19.08.1942
Efri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Bjarni Benediktsson:

Það er ákaflega gaman að fá þessar yfirlýsingar dag eftir dag frá hv. þm. Str. (HermJ) um þau miklu viðbrigði, sem hér hafi orðið, eftir að hann lét af völdum. Það er einstakt hér á landi, að maður bregðist við eins og hann við það, að hann verður að hrökklast úr valdastóli. Ef ástandið er erfitt hér á landi, þá er það sízt lagað fyrir svona stjórnarandstöðu eins og framsóknarmenn, þar sem þeir hafa í frammi þá ófyrirleitnustu og ósvífnustu aðferð, sem nokkurn tíma hefur verið viðhöfð af andstæðingum í garð ríkisstj., í garð þeirrar stj., sem hefur orðið að glíma við þennan gamla Framsóknararf. Framsfl. hefur ekki til einskis verið búinn að vera við völd þessi ár. En það hefur fallið í annars skaut að reyna að bjarga því, sem bjargað verður eftir stjórnarferil framsóknarmanna. Við skulum vona, að það takist betur en framsóknarmenn hafa stofnað til. Ég hygg, að það sé einstakt í sögu þingsins, að menn séu eins hræddir við að ræða málin eins og þessir menn eru.