19.08.1942
Efri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Forseti (JJós) :

Þessum umr. er nú slitið. Viðvíkjandi ræðu hv. 1. þm. Eyf. vil ég segja það, að mér var ljóst, að frsm. meiri hluta n., sem talaði fyrstur hér í þessu máli í dag, fór nokkuð víða yfir. Er það að vísu staðreynd, að svo var. En ég hef starfað lengi í þessari hv. d. með þeim forseta, sem ekki hefur alltaf kippt sér upp við smámuni, og ég ætla ekki heldur að taka upp þann sið. Mér datt í hug að minnast á það við þennan ræðumann, sem ég hef getið um, að hann hafði farið of vítt í ræðu sinni. En ég gerði það ekki, vegna þess að frsm. minni hl. n. var næstur á mælendaskrá, og ég býst við, að það hefði litið illa út, eftir að annar málspartur var búinn að tala, en ekki hinn, að fara að tala um, að of vítt væri farið, af því að ég hugði, að frsm. minni hl. n. þyrfti að svara nokkru í ræðu frsm. meiri hl. n.. En strax, þegar þessi frsm. (minni hl.) var búinn að tala, minntist ég á þetta. (BSt: Hefur því verið hlýtt?) Forseti benti á það, en hitt getur verið tímaspursmál, hvenær eigi að slíta umr. vegna þess, að farið sé út fyrir efnið.

Hér með er þessum þingskapaumr. lokið, og verður nú haldið áfram umr. um frv., og verður takmarkaður ræðutími um það mál, sem fyrir liggur til umr., við það, að hver ræðumaður hafi 10 mínútur aðeins til umráða.