20.08.1942
Efri deild: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Hæstv. atvmrh. taldi brtt. okkar nokkurs konar lagaþvingun. En ef hún er það, þá er hún bein afleiðing af þeirri lagaþvingun, sem lögleidd var 8. janúar 1942, og færir verkalýðnum aftur aðeins þann rétt, sem þá var frá honum tekinn.

Ég veit, að þau félög eru til, sem mundu gera sína heildarsamninga, þótt þetta ákvæði verði ekki sett inn í l., en það er engin trygging fyrir, að allir atvinnurekendur fari þá leið af fúsum vilja. Ég hygg, að þessi svokallaða lagaþvingun sé nauðsynleg. Ég ætla ekki að vera með neinar aðdróttanir, en ég þekki atvinnurekendur, sem hafa barið í borðið og ekki viljað hlusta á nokkrar óskir um kjarabætur, en borið fyrir sig dómnefndina, og get ég því ekki búizt við neinu góðu, ef engin heimild er til þess að segja upp samningum. Ég gæti rökstutt þetta með dæmum, því að þau eru til, en ég vil ekki nefna nöfn.

Hæstv. ráðh. taldi verra, að till. kæmi fram í þessari deild, en það er bein afleiðing af því, að ég tel, að þetta mál eigi ekki að hrekjast á milli deilda og svo eigi að vera frá gengið, að þess þurfi ekki. Það getur vel verið, að hv. Nd. finni ástæðu til breyt. þrátt fyrir þetta, en þessi breyt. yrði að koma fram þar, og með þetta fyrir augum tel ég sjálfsagt, að þessi till. eigi að koma fram hér, til þess að málið geti siglt hraðbyri gegnum þingið, því að mér skilst, að til þess að geta fengið gott samkomulag í deilu þeirri, sem nú stendur yfir, verði aðilum að vera frjálst að undirskrifa samninga án þess, að dómnefndin vofi þar yfir. Vegna þessa hef ég talið rétt, að þessu máli yrði hraðað. Þessi uppsagnarfrestur hefur ekki svo mikla þýðingu fyrir það félag, sem nú stendur í deilunni, en það eru önnur félög, og mér er engin launung á því, að ég hugsa fyrst og fremst um það félag, sem ég er formaður í, Sjómannafélag Reykjavíkur. Það vita allir, að nú er uppi skæruhernaður við Eimskipafélag Íslands, og hef ég ekki nokkra trú á, að Sjómannafélag Reykjavíkur geti nokkuð hjálpað, ef það getur ekki sagt upp samningum. Ég tel það nauðsynlegt fyrir málið í heild, að þessi leið verði farin.