19.08.1942
Efri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson):

Herra forseti! Á einum 10 mínútum er ekki hægt að eltast við að ræða um innflutning á byggingarefni, eins og hv. þm. Barð. (GJ) var að ræða um afurðasöluverð, þrælalög og hvar Sjálfstfl. hafi tapað mest fylgi og hvar minnst. Þetta er all þrautrætt áður.

En það er eitt atriði, sem umr. hafa nú aðallega snúizt um, bæði hjá hæstv. atvmrh. (MJ) og hv. 5. þm. Reykv. (BBen), að ég hefði átt að gera þær ráðstafanir, sem gera þurfti — og þeir viðurkenna í öðru orðinu, að það þurfi að gera þær — til þess að halda uppi ákvæðum gerðardómsl. Nú halda þeir því fram, að l. þessi hafi verið brotin, áður en ég lét af völdum.

Allir geta bent á l., sem eru brotin. Hegningarl. eru brotin, og þau eru ekki afnumin, lögreglusamþykktin er brotin oft á hverju kvöldi og húsaleigul. eru brotin daglega, — það er meira að segja auglýst í Morgunblaðinu —, og þannig er lengi hægt að telja, en hlutverk stjórnarinnar var að sjá um, að þau væru ekki brotin almennt.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að þetta atriði, sem ég tilfærði, sé ekki birt opinberlega í samningunum. Það er ekki rétt, og hv. 5. þm. Reykv. gætir ekki að því, að hæstv. atvmrh. sagði í ræðu sinni áðan, að hann hafi rekizt á þetta atriði í samningunum, og þar að auki á ég þennan samning og gæti sýnt hann, ef þess væri óskað. — Þetta sýnir aðeins málflutning þessara hv. þm. hér í hv. d.

Vitanlegt er, að þegar þessir samningar voru gerðir, þá var lögð áherzla á að takmarka óþarfa framkvæmdir, en þegar báðir ráðh. Sjálfstfl. neituðu að verða við því, þá var þýðingarlaust fyrir okkur að leggja þetta fram á Alþ. Þetta gerðist á þeim 7 vikum, sem Sjálfstfl. var að gera upp við sig, hvort hann skyldi rjúfa sambandið við Framsfl. eða ekki. Það eru þess vegna staðreyndir, að Sjálfstfl. eða ráðh. hans, sem stóðu gegn því, að þessar tvær ráðstafanir yrðu gerðar, sem ég hef drepið á, rufu beinlínis samninga við setuliðsstjórnina, og komu í veg fyrir, að þær ráðstafanir yrðu gerðar, sem þurfti til þess að halda gerðardómsl. uppi. Gerðardómsl. voru þess vegna ekki einhlít, eins og viðurkennt er í grg. frv. þessa, þar sem þurfti aðrar ráðstafanir með þeim, en gegn þeim stóðu ráðh. Sjálfstfl. Það er því undarlegt að halda uppi umr. um jafnaugljós atriði og þessi. Nál. mitt byggist á því, sem þurfti að gera til þess, að l. héldust uppi. Ég veit, að þessum hv. þm. er ljósara en þeir láta, að með þessu frv. er stefnt í fjármálalega upplausn, og ef ekki eru gerðar ráðstafanir umfram það, sem þetta frv. fer fram á, þá rekur að því, að allt okkar atvinnulíf á erlendum markaði stefnir í strand.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en vil að lokum segja það, að ég er þess fullviss, að fjármálastefna stjórnarflokkanna sýnir árangur sinn fyrr en varir, og það er þessum hv. þm. ljósara en þeir vilja láta uppi.