14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Umr. bera því ljóst vitni, að enginn vilji er fyrir því að tefja þetta mál. — Ég vil leiðrétta það, sem komið hefur tvisvar eða þrisvar fram hjá hv. frsm. meiri hl., að eftir að kosningafrestunin var ákveðin, hafi verið tekin upp sérstök barátta fyrir því að leysa fjárhagsmálin á kostnað launastéttanna. Það er rangt, að þau hafi átt að leysa á kostnað nokkurrar stéttar sérstaklega, en hins var krafizt, að launafólk skærist þar ekki úr leik, en þá var það, að ýmsir töldu sér hag í að. eggja launamenn á að gera það og hrundu upplausninni af stað.

Hv. frsm. hélt því fram, að Framsfl. hefði spillt með bréfinu möguleikum fyrir samstarfi. Það er alger misskilningur, staðreyndir bréfsins eru það, sem standa í vegi, ekki bréfritunin. Framsfl. skortir trú á, að flokkar geti breytzt svo á einum mánuði, að þeir geti að óbreyttum grundvelli farið að starfa saman þar, sem þeir hafa verið ósáttir um allt, og geti náð fullum árangri. Þetta hljóta hv. andstöðuflokkar okkar framsóknarmanna að skilja mætavel, þó að þeir þykist vegna málstaðar síns vera neyddir til að látast ekki skilja það. Gagnar þá ekki að hamra lengur við þá á þessum augljósu sannindum. En þeir ættu að viðurkenna afstöðu Framsfl., þegar þeir sjá, að hún er af fullum heilindum og getur ekki verið önnur en hún er. Það er ekki sæmilegt að reyna þá að læða því inn hjá mönnum, að hún sýni ábyrgðarleysi. Það er ekki sæmilegt.

Hv. frsm. meiri hl. og fleiri hafa lagt áherzlu á, að með samþykkt þessa frv. sé framkvæmdur lokaþáttur kjördæmaskipunarmálsins. Það er á misskilningi byggt. Lokaþátturinn mun verða í kosningunum, sem fara í hönd. Það er enn hægt að leiðrétta það, sem með hinni nýju kjördæmaskipun á að vinna. Aðstandendur frv. eiga enn eftir að bíta úr nálinni.