14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason):

Ég get ekki látið hjá líða að þakka hv. 1. landsk. fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf í síðustu ræðu sinni, er hann sagðist hafa litla trú á starfsaðferðum Framsfl. Ég get ekki kosið mér betri sönnun fyrir því, að flokkurinn sé á réttri braut, en þessa yfirlýsingu frá einum mesta einræðisflokki, sem uppi er í heiminum. Allir, sem fylgjast með, vita að starfsaðferðir kommúnista og nazista eru mjög líkar, og engan langar til að fá hól frá þeim flokkum. Þegar svona yfirlýsing kemur frá kommúnistum, þá telja þeir auðvitað Framsfl. Þránd í Götu sinna fyrirætlana, en þeirra ólýðræðislegu reglur og öfgastefnur er mönnum vel kunnugt um. Enda mun Framsfl. líka sporna við áhrifum slíkra manna í þjóðfélaginu. Þá reyndi þessi hv. þm. að mótmæla því, að stefna þeirra mótaðist af aðgerðum Rússlands, en því er ekki hægt að mótmæla, þar sem nægar sannanir eru fyrir hendi. — Þegar Ísland var hernumið, þá voru Rússar bandamenn nazista, enda voru kommúnistar hér þá mjög andvígir Bretum, sem hertóku landið, og sýndu þeim jafnvel fullan fjandskap. Þá töldu þeir alla vinnu fyrir setuliðið ganga landráðum næst. (SigfS: Hvar stóð það?) Það stóð í Þjóðviljanum, sem er víða til enn þá, enda þótt hann sé flestum hvimleiður. Hvað skeður svo, þegar þessir vinir, Stalin og Hitler, verða óvinir? Jú, þá skeður það, að kommúnistablöðin leggja blessun sína yfir setuliðsvinnuna og segja jafnvel, að hún eigi að ganga fyrir annarri vinnu. Nú spyrja menn, af hverju þessi afstaða hafi breytzt svona. Hagsmunir okkar Íslendinga eru þeir sömu og þegar setuliðið settist hér að fyrst, — eða er ekki svo? Vissulega hafa þeir ekki breytzt. Hvað er það þá? Því er auðsvarað, — viðhorf kommúnista breyttist vegna þess, að breyting varð á afstöðu Rússa til stríðsins. Þeir, sem hugsa út frá íslenzku sjónarmiði, hljóta að hafa sama viðhorf til stríðsins og fyrst. — Svo segjast þessir menn berjast fyrir þjóðarhagsmunum og eru að tala um refilstigu annarra.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. landsk. sagði, að nýi tíminn gæti betur kennt hinum gamla, þá er það oft svo, en ég vil segja það, að þegar fulltrúar nýja tímans koma frá kommúnistum eða nazistum, þá mega menn vera á varðbergi.