07.08.1942
Neðri deild: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Frv. það til l. um breyt. á stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, 18. maí 1920, og stjórnskipunarlögum, nr. 22 24. marz 1934, sem hér liggur fyrir, var samþ., eins og öllum er kunnugt um, á síðasta þingi. Um þetta mál hafa nú verið kosningar, og það hefur hlotið fylgi mjög mikils meiri hl. þjóðarinnar, og af 49 þm. eru 29 fylgismenn málsins. Það verður því að álítast tryggt, að þetta mál, sem af eðlilegum ástæðum er borið fram af ríkisstj., verði samþ. af því þingi, sem nú situr, og síðan fari fram kosningar eftir ákvæðum hinnar nýju stjórnarskrár.

Mál þetta er öllum hv. þdm. kunnugt.. Það er þrautrætt á þingi, í blöðum og í útvarpi og síðast, en ekki sízt, á kosningafundunum. Ég tel það því að bera í bakkafullan lækinn að láta fylgja þessum flutningi nokkra sérstaka grg.

Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr., en legg til, að því verði ekki vísað til n., vegna þess, að ég tel, að þangað eigi það ekkert erindi. Menn eru annaðhvort með því eða á móti því. Ræða yðar sé já, já og nei, nei, og það, sem er framyfir, er frá hinu illa. Ég tek það því fram aftur, að mál þetta á ekki erindi til nefndar.