einnig, í sambandi við kosningal., hafa minnzt á það, að sumir kjósendur þeirra litu einnig svo á. En mér er ákaflega vel kunnugt um það, að landsk. þm. eða uppbótarþm. eru ekki þm. kjördæmanna, heldur sagði ég hitt, að þeir teldu sig vera það. Ég kom nú inn í þingsalinn rétt núna og hef ekki fylgzt með þessum umr., en mér er tjáð, að hv. 5. þm. Reykv. hafi verið að vitna til mín, og skildist mér, að um þetta hefðu staðið orðræður og hann hefði flutt hæstv. Alþ. þann boðskap frá mér, að ég hefði talið landsk. þm., þ. e. uppbótarþm., vera þm. kjördæmanna, þar sem þeir hefðu boðið sig fram. Það gerði ég ekki, heldur sagði, að þeir teldu sig vera það.