20.08.1942
Efri deild: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

7. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Brynjólfur Bjarnason:

Ég vildi aðeins svara þessari fyrirspurn.

1. Hér er ekki um hættulegt fordæmi að ræða. Það er verið að ákveða með l., að þeir samningar, sem voru framlengdir vegna setningar gerðardómsl., skuli úr gildi falla með þeim.

2. Þeir samningar, sem núna eru í gildi og mundu vera í gildi áfram, þótt gerðardómurinn væri felldur, eru allt annars eðlis en venjulegir frjálsir samningar. Það eru ekki frjálsir samningar, heldur samningar, sem eru orðnir til fyrir lögþvingunarákvæði gerðardómsins. Það er ekki hægt að bera þá saman við frjálsa samninga.

Hér er um það að ræða, að lögþvingaðir samningar skuli niður falla og frjálsir samningar gerðir.