02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (1225)

31. mál, flutningastyrkur til hafnleysishéraða

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Það er bert af ræðu hv. flm., að það er ekki ætlazt til þess, að mál þetta fái þinglega meðferð. En það kemur þó ekki til mála, að hv. þm. V.-Sk. (SvbH) fái þann vilja sinn fram, að veittar verði 200 þús. kr. úr ríkissjóði án þess, að málið fari til athugunar í n. Geri ég það því að till. minni, að málinu verði vísað til hv. fjvn. Ég vil um leið nota tækifærið til þess að svara því, sem hv. þm. V.-Sk. beindi til mín áðan.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja: Hver var það hér í þessu þingi, sem gerði hörðustu og sterkustu kröfu um að leggja fram stórar fjárfúlgur í Krýsuvíkurveginn, óþarfasta veginn, sem gerður hefur verið á Íslandi enn sem komið er? Það var flokkur þessa hv. þm. Hann barði það í gegn, að 400 þús. kr. væru lagðar í þennan veg, sem endað hefur nú í þeim ógöngum, sem líklega verður aldrei hægt að komast yfir, nema með ærnu fé. Og þetta er gert, meðan önnur héruð bíða eftir nauðsynlegustu vegabótum, sem ekki þola bið. Þessi þáltill. er því ekki neitt sérstakt dæmi um heimtufrekju þessa hv. þm. eða flokksmanna hans.

Um sjálft málið er það að segja, að þær sveitir, sem ætlazt er til, að styrktar verði á þann hátt, sem í till greinir, flytja vörur sínar frá Rvík. Munu flutningar þeir kosta minna en flutningar til ýmissa annarra héraða landsins, eftir að þau hafa fyrst þurft að flytja vörurnar til sín með strandferðaskipum frá Rvík. Ég veit ekki, hve langt ætti að ganga, ef greiða ætti styrki til allra þeirra manna, sem þurfa að flytja vörur með bifreiðum frá höfnum.

Ég vil því leggja til, að málinu verði vísað til fjvn., þar sem það fær þá meðferð, sem hæstv. Alþ. er ein samboðin, og með því fyrirbyggt, að veitt séu hundruð og aftur hundruð þúsunda kr. til hvers, sem vera skal, án þess að viðkomandi n. fái nokkuð um þau mál að segja.