04.08.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

Kosning til efri deildar

Eysteinn Jónsson:

Mig langar til að taka fram tvö atriði, áður en hæstv. forseti fellir úrskurð sinn í þessu máli.

Ætlast þingsköp til þess, að skipun í deildir Alþingis fari eftir niðurstöðum alþingiskosninganna, eða ætlast þingsköp til þess, að skipunin fari eftir því, hversu margir eru mættir á þeim fundi, þegar skipun í deildir fer fram? Ég held fram, að augljóst sé af ákvæðum þingskapa, að þau eru sett til þess, að skipun deilda geti aldrei farið eftir öðru en niðurstöðu sjálfra alþingiskosninganna, aldrei eftir því, hvort fleiri eða færri eru mættir á þeim þingfundi, þegar skipun í deildir fer fram. Ef úrskurðað verður, að lögmæt sé sú kosning, sem hér hefur farið fram, er opin leið fyrir þá flokka, sem vilja það viðhafa, að gera tilgang þessa ákvæðis þingskapanna að engu, aðeins með því að láta menn vanta á fundinn, sem skipa á í deildirnar, ef flokkurinn vildi af einhverjum ástæðum fá færari menn í Ed. en honum ber.

Ég man ekki betur en að þetta ákvæði sé sett með hliðsjón af því, að einn flokkur vildi skjóta sér undan því að leggja til Ed. þá þm., sem honum bar. Ef deildir mætti skipa aðeins eftir því, hve margir eru á þessum eina fundi, væri leikur einn að komast hjá þessari skyldu, og hefði núverandi ákvæði þá verið þýðingarlaust.

Hitt atriðið er það, eins og hv. 1. þm. Árn. benti á, að það eru aðrar reglur um skipun í deildir en um skipun nefnda í þinginu. Þingsköp segja um skipun í deildir, hvað flokkarnir skuli láta marga menn á lista. Og ég lít svo á, að þeim sé óheimilt að láta fleiri menn á listann en eigi að fara eftir hlutfalli í alþingiskosningum, og óheimilt einnig að láta færri menn. Það verði að vera nákvæmlega jafnmargir menn eins og flokknum ber að hafa eftir niðurstöðu kosninganna. Ég lít á þetta sem skylduákvæði, til þess að engin sérstök brögð séu viðhöfð við skipun deildanna með fjarvistum af fundi.

Ég vil því taka undir það, sem hv. 1. þm. Árn. sagði, og æskja úrskurðar um þetta. Tel ég illa farið, ef úrskurður fellur á þá leið, að kosning verði tekin gild, því að þá ónýtist þessi tilgangur, að deildir séu ávallt skipaðar samkv. niðurstöðu alþingiskosninga, en það er aðalatriði málsins.