20.08.1942
Efri deild: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef, ásamt hv. þm. Seyðf., leyft mér að bera fram brtt. þá, er hér hefur verið leitað afbrigða fyrir. Við 1. umr. þessa máls lýsti ég yfir því, að ég mundi vinna að því, að slík ákvæði sem þessi yrðu tekin upp í þessi lög. Hv. 5. þm. Reykv. hefur hér nú lauslega skýrt frá því, að hann geti ekki verið með í flutningi þessarar brtt., og vill, að hún sé á annan veg. En ég tel, að sú lausn, er hann hugsar sér, sé ekki fullnægjandi.

Ég hef lauslega drepið á, að verkalýðsfélögin eru mjög misjafnlega lengi bundin samningum og sum þeirra allt til maíloka næsta ár. Allir sjá, að þetta er æðilangur tími, eins og nú standa sakir. Hins vegar er engin trygging fyrir því, að atvinnurekendur vildu taka upp nýja samninga við verkalýðsfélögin, áður en samningstíminn er útrunninn. Meiri líkur eru til, að flestir þeirra teldu þau bundin. Við höfum bent á, að sé þessi leið ekki farin, um leið og þessi l. eru afnumin, þá muni haldast við lýði sá smáskæruhernaður, sem undanfarið hefur einkennt atvinnulífið. Menn eru farnir að læra af reynslunni og munu gera áfram sér samninga. En það er einmitt þetta, sem við viljum fyrirbyggja með brtt. okkar. Ég hygg, að þetta sé nóg til þess að skýra, hvað fyrir okkur vakir. Ég veit af einkasamtölum, hvað vakir fyrir hv. 5. þm. Reykv., en ég mun ekki fara nánar út í það, þar sem það kemur ekki fram hér í till. formi.

Ég skora að lokum á hv. þdm. að ljá þessari brtt. fylgi sitt.