19.08.1942
Efri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti! Það virðist ætla að verða dálítið örðugra en efni standa til að afgreiða þetta mál hér í hv. þd. Í gær urðu hér svo langar umr. um ómerkilegt mál, held ég, að megi segja, að ekki vannst tími til að taka þetta mál til meðferðar, sem þó var þá á dagskrá. Og nú í dag hafa umr. orðið það langar, að hæstv. forseti hefur séð sig til neyddan að takmarka ræðutímann. En tekinn hefur verið tími til þess að ræða um þingsköp inn á milli umr. um þetta mál hér nú; sem hefur orðið til þess að skýra fyrir mér og öðrum nýjum þm. þær reglur þingskapa, sem sérstaklega á að fara eftir.

Þó að ég vilji ekki tefja afgreiðslu þessa máls hér, get ég ekki látið hjá líða að andmæla einu atriði, sem nokkuð áberandi hefur komið fram í umr. um þetta mál og einnig í nál. hv. minni hl. n., sem hér liggur fyrir. En það er, að þær kröfur, sem verkamenn hafa gert undanfarið og hafa barizt fyrir að fá fram, um að kaup þeirra verði hækkað, væru runnar af þeim rótum, að verkamenn heimtuðu að fá að verða hluttakar í þeim stríðsgróða, sem rennur og runnið hefur inn í landið, og vera „með vasana fulla af þúsund króna seðlum“, eins og það hefur verið orðað, en ættu þó yfir höfði sér, að þessir seðlar yrðu innan skamms ónýtir og verðlausir. Ég vil leyfa mér að segja það, að þessi staðhæfing er vægast sagt vitleysa. Kröfur verkamanna um hækkað kaup frá því sem hefur verið undanfarið, byggjast alls ekki á löngun þeirra til þess að safna að sér auði, heldur á eðlilegri þörf á að fullnægja lífsnauðsynjum sínum betur en þeir hafa getað gert áður. Þessar kröfur eru 2.00 kr. kaup á klst. í 8 klst. á dag, eða 16.00 kr. dagkaup. Ég geri tæplega ráð fyrir, að hv. þm. geti ekki fallizt á það, að þær tekjur, sem þarna er um að ræða, eru ekki hærri en það, að með þeim er aðeins hægt að fullnægja brýnustu daglegum þörfum hvers verkamannaheimilis. Kröfur verkamanna eru því byggðar á því að bæta lítils háttar kjör þeirra frá því, sem þau hafa verið, en ekki miðaðar til þess að safna auði. Ég hef tilhneigingu til þess að draga fram dæmi frá yfirstandandi dögum í þessu sambandi. Nú í húsnæðisleysinu komst ég að lokum inn í húsnæði hjá einum verkamanni hér í bænum, sem er kunningi minn. Hann hefur ekki undanfarið haft efni á að fá sér betri íbúð en svo, að hann býr í kjallara hér í bænum og hefur tvö herbergi og eldhús! Öll herbergin eru lítil og allur húsbúnaðurinn tveir ómerkilegir stólar. Í eldhúsinu er kassaræfill. Þessi verkamaður hefur haft þau kjör undanfarið, að hann hefur ekki getað búið íbúð sína betur þægindum heldur en þetta. Nú um daginn kom hann heim með 4 stóla, sem hann hafði keypt.

Kauphækkunin, sem verkamenn hafa fengið undanfarið og þeir vilja fá staðfesta með samningum, hefur það í för með sér — ekki að þeir safni gróða, — heldur að bæta örlítið úr þeim þörfum, sem þeir undanfarið hafa ekki haft ástæður til að veita sér fullnægingu á. Þessi kauphækkun verður ekki til þess, að þeir hafi fulla vasa af þúsund króna seðlum, heldur til þess að fullnægja brýnustu nauðsynjum. Og það er áreiðanlegt, að sá vandi, sem nú er fyrir hendi í kaupgjaldsmálum, verður engan veginn betur leystur heldur en með því, að í staðinn fyrir þann hernað, sem gegn verkamönnum hefur verið farinn með gerðardómsl. og á grundvelli þeirra, verði teknir upp samningar við verkamenn og að í þeim samningum verði fallizt á þær kröfur, sem verkamenn gera til þess að geta lifað sómasamlegu lífi. Ef það er gert, munu verkamenn fúslega og af fullum þegnskap leysa af höndum þau störf, sem nauðsynleg eru í þágu framleiðslunnar, til þess að leystur verði líka sá þáttur vandamálsins, sem mikið hefur verið rætt um í sambandi við þetta mál.

Ég vil vænta þess, að þegar þetta mál verður afgreitt frá þessari hv. d. og Alþ., verði þess gætt, að tekin verði í löggjöf ákvæði um að heimila verkalýðsfélögunum að segja upp þeim samningum, sem þau annars mundu verða bundin af um lengri tíma, til þess líka að auðveldara verði að ná því marki, sem á að ná með lausn þessa máls, að slíkir samningar geti tekizt sem greiðlegast af beggja hálfu, því að þá fyrst verður varanlegt gagn að lausn málsins.