21.08.1942
Neðri deild: 11. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

29. mál, hafnarlög fyrir Grundarfjörð

Gunnar Thoroddsen:

Ég vil taka undir það, að þetta frv. fái að ganga fram án n. og sem fyrst. Hæstv. atvmrh. hefur skýrt málið, og ég hafði ekki ætlað að kveðja mér hljóðs, en vildi aðeins leiðrétta það, að Hannes Jónsson sé upphafsmaður þessa máls. Hann mun hafa átt landsvæði á þeim slóðum, sem um er að ræða, en það var áður en hann eignaðist það landsvæði, að byrjað var að hugsa til hafnarbóta.

Málið lá fyrir fjvn. á síðasta þingi. Þá átti hv. þm. Snæf. (BjBj) sæti hér, svo að hann þarf ekki að kvarta undan því, að hann hafi ekkert fengið um málið að vita. — Að ekki hafi þýðingu að afgreiða málið undir veturinn, er sagt af ókunnugleika, því að margt má gera í sumar.

Hv. þm. sárnaði, að hann hafði ekki verið beðinn að flytja frv., en ég hygg, að forgöngumenn málsins hafi talið tryggara að snúa sér til ríkisstj., og það vænti ég, að hv. þm. skilji.