07.08.1942
Neðri deild: 3. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Ég vek athygli á því enn, að umr. í nefnd eru þýðingarlausar. 29 þm. eru kosnir með þeirri skuldbindingu að segja já við frv. óbreyttu, 20 með þeirri að segja nei, og hvað er að gera annað en ljúka því? (ÁÁ: Var það ekki eins 1933?) Ég hef vissa tilhneigingu til að láta undan þrábeiðni Framsfl. um þetta atriði, einkum eftir yfirlýsingu hv. 1. þm. S.-M. Ég vildi spyrja, hvort það gæti ekki verið í samræmi við óskir flokksins, að málið væri að vísu afgr. til 2. umr. nú, en hæstv. forseti leyfði við 2. og 3. umr. almennar umr. um málið og milli umr. yrði leitað um það samkomulags, hvernig hentast væri, að þær samræður færu fram, sem þm. taldi þörf á í stjskrn., og kæmi þá til athugunar, að sú n. yrði kosin eins og hann fór fram á. Fyrirspurn hans um þinglok með tilliti til væntanlegra kosninga er ekki auðvelt að svara með vissu. Ég hafði gert mér vonir um, að þingi yrði slitið eigi síðar en um mánaðamótin næstu og heppilegastur kjördagur gæti orðið um eða upp úr miðjum október, og sjálfsagt er að reyna allt til þess, að hann geti orðið á hentugum tíma. Sunnudagur síðast í slætti gæti í óþurrkasumri orðið einhver alversti kosningadagur, sem hægt væri að hugsa sér í sveitum.