14.08.1942
Neðri deild: 7. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Guðmundsson:

Það eru aðeins nokkur orð í tilefni af ræðu, sem hv. 6. landsk. flutti áðan. Hann sagði, að sú stjskr., sem gildir nú, geri ráð fyrir, að þingflokkarnir eigi að hafa þingmannatölu í samræmi við kjósendatölu. Ég er hissa, að einn af hæstaréttarmálaflutningsmönnum vorum skuli leyfa sér að viðhafa slíkar blekkingar. Þetta ákvæði, sem hann nefndi, er aðeins um það, hvernig eigi að úthluta uppbótarþingsætum. Það á að skipta þessum 11 sætum þannig, að þingmannatala flokkanna verði í sem fyllstu samræmi við kjósendatölu. Hitt sjá vitanlega allir, að ef það ætti að vera tryggt, að þingmannatalan færi eftir kjósendatölu, mætti tala uppbótarþingsætanna ekki vera takmörkuð. En einmitt það, að uppbótarþingsætatalan er takmörkuð, sannar, að það var alls ekki ætlun löggjafans 1933, að þingmannafjöldi flokkanna yrði í fullu samræmi við kjósendatölu þeirra.

Það er ef til vill til þess að flýta fyrir afgreiðslu málsins, að þessi hv. þm. fer að tala um kosningafrestunina, en eins og hann veit bezt, voru það Sjálfstfl. og Alþfl., sem með endurteknum kröfum um kosningar gerðu ókleift að láta frestunina gilda lengur.