14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

— Eins og nál. ber með sér, leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. óbreytt. Á þessu stigi málsins er ekki ástæða til að viðhafa mörg orð af hálfu meiri hl. n. Málið var þrautrætt á síðasta þingi, þar á meðal við útvarpsumr. í þrjú kvöld. Það hefur einnig verið margrætt í blöðum allra flokkanna og á mörgum þingmálafundum. Dómur þjóðarinnar um málið hefur orðið sá, að rúmlega 40 þúsundir kjósenda hafa lýst yfir fylgi sínu við það, en ekki nema hér um bil 16 þúsundir andstöðu. Að vísu kom fram sú till. í stjskrn., að málinu yrði frestað og þar með kosningum. En fylgismenn frv. litu svo á, að það væri útkljáð með þjóðaratkvæði, að málinu bæri að halda fram og þar með, að hafa bæri kosningar eina fljótt og auðið er. Sé ég svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið, en að því leyti, sem önnur mál kunna að blandast hér inn í, nægir að ræða þau við 3. umr.