18.08.1942
Neðri deild: 8. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Pálmason:

Eins og þegar hefur verið upplýst, er það eftir kröfu Framsfl., að hér fara fram útvarpsumr. um stjórnarskrárbreyt., kjördæmamálið. Ég skal byrja á því að lýsa yfir því fyrir hönd Sjálfstfl., að hann telur þetta mál útrætt.

Málið er afgert og verður að l. innan skamms. Það er búið að ræða þetta mál í marga mánuði í blöðum, á Alþ., í útvarpi og á ótal fundum um landið allt. Þjóðin hefur greitt um það atkv., og yfir 41 þús. kjósendur hafa verið með, en 16 þús. á móti. 29 alþm. eru bundnir loforðum við kjósendur sína að fylgja þessu máli óbreyttu. Allt þvaður framsóknarmanna um þetta mál hér í d., sem hefur tekið mikinn tíma að undanförnu, hefur verið á þá leið, að við sjálfstæðismenn höfum ekki séð ástæðu til að virða það svars. En þegar heimtað er að ræða við þjóðina alla um þetta mál, þá er skylt að taka þátt í þeim umr., því að þótt kjördæmamálið sé útrætt, er það ekki útrætt, hvernig framkoma Framsfl. hefur verið í sambandi við þetta mál. – Þær ofstopafullu æsingar, sem sá flokkur stofnaði til í sambandi við afgreiðslu þessa réttlætismáls, hafa verið þannig, að gild ástæða er til að víkja þar að og minna á fáein atriði, sem úrslit kosninganna hafa sannað. Öll kosningabaráttan var rekin þannig af hálfu framsóknarmanna, að allt skyldi miða við það, hvort þeir skyldu fá stöðvunarvald á þingi til þess að drepa þetta mál. Þeirri ofsalegu baráttu hafa þeir gersamlega tapað. Það stríð er búið með fullum ósigri framsóknarmanna.

Þeir hafa tapað kosningunum alveg samkv. sínum eigin röksemdum og takmarki, sem þeir lýstu yfir meðan baráttan stóð. Þá er þess að geta, að allar æsingarnar, sem þessir menn stofnuðu til úti á landinu, voru af þeirra hálfu byggðar á því, að hér væri um að ræða heilagt varnarstríð fyrir dreifbýlið gegn höfuðstaðarvaldinu, Rvík. Þetta var reynt að berja inn í fólkið með allri þeirri áróðurstækni, sem hægt er að beita, og þú að undarlegt sé, eru líkur til, að þessi blekking hafi verkað á nokkurn hluta kjósendanna í landinu, einkum þar sem ókunnugir menn voru til varnar. Nú hefur reynslan sannað það áþreifanlega, er áður var vitað, að þetta er hin herfilegasta blekking. Baráttan var ekki milli Reykjavíkur og dreifbýlisins, heldur um það að koma á réttlátari skiptingu valdsins samkvæmt kjósendavilja utan Reykjavíkur. Nú er ljóst, að fylgjendur þessa máls fengu nærri 24 þúsund atkv. utan Rvíkur, og 12 þm. kosna, en andstæðingarnir, framsóknarmennirnir, fengu 15 þús. atkv. og 20 þm. Annar aðilinn þurfti aðeins 750 atkv. á þm., en hinn 2000 atkv., allt utan Rvíkur. Slíkt kemur nú aldrei fyrir aftur, og er það vel. Hefði hin nýja skipun verið í gildi, mundi breyt. á þessu hafa orðið sú, að fylgjendur málsins hefðu fengið kosna 17 þingmenn, en Framsfl. 16 miðað við þær kjósendatölur, sem þessar kosningar sýna. Í næstu kosningum hlýtur breytingin þó að verða talsvert meiri, af því að reynslan hefur sannað, að Framsfl. fór með fals og blekkingar, og þá er baráttan um þetta mál búin að vera. Má því ætla, að fleiri menn en áður átti sig á því, hvílíkur félagsskapur Framsfl. er, enda kemur nú fleira til, er opnað geti augu þeirra manna, sem lagt hafa trúnað á blekkingarvaðalinn.

Er í því sambandi vert að minnast á það einkennilega bréf, sem Framsfl. skrifaði nýlega hinum flokkunum hér á þingi og þeir allir svöruðu í aðalatriðum á eina leið. Verð ég að mótmæla því sem algerlega röngu, sem 1. þm. S.-M., Eysteinn Jónsson, sagði áðan, að svörin hafi verið ókurteisleg. Í þessu bréfi var það nokkuð rakið, hver vandi sé nú fyrir höndum í atvinnulífi og menningu þjóðarinnar og hver nauðsyn sé á, að allir stjórnmálaflokkar séu samtaka um að mæta þessum vanda og vinna saman. Er þar að vísu margt réttilega sagt, en ekkert annað en það, sem þeir menn vita allir, er sæti eiga á Alþ., og þeir aðrir, sem aðstöðu hafa til að fylgjast með því, sem hefur verið að gerast að undanförnu. — Framsfl. býður svo hinum flokkunum lið sitt og samvinnu til að forða þjóðfélaginu frá þeim voða, sem fram undan sé. En flokkurinn setur eitt skilyrði fyrir sinni dýrmætu aðstoð, og skilyrðið er, að hinir flokkarnir svíki stjórnarskrármálið og láti engar kosningar fara fram.

Þremur þingflokkum, 29 þingmönnum, er boðið upp á það að fá að komast í samvinnu við Framsfl., ef þeir gerist svikarar áður. Aðgangseyrir er sá að svíkja 41–42 þúsund kjósendur. Þetta er þannig að skilja, að ef þessir 29 þingmenn ætla sér að verða heiðarlegir menn, þá vill Framsfl. enga samvinnu við þá hafa. Þá mega málefni þjóðarinnar fara hvernig sem verkast vill fyrir Framsfl. En ef þessir 29 alþingismenn vilja gerast svikarar, ef þeir vilja kasta burtu sæmd sinni og trausti, þá eru þeim boðin þau glæsilegu boð, að komast í fangið á Framsókn og njóta allrar aðstoðar til að bjarga landi og þjóð á mestu hættutímum. — Það hafa margir menn innan þings og utan undrazt þetta bréf, þetta einstæða tilboð. En ég undrast þetta ekki neitt. Ég þekki Framsfl. betur en margir aðrir, og mér finnst þetta mjög í samræmi við hugsunarhátt, starfsaðferðir og aðra framkomu framsóknarmanna. Raunar er það víst, að enginn félagsskapur í þessu landi annar en Framsfl. hefði getað gert svona tilboð, sent svona bréf. Engir aðrir mundu hafa til að bera þann hroka, þá frekju og þá einstæðu ósvífni, sem í þessu felst. Þó er það nærri furðulegt, að þetta skuli vera sent í umboði 20 alþm., en nokkrir þeirra hafa sennilega ekki áttað sig á því, hvað þeir voru að fara.

Það er nokkuð algengt fyrirbrigði í mannlegu félagi, að sjálfhælnir menn hæli sér einna mest af þeim kostum, sem þá vantar. Framsóknarmenn eru engin undantekning í þessu efni. Þeir hafa á undanförnum árum ekki hælt sér af neinu eins og ábyrgðartilfinningu. Þeir einir eiga að vera ábyrgur flokkur, er skilur þörf þjóðarinnar o. s. frv. Þetta sannar regluna, enda hefur reynslan sýnt, að ábyrgðarleysi Framsfl. gagnvart málefnum þjóðarinnar og félagslegu starfi gengur úr hófi fram. Þá sögu þarf ekki mikið að rekja, en á fáein dæmi má benda frá síðara misserinu. Táknrænasta og greinilegasta lifandi myndin þessarar tegundar í liði framsóknarmanna er Hermann Jónasson fyrrv. ráðherra.

Á honum valt það meira en nokkrum öðrum, hversu vel gengi að halda saman viðunandi samvinnu milli flokka um landsstjórn og málefnaafgreiðslu. Á síðasta hausti fékk hann því ekki framgengt samkv. vilja sínum, að eitt vanhugsað frv. um lögfestingu kaupgjalds og afurðaverðs yrði gert að stjórnarfrv. Fyrir þetta eitt kastaði hann sér fyrir borð af stjórnarskipinu. En hann skreið upp aftur eftir fáeinar vikur, þegar það eitt hafði gerzt, að búið var að drepa þetta sama frv. á Alþ. Og um leið birti hann þjóðinni hina frægu yfirlýsingu, sem þannig hljóðar: Nú er ég ábyrgðarlaus. Það er eftirtektarvert, að það er engu líkara en að flokkur þessa fallna ráðherra hafi gert þessa yfirlýsingu að sínum einkunnarorðum á því tímabili, sem síðan er liðið, og það er beinlínis sorglegt til þess að vita, að svo stór flokkur núna í okkar litla þjóðfélagi skuli hafa hlaupið slíkar villigötur. En forustan hefur verið ákveðin. — Hermann Jónasson hefur stjórnað förinni. Nokkur dæmi þessu til sönnunar skulu hér nefnd.

1. — Þegar hann lýsti yfir á hátíðlegri stund, á gamlaárskvöld, frammi fyrir allri þjóðinni, að nú þyrftu atvinnurekendur ekki að semja við verkamenn í vinnudeilum, því að ríkisvaldið mundi taka til sinna ráða, þá blöskraði mönnum hrokinn, enda var margt fleira svipaðrar tegundar í þeirri ræðu. Afleiðingarnar hafa líka orðið eftir því, sem til var stofnað.

2. — Þegar bæjarstjórnarkosningar fóru hér fram í vetur, þá töldu framsóknarmenn sig bezt til þess fallna að setja annan svip á höfuðborgina — betri svip. Þeir þóttust ætla að bjarga henni, auka hér allar framkvæmdir og bæta úr öllu, sem aflaga fer, líklega til þess að sveitafólkið kepptist enn meira við að flykkjast hingað.

Þá setti Hermann Jónasson sig í odd í baráttunni að óþörfu, en hann fékk vantraust hjá 95% kjósendanna. Framsfl. fékk engan mann kosinn í 15 manna hlutfallskosningu. — Fögru kosningaloforðin dugðu ekki til. Auðvitað af því að Reykvíkingar þekkja betur en aðrir landsmenn starfshætti og stjórnmálaspillingu Framsfl.

3. — Framsóknarmenn urðu fyrstir til að ákveða það s.l. vetur, að nú skyldu verða alþingiskosningar á þessu ári. Þeir höfðu þó í fyrra þótzt ætla að fresta þeim fram yfir stríð. En þegar þessir menn höfðu ákveðið það með miklu yfirlæti, að nú skyldi kjósa, og þegar hinir flokkarnir tóku upp að eðlilegum hætti eitt af ágreiningsmálunum, kjördæmamálið, þá ætluðu framsóknarmenn að ærast af vandlætingu og ofsa. Þá rufu þeir stjórnarsamvinnu við sjálfstæðismenn og höfðu í frammi hótanir og ofstopa eins og kunnugt er. Þá þóttu engin önnur vandamál þess virði, að samvinna um afgreiðslu þeirra yrði áfram. Þá var óhætt að stofna til innlends ófriðar og hirða ekkert um ábyrgðartilfinningu.

Síðan hafa þessir menn lifað eftir reglum, sem sagt er, að einn af þeirra beztu mönnum hafi auglýst á framboðsfundi: Hvað varðar okkur um það, hvernig fer með afgreiðslu mála, þegar við höfum ekki lengur menn í stjórn? Þeir hafa látið svo sem þá varðaði ekkert um það, hvernig fer með atvinnulíf og önnur þjóðmál, aðeins ef þeir gætu gert andstæðingum sínum ógagn og sínum flokki gagn. Þeir hafa gert núverandi ríkisstj. alla þá örðugleika, sem þeir hafa mátt. — Þetta hefur komið fram í blöðum þeirra, á fundum og yfirleitt í öllu hinu flokkslega starfi. Sú aðferð er náttúrlega því vítaverðari sem það er víst, að þekkingarleysi hefur ekki verið til að dreifa. Flokkur, sem búinn er að hafa á hendi forustu í stjórn landsins í 15 ár, veit áreiðanlega svo vel, hvílíkir örðugleikar eru á þessum hættutímum fyrir ríkisstj., hver sem hún er, að hann getur ekki borið við þekkingarleysi, þegar hann hefur verið að auka örðugleika ríkisstj. og alls þjóðfélagsins með ofsa sínum og rógburði. — Allt tal og öll skrif framsóknarmanna um upplausn í þjóðfélaginu, sem að engu leyti sé þeim að kenna, en eingöngu þeirra andstæðingum, eru af þessum toga spunnin. Það er að vísu rétt, að á síðari árum fer vaxandi margvísleg upplausn og óreiða í okkar þjóðfélagi. En hitt er líka víst, að það í þessu, sem ekki er sprottið af þjóðinni óviðráðanlegum orsökum, þá á Framsfl. á því meiri sök en nokkur annar hópur manna í landinu. Hann er búinn að ráða mestu um stjórnarfar í 15 ár, og á öllum þeim tíma hefur spillingin í stjórnarfari landsins stöðugt farið vaxandi.

Flokkurinn hefur beinlínis lifað og þróazt á því að rægja menn og stéttir, sveitir og kaupstaði, hvað gegn öðru.

Árið 1939 var hrunið orðið fyrirsjáanlegt við næsta fótmál. Þá sýndu sjálfstæðismenn þann þegnskap, sem mikið reyndi á tilfinningar og flokksþol, að ganga til samvinnu við hinn syndga valdaflokk, Framsfl. Sú samvinna bar því miður ekki tilætlaðan árangur og kom ekki í veg fyrir áframhaldandi spillingu á ýmsum sviðum. Þó er víst, að fjárhagslega gerði hún svo mikið gagn, að ekki verður tölum talið, og nokkru siðsamlegri var framkoma framsóknarmanna á tímabili en áður. Sennilega hefði þó hruninu ekki orðið að fullu afstýrt, ef ekki hefði komið verðhækkun og peningaflóð stríðsins.

En eftir að þetta hefur gerzt, eftir að framsóknarmenn hafa að ástæðulitlu hlaupið frá skyldum sínum í stjórnarsamvinnu, þá er það undravert og næstum ofboðslegt að sjá og heyra framsóknarmenn kenna þeirri stjórn, sem við tók, um allt, sem aflaga fer, mennina, sem á ástandinu eiga allra manna mesta sök. — Slík framkoma er svo fyrir neðan allar hellur, að það gegnir furðu, að nokkur heiðvirður maður skuli ljá slíkum flokki sitt fylgi.

Verkalýðs- og kaupgjaldsmálin eru sem kunnugt er einhver vandasömustu og þýðingarmestu viðfangsefni í hverju þjóðfélagi, og hér á landi eru þau það nú á tímum venju fremur.

Ástandið er hér nú annað en nokkurs staðar annars staðar þekkist vegna hins fjölmenna setuliðs og hinnar miklu eftirspurnar eftir vinnu frá þess hálfu.

Það hefur verið augljóst að undanförnu, að sú aðstaða fyrir ríkisstj., að hafa verkalýðsflokkana í fullri andstöðu á aðra hlið og yfirboð herliðsins á hina, er svo örðug og óheppileg, að hún gat ekki haldizt lengi. Ásakanir Framsfl. um það, að allir árekstrarnir á þessu sviði séu því að kenna, að þeir eru ekki lengur í stjórn, eru áreiðanlega út í bláinn. Ég held, að enginn fullvita Íslendingur utan Framsfl. trúi því, að þessi mál stæðu eitthvað betur, ef Hermann Jónasson hefði verið enn þá forsætisráðherra. Enginn stjórnmálaflokkur er eins óvinsæll hjá íslenzkum verkamönnum og Framsfl. Að deilurnar um kaup og kjör hefðu því verið minni, ef þessi flokkur hefði ráðið, er því fjarstæða.

Ef Hermann Jónasson hefði reynt sem ráðh. að jafna kaupdeilur síðustu mánaða með valdheitingu, þá er ekki að vita, hvar við stæðum nú. Það er þó víst, að við stæðum verr, en ekki betur.

Mörg önnur dæmi mætti nefna, sem stefna í sömu átt. Eitt þeirra snýr beint að okkur bændunum, þótt ekki sé það mjög stórvægilegt. Það kom í ljós fyrir fáum dögum hér á þingi. Núverandi forsætis- og landbúnaðarráherra, Ólafur Thors, lagði fyrir sameinað þing tillögu um að tryggja bændum fullnægjandi birgðir af síldarmjöli fyrir 32 kr. tunnuna, en nú er söluverðið 20 kr. hærra. Þá stóð upp fyrrv. ráðh. Hermann Jónasson og talaði um það með takmarkalausri fyrirlitningu og yfirlæti, að þetta væri svo sjálfsagt og lítilfjörlegt mál, að það væri varla þess virði að tala um það. Þessi sami maður, sem var landbrh. í fyrra, lét síldarmjölið til bænda þá fara upp í 43 krónur. En þá var kaupgjald við heyvinnu 50–100% lægra en nú, og þá voru afurðir landbúnaðarins í miklu lægra verði en ætla má, að nú verði. — Svona framkoma er svo ógeðsleg, að hún er samboðin framsóknarmönnum einum og þó alls ekki nema sumum þeirra. Hugsunarhátturinn, sem stendur að baki svona framkomu, hann er svo rætinn, að furðu gegnir. Hann er ekki tengdur við það, hvort hægt er að gera bændastétt landsins gagn, heldur hitt, hvort hægt er að koma í veg fyrir það, að núverandi landbúnaðarráðherra fái viðeigandi og réttmæta viðurkenningu fyrir réttan skilning á þessu máli. Það er sama hugsunin, sem á ótal sviðum skýtur upp kollinum hjá framsóknarmönnum, að meta menn eingöngu eftir því, hvar þeir eru í flokki; og málefni eftir því, hver ber þau fram. Og svo leyfa þessir menn sér að tala um blinda flokksþjónustu annarra manna.

Ég get hugsað mér, að nú muni allur almenningur utan Alþ. spyrja: Hvernig stendur á því, að nú skuli vera farið að ræða kjördæmamálið í útvarpi, þetta þrautrædda mál? Við hér vitum um orsökina. Hún er sú, að framsóknarmenn trúa því, sem ekki er ósennilegt, að þeir hafi fengið nokkur þúsund atkvæði í síðustu kosningum vegna æsinga sinna og blekkinga út af þessu máli. Þeir halda, að kjósendur trúi því enn; að þeir hafi verið á réttri leið í andstöðunni. Þess vegna vilja framsóknarmenn reyna að viðhalda æsingunni út af þessu máli sem lengst, ef verða mætti til að breiða yfir óvinsældir þeirra út af öðrum syndum. Þeir vilja reyna að viðhalda glæðunum fram yfir næstu kosningar, til þess að koma í veg fyrir, að þær geti farið friðsamlega fram. Allir hinir flokkarnir telja málið útrætt og óviðkomandi baráttunni næst. Þeir hafa, þrátt fyrir allt, sem skeð hefur, boðið Framsfl. vinsamlega og heiðarlega samvinnu um lausn þeirra vandamála, sem fyrir liggja, og eru fúsir til umræðu varðandi þá afstöðu. Næstu kosningar geta þá farið fram á friðsamlegan hátt með það tvennt fyrir augum að ræða um varnir gegn aðsteðjandi vanda, miðað við samvinnu allra flokka, og svo hitt, að fá sem flesta kjósendur til að neyta atkvæðisréttar þar, sem þeir gætu óáreittir af æsingamönnum kosið þá menn og þá flokka, sem þeir treysta bezt.

Nú er vitað, að á undanförnum árum hefur Framsfl. gengið lengst allra flokka í æsingum og áróðursfrekju í kosningum. Ef hann vildi næst draga úr þessu, þá mundu hinir flokkarnir, sem skemmra hafa gengið, vissulega fáanlegri til að stilla sinni baráttu enn meira í hóf. Nú gæti að þessu orðið mikil framför, en málþófið um kjördæmamálið og tilboðið í bréfi Framsóknar gefur ekki góðar vonir í þessu efni, og á meðan svo stendur, ber eðlilega að svara eins og til er stofnað. En það, sem gerir samvinnu milli flokka æskilega, er einkum tvennt, eins og á hefur verið drepið. Í fyrsta lagi afstaða þjóðarinnar gegn erlendu setuliði og útlendu valdi, og í öðru lagi möguleikarnir til friðsamlegra samninga milli verkamanna og atvinnurekenda um vinnu- og kaupgjaldsmál. Um hið fyrra þarf ekki að fara næsta mörgum orðum. Það sjá væntanlega allir, sem um það hugsa, að því betri árangurs er að vænta fyrir okkar litlu þjóð sem fleiri menn í landinu standa saman til að vernda okkar hagsmuni og okkar menningu. Að halda áfram að gera jafneinfalt og eðlilegt mannréttindamál eins og kjördæmamálið að æsingamáli, eftir að búið er að afgreiða það, er því ekkert annað en sönnun um andstöðu gegn allri samvinnu. Ef Framsfl. hættir ekki slíkum fíflaskap, þá er af honum einskis góðs að vænta frekar venju, og þá eru öll hans tilboð um samvinnu og frið fals eitt og yfirdrepsskapur.

Um verkalýðs- og kaupgjaldsmálin er það að segja, að nú orðið má telja líklegt, að hvað sem menn hafa áður ætlað um þau mál, þá hafi þeir nú sannfærzt um, að þar er engin úrlausn fyrir hendi önnur en sú, að allsherjar samningar verði gerðir með friðsamlegum hætti, sem helzt gildi fram yfir stríð. Á því sviði er komið út í slíkan vanda, að hann verður ekki leystur nema með sterkum og heiðarlegum samtökum. Valdboð og fyrirskipanir ríkisvaldsins koma ekki að haldi, hvað sem Hermann Jónasson og aðrir álíka skammsýnir framsóknarmenn segja þar um. Samningar, sem gerðir eru á friðsamlegan hátt með samþykki beggja aðila, eru það eina, sem dugir. Atvinnurekendur á aðra hlið og Alþýðusamband Íslands og verkalýðsfélögin á hina verða að sýna í þessum efnum skilning og víðsýni og tryggja það, að þeir samningar, sem gerðir verða, haldist. Enda verður þá líka ríkið eða samningsaðilar að leggja við þungar sektir, ef út af er brugðið. En til þess að hugsanlegt sé að koma slíkum samningum á, er auðvitað nauðsynlegt, að helzt allir stjórnmálaflokkarnir standi að þeim. Fyrst og fremst er þó þörf á, að þeir flokkar, sem helzt hafa traust hjá atvinnurekendum og verkalýð landsins, standi fast saman um slíka samninga. Vilji Framsfl. standa utan við þá, verður ekki við því gert. Hann telur sig að vísu stundum bændaflokk og því atvinnurekendaflokk að því leyti. En hann er ekki viðurkenndur og verður ekki viðurkenndur sem slíkur af bændastétt landsins. Því fer fjarri. Hann hefur að undanförnu ekki komið þannig fram, að bændur yfirleitt geti treyst honum, enda þótt hann hrópi mjög um bændavináttu sína um kosningar og þegar hann þykist vera að berjast við hið voðalega og gerspillta Reykjavíkurvald.

Þegar um það er að ræða að hefja samvinnu til að tryggja vinnufrið og áframhaldandi óskertan atvinnurekstur og framleiðslu, þá væri þó náttúrlega mjög æskilegt, að flokkur eins og Framsfl. geti þar verið með. En til þess verður hann að velja sér heppilegri forustumenn en þá ráðherra, sem hann hefur teflt fram að undanförnu. Það er líka víst, þrátt fyrir alla galla og allar syndir og allan hroka Framsfl., þá eru vitanlega í starfsliði hans ýmsir mætir menn að eðlisfari og í persónulegum skilningi, enda þótt þeir njóti sín illa í þeim félagsskap, sem þeir starfa í. Þessum mönnum og raunar öllum andstæðingum óska ég þess, að þeir geti hrist sem fyrst af sér flokkslega spillingu og gengið að starfi fyrir réttan málstað á þann hátt, sem það bezta í þeirra eðli vísar til. En þegar ræðumaður Framsfl. hér í kvöld, Eysteinn Jónsson, var að bjóða samvinnu um afgreiðslu nauðsynjamála hér á þingi, þá var það því miður heldur í ósamræmi við þá framkomu, að Framsfl. hefur enn þá tregðazt við það, eins og þegar hefur verið upplýst af hv. þm. V.-Ísf., Ásg. Ásgeirssyni, að leggja til mann með fulltrúum hinna flokkanna til að reyna sættir og samninga í vinnudeilum, sem nú standa yfir. Slík er þeirra þjóðhollusta og samvinna.

Ég skal svo víkja að þeirri ásökun framsóknarmanna á hæstv. ríkisstj., að hún hafi dregið þetta þinghald og ætli sér sveitafólkinu til örðugleika að láta kosningarnar dragast fram á vetur. Síðari hluta sumars er sveitanna vegna vart hugsanlegt að láta kjósa nema annað hvort fyrri hluta septembermánaðar eða síðari hluta októbermánaðar. Að kjósa um 20. eða 21. sumarhelgi getur komið til tals, og er það nú 6. eða 13. september. En þetta er ákaflega hættulegur kosningatími, því að ef svo hittist á, að óþurrkar hefðu gengið, eins og oft vill verða, en kosningadaginn væri góður þurrkur, sem gæti bjargað að miklu leyti, þá er ég hræddur um, að kjörsóknin yrði ekki góð. Hitt tímabilið, eftir miðjan október, er miklu hentugra sveitamönnum. Þá eru mestu haustannirnar búnar og aðstaða til kjörsóknar hin hentugasta. Þetta hefur líka verið viðurkennt af alþm., þegar stjskrbreyt. var samþ. 1915, en þá voru þrefalt fleiri bændur á þingi en nú er. Kosningadagurinn var þá ákveðinn 1. vetrardagur. Þann dag fóru fram allsherjar kosningar 1916–1919 og 1923 og heppnaðist ágætlega. 1926 fór svo fram aukalandskjör, og þá var illt veður og kjörsókn lítil. Slík tilviljun getur alltaf komið fyrir. Á síðasta kjördegi, 5. júlí, var t. d. norðan slagvíðri víða um land fram yfir miðjan dag. Nú verða næstu kosningar upp úr miðjum októbermánuði, væntanlega ekki síðar en sunnudaginn 18., eða um viku fyrir vetur. Er það áreiðanlega hentugur kosningatími, a. m. k. fyrir sveitamenn. Þessi ásökun framsóknarmanna er því ástæðulaus og þeim, en ekki stjórninni til minnkunar. Hún er byggð á sömu reglu eins og margt annað hjá þessum mönnum, að hugsa ekki um það, hvað er rétt eða fólkinu hentugt, heldur hitt, að leita að ásökunar efnum á andstæðinga sína, ef unnt væri að blekkja með þeim heimska menn. Ef ríkisstj. hefði sett kosningar 6. eða 13. sept., þá er ég viss um, að framsóknarmenn hefðu risið upp með enn meiri ofsa og útmálað það, að nú ætlaði Reykjavíkurvaldið að eyðileggja heyskapinn fyrir bændum með því að setja kosningar á versta tíma. Um hitt byrjuðu þeir fyrst að skrifa, þegar auðséð var, að kosningar yrðu ekki í september.