14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Hv. frsm. meiri hl. þykist ekki skilja, að lokaþáttur kjördæmamálsins verði við kosningar fremur en við undirskrift ríkisstjóra. Ég geri þó ráð fyrir, að til muni vera kjósendur, sem hafa fullan hug á að gera að engu þann ávinning, sem sumir flokkar ætluðu að hafa af þessu máli, og þá t. d. þannig, að þriðjungarnir, sem í tvímenningskjördæmunum áttu að eyða valdi meiri hl., verði engir þriðjungar lengur og dugi þeim flokkum ekki til skemmdarverka, sem þeir ætluðu.

Að lokum: Þessi hv. þm. heldur því enn fram, að Framsfl. skorist undan að bera ábyrgð á gangi mála. Það er ekki rétt. Framsóknarmenn hafa aldrei skorazt undan að gegna þingmannsskyldum sínum og munu ekki gera það, þótt þeir vilji ekki bera ábyrgð á stefnu núv. stjórnar og stjórnarflokka. Það á ákaflega illa við, þegar þm. Alþfl. og Sósfl. bera það fram, að þetta sé ábyrgðarleysi. En þeim þykir e. t. v. borga sig hvaða málflutningur, sem er, þegar um það er að ræða, að óskapnaður þessa frv. nái tilgangi sínum.