17.08.1942
Sameinað þing: 5. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (1209)

20. mál, brúargerð á Djúpá í Fljótshverfi

Flm. (Sveinbjörn Högnason) :

Herra forseti. — Ég hef leyft mér að flytja þessa þáltill. um fjárveitingu til brúargerðar á Djúpá í Fljótshverfi á þessu ári. Málið þolir ekki, að beðið sé eftir afgreiðslu fjárl., því að nauðsynlegt er, að byrjað sé á verkinu á þessu hausti, ef ætlunin er að hafa við það skynsamleg vinnubrögð, því að nú er verið að brúa Geirlandsá fyrir austan Kirkjubæjarklaustur, og verður bílfært austur að Kálfafelli í Fljótshverfi, þegar sú brú er komin. Mundi það spara ríkissjóði mikið fé, ef brúin á Djúpá yrði gerð í haust, því að þannig mætti nota að miklu leyti sama efni og notað var við brúargerðina á Geirlandsá, mótatimbur og annað, og er það ekki lítill liður í kostnaðinum að flytja slíkt efni 400 km leið. En hér er um að ræða vatnsfall, sem er mjög illt yfirferðar, einkum í vatnavöxtum, og getur hún stundum orðið ófær með öllu, svo að þeir, sem búa austan árinnar, eru að miklu leyti einangraðir.

Ég er sannfærður um það, að menn hafa skilning á því, hversu mikið nauðsynjamál hér er á ferðinni, og skal því ekki fjölyrða um þetta meira. Ég vil aðeins benda á það í sambandi við þetta mál, að hv. 8. landsk. þm. flytur till. svipaðs efnis, þar sem hann segir í grg.: „Samræmis vegna þykir rétt að taka Djúpá hér með, enda þótt hún hafi áður verið ákvörðuð að koma í kjölfar Geirlandsár samkv. till., sem fyrr hafa verið bornar fram á Alþ. um þau vatnsföll“. Ef hv. alþm. stæðu í þeirri trú, að þessu máli sé þegar borgið með samþykktum, sem Alþ. hefur áður gert, þá er ekki von til þess, að þessi till. verði samþ. En ég vænti þess, að hv. flm. þessarar till. skýri frá því, hvar þessar till., sem Alþ. hefur áður samþ., eru, — ég þekki ekki til þess, að þær hafi verið gerðar. Þess vegna vildi ég vænta þess, að þessi till. mín fengi fram að ganga. Ég tel rétt, að hv. fjvn. athugi það atriði, hvort nægileg trygging er fyrir því, að þessi brú komi, hvort sem þessi till. verður samþ. eða ekki, og hversu þau mál standa.