14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Ég vildi gjarnan, að málið yrði útrætt á þessum fundi, og get sleppt að svara hv. frsm. minni hl. (SvbH), aðeins vísað á bug þeirri fullyrðingu hans, að ég hafi talið, að af stjórnarskrármálinu hafi leitt einhverja ógæfu yfir þjóðina. Það var mjög gagnsær útúrsnúningur. En ég taldi og tel, að sú barátta móti launamönnum í landinu, sem hófst strax upp úr kosningafrestuninni, sé aðalástæða ófremdarástandsins, sem nú ríkir. Hv. 1. þm. S.-M. bar brigður á, að hægt sé fyrir flokka að starfa saman að nauðsynjamálum rétt fyrir kosningar, en ég orðaði þann möguleika, að það ætti að vera hægt. Ég man ekki betur en Framsfl. væri það ríkast í huga í fyrravetur að stöðva þetta stjskrfrv. og láta fara fram almennar kosningar til 4 ára án kosningadeilna. Nú voru sumarkosningarnar miðaðar við þetta eina mál og kjósendum. sagt, að á eftir kæmu kosningarnar til 4 ára, eins og ákveðið er í frv. Það kemur ekki til neinna mála að læðast aftan að þjóðinni í þessu máli, svíkja hana um kosningar í haust, hinar almennu kosningar, sem Framsfl. vildi láta fram fara s. l. vor. En hví gætu þær ekki farið fram með sama móti og Framsfl. hugsaði sér þá? Ég hef lítið annað gert en vitna í möguleika, sem Framsfl. hefur á sínum tíma lagt mikla áherzlu á. Með skilyrðum sínum í bréfinu hefur. Framsfl. dregið mjög úr möguleikum, sem á þessu voru, því að um það getur ekki verið að ræða að hvika frá ákvæði þessa frv. um kosningar.