19.08.1942
Efri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

29. mál, hafnarlög fyrir Grundarfjörð

Frsm. (Gísli Jónsson):

Ég skal vera stuttorður um frv. þetta. N. hefur haft það til athugunar og borið það saman við gildandi hafnarl. annarra staða á landinu. Einnig hefur hún átt tal við vitamálastjóra um þessi mál og fengið hjá honum ýmsar upplýsingar, er hann hefur góðfúslega látið n. í té. Hefur n. komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri í samræmi við önnur lík l. að koma með þá brtt., að á eftir 2. málagr. 5. gr. komi: „Þessi ákvæði gilda og um þær bryggjur og önnur mannvirki, sem þegar hafa verið gerð á hafnarsvæðinu: Þ. e. a. s., að ein bryggja er þegar á staðnum, og því sjálfsagt, að hún komi inn í frv.

Þá var einnig dálítið rætt um sektarákvæði frv., og n. leit svo á, að þau væru of há samanborið við önnur lík ákvæði í l., þar sem þau eru frá 20 kr. upp í 500 kr., en n. leit svo á, að þetta mætti standa vegna þess, að hægt væri að nota lágmark sektarinnar. N. vill láta það koma fram, að landið er nú eign ríkisins, og í trausti þess, að einstaklingar fái það ekki, heldur höfnin, vill n. leggja til, að frv. verði samþ. með þessum breytingum.