02.09.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (1229)

31. mál, flutningastyrkur til hafnleysishéraða

Gísli Jónsson:

Hv. þm. S.-Þ. hefur gerzt siðameistari yfir mér hér á Alþ. Ég vil benda þessum hv. þm. á, að hann þekkir ekki einu sinni svo vel þingsköp, að hann viti, hvernig á að ávarpa þm. í ræðum, því að þingsköp gera engan greinarmun á því, hvernig ávarpa skuli á Alþ. pólitíska andstæðinga. Ég vil því ráðleggja honum að stilla betur skap sitt, næst þegar hinn illi andi kemur yfir hann út af því, að Framsfl. skyldi tapa Barðastrandarsýslu við síðustu kosningar, og reyna að koma þinglega fram við hvern þann, sem hann á viðræður við. En til marks um það, hvor okkar er meira virtur svars hér á þingi, skal ég benda á, að við umr. um stærsta málið á þessu þingi, kjördæmamálið, hélt hann klukkutíma ræðu um allt milli himins og jarðar, talaði þar m. a. um Svein í Völundi sem einhvern vandræðagemsa, en var þó áður búinn að lýsa honum sem sérstaklega miklum uppeldisfræðingi, af því að hann sendi börn sín á sumrin norður í Þingeyjarsýslu, en þessari löngu ræðu hans var engu svarað. Ég vil spyrja hann: Veit hann svo lítið í sögu þessa lands, þó að hann hafi samið kennslubók í sögu landsins og látið kenna hana í skólum, að það var stríðið 1914–1918, sem olli því, að hætt var við járnbrautina, þar sem bílarnir tóku á því tímabili svo miklum framförum, að heppilegra þótti að taka þá til notkunar heldur en járnbraut. Það var ekkert vanhugsað í því máli hjá Jóni Þorlákssyni eða öðrum sjálfstæðisþingmönnum, sem þar komu við sögu.

Svo vil ég að síðustu mega spyrja þennan hv. þm., hvort honum væri ekki réttara, eftir hans löngu þingsetu, að reyna að stjórna betur skapi sínu og vera ekki á hverjum fundi með skæting og útúrsnúning í gremju sinni yfir, að Framsfl. skuli hafa komizt í minni hl. í einni sýslu, sem vanrækt hafði verið á þann veg, sem hann lýsti sjálfur svo vel í Tímanum í vor, af þeim, sem farið höfðu þar áður með þingmannsumboð.