20.08.1942
Efri deild: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Atvmrh. (Magnús Jónsson) :

Ég býst við, að meðmælendur þessarar till. hafi tekið eftir því, að ég hef ekki talað á móti henni. Það, sem ég hef óskað eftir, er ekki annað en það, að dregið væri í lengstu lög að samþ. hana, meðan verið er að leita frjálsra samninga. Ég hef talið það viðkunnanlegra að samþ. hana ekki, fyrr en málið væri komið lengra.

Ég vil nú ekki segja, að svo langur tími sé til stefnu, og get vel setið hjá við atkvgr., kannske vegna þess, að ég er ekki svo vanur samningamaður, að ég vilji taka á mig ábyrgðina.

Ég býst við, að fyrir einstökum atvinnurekendum, sem berja í borðið, færi eins og Stevenson sagði, að færi um kúna, þegar hann var spurður, hvernig færi, ef kýr gengi fyrir járnbrautarlestina. „Það er verst fyrir kúna“, sagði hann, svo að það högg lendir á þeim sjálfum, því að menn eru ekki í vandræðum með vinnu.

Ég hef ekki orðið þess var heldur, að það, að þessi till. hefur ekki komið fram og ekki verið samþ., hafi staðið í vegi fyrir samningum. T. d. hafa samningar tekizt við Iðju, án þess að fyrri samningur væri úr gildi fallinn, og viðvíkjandi því, sem hv. 9. landsk. (SÁÓ) talaði um, veit ég ekki betur en skipin hafi farið út, og áhættuþóknunin hafi verð gefin eftir og samningarnir hafi gengið fyrir sig. Menn ganga út frá því, að l. verði samþ., og í raun og veru vilja allir, að samningar gætu tekizt. Menn eru ekki glaðir yfir þessum gömlu samningum, en játa, að þeir eru lögþvingaðir. Það má alveg segja, að það sé rökrétt afleiðing af afnámi gerðardómsl., að heimilt sé að segja upp af beggja hálfu þeim samningum, sem hafa gengið í gildi undir núverandi formi.

Ég vil segja, að það sé ekkert óviðkunnanlegt við það, þótt þessi till. væri felld, en frv. samþ. í heild, eftir að till. væri komin inn í það.

Ég er ekki á móti till., en tel hana hafa komið fram fyrr en nauðsyn krefur. Svo skal ég ekki tefja umr. um þetta, því að það er ekki svo stórt atriði.