19.08.1942
Efri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Hermann Jónasson:

Ég ætla ekki að fara um þetta mörgum orðum. En það er aðeins vegna þess, að það var á það minnzt, að það væri ekki farið út fyrir ramma umr. frekar en nál. gefur tilefni til, þetta nál., sem stangast, eftir því sem andstæðingar þess segja, í upphafi og niðurlagi og er að þeirra dómi ómerkilegt, en þeir þurfa samt fleiri klukkutíma til þess að tala um. Við framsóknarmenn höfum ekki ætlað okkur annað en það í þetta skipti að hafa nokkra ánægju af að sjá flokkana brjóta þingsköpin, og af að skrifa niður ræðutíma þeirra, sem er æði mikill, þegar þeir í blöðum hafa mikið talað um, hvað við tefjum mál, eftir að þeir hafa haldið 11 ræður í máli, sem Framsfl. hefur aðeins flutt eina ræðu í. Svo mun skráin yfir daginn í dag sýna heilindin í þessu, sem eru í samræmi við stjórnarfarið, sem ríkir í landinu. Og þegar hv. 5. þm. Reykv. er að tala um það í sambandi við þingsköp, að niðurlægingartímabil Framsfl. sé hafið og það sé á enda hans valdaferill, þá vil ég segja, að ég hélt, að þessi hv. þm. hefði vit á að minnast ekki á snöru í hengds manns húsi, þar sem hann er höfuðstuðningsmaður þeirrar stjórnar, sem byrjaði göngu sína með niðurlægingu, sem kann að enda með þeim endemum og ósköpum, að hann ætti ekki að minnast á þá snöru í sínu eigin húsi.