19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Gunnar Thoroddsen:

Það frv., sem hér liggur fyrir til 3. umr., fjallar um hið alkunna kjördæmaskipunarmál. Það mál hefur þó lítt verið gert að umtalsefni í umr., heldur hafa þær snúizt um þjóðmálaástandið í heild, dýrtíðar- og verklýðsmálin, og frá hendi Framsfl. hafa þær beinzt nær eingöngu að því að sýna Fjallkonunni fram á, að hún geti ekki þrifizt, án þess að Framsfl. fari með stjórn landsins, hún geti ekki lifað án þeirra Hermanns Jónassonar og Eystein Jónssonar.

Áður en ég ræði þjóðmálaástandið og svara ádeilum hv. 1. þm. S.-M. í gærkvöld, vil ég aðeins drepa á kjördæmaskipunarmálið. Þetta frv. fjallar um þrjár breyt. á kjördæmaskipuninni, út af þeim breyt. ætlaði Framsfl. að tryllast í vor og sumar, rauf stjórnarsamvinnuna við Sjálfstfl., og svo hefur ofstopinn verið mikill, að forráðamenn Framsóknar hafa tæpast haldið heilum sönsum síðan um krossmessu. Þeir skáru upp herör um land allt og ákölluðu bændur og búalið að veita sér vígsgengi til þess að vernda sérréttindi Framsfl., vernda og viðhalda ranglætinu í skipan Alþ. Framsfl. setti sérmark í kosningabaráttunni: Hann krafðist stöðvunarvalds gegn þessu máli. Til þess þurfti hann að fá 24. þm. Þetta tókst ekki, heldur fékk hann aðeins 20. Þótt flokkurinn ynni í einstökum kjördæmum bráðabirgðasigra, er heildarútkoma kosninganna sú, að Framsfl. tapaði því máli, sem hann setti á oddinn. Samt sem áður gerist hann svo djarfur að krefjast þess af hinum flokkunum þremur, að þeir svíki málstað sinn, bregðist þeim loforðum, sem gefin voru í kosningabaráttunni um lausn þessa máls. Þessu fáheyrða tilboði framsfl. hefur verið hafnað, og því voru gerð svo góð skil í umr. hér í gærkvöld, að ekki gerist þörf á að bæta þar miklu við.

En þegar litið er á þessar þrjár breyt. á kjördæmaskipuninni og athuguð fortíð Framsfl. í því máli, þá verður gersamlega óskiljanlegt, að hann skuli hafa leyft sér annan eins málflutning í því og hann hefur gert, bæði fyrir og eftir kosningar. Breytingarnar þrjár voru:

1. Hlutfallskosning í tvímenningskjördæmum, 2. sérstakur þm. fyrir Siglufjörð, 3. 8 í stað 6 þm. í Reykjavík.

Um l. atriðið er það sannað, að Framsfl. hefur beitt sér fyrir sams konar kosningatilhögun til búnaðarþings, að formaður flokksins hefur í riti sínu „Komandi árum“ talið hlutfallskosningu sjálfsagða og jafnvel viljað ganga lengra en hér er gert: afnema hin einstöku kjördæmi og steypa þeim saman í fá og stór kjördæmi með hlutfallskosningu. Loks er það vitað, að Framsfl. vildi árið 1932 gjarnan hugsa sér þann möguleika að taka upp hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum, enda sýndi hann þann vilja sinn í verki 1936 með kosningatilhöguninni til búnaðarþings.

Um 2. atriðið, þm. fyrir Siglufjörð, vil ég aðeins benda á það, að á þingi 1933 fluttu þm. úr Framsfl. till. um að gera ekki aðeins Siglufjörð að sérstöku kjördæmi, heldur alla kaupstaði landsins.

Um 3. atriðið, 8 þm. í stað 6 í Rvík, vil ég benda á það, að á þingi 1932 bar Framsfl. sem heild fram till. um, að Rvík hefði 8 þm. Tíminn segir þá, að Framsfl. telji sjálfsagt að taka tillit til óska Reykvíkinga og ákveða þeim þá þingmannafjölgun, sem hæfileg mætti teljast. Þá voru kjósendur í Rvík 14500, og Framsfl, taldi 8 þm. hæfilega, nú eru þeir 25 þúsund, og þá eru 8 þm. þjóðhættulegt tilræði.

Af þessu má sjá, að Framsfl. hefur áður í umr. um kjördæmamálið sjálfur aðhyllzt og jafnvel borið fram allar þær þrjár breyt., sem nú er verið að gera. Nú telur hann það fjörráð við sveitir landsins, það sama, sem hann hefur sjálfur samþ. Eftir kosningarnar, þegar kjósendur ættu að geta íhugað þetta mál með meiri ró, er rétt að rifja upp þessi atriði, sem sýna, hversu blygðunarlausan málflutning sumir stjórnmálamenn leyfa sér, málflutning, sem minnir á vísu Andrésar Björnssonar, er hann orti í öðru sambandi út af hringlandahætti og skoðanaskiptum.

Flokkurinn þakkar fögrum orðum fyrir það að gera þetta, sem hann þakkaði forðum, að þá var látið vera.

Fleiri orðum skal ég svo ekki fara um kjördæmamálið. Það verður afgr. endanlega næstu daga, og í haust verður kosið eftir hinni nýju skipan. Vil ég næst víkja að dýrtíðarmálunum, sem hv. 1. þm. S.-M., Eysteinn Jónsson, varð svo tíðrætt um í gærkvöld.

Hv. þm. vildi auðvitað, eins og framsóknarmanna er vandi, skella allri skuld hinnar vaxandi dýrtíðar á Sjálfstfl. Þar kveður við sami söngurinn og áður: Fyrir þá sök, að Sjálfstfl. hafi neitað að fallast á lögfestingarfrv. Eysteins Jónssonar í fyrrahaust, þá beri Sjálfstfl. alla sök á dýrtíðinni. Ég vil nú benda hv. þm. á, að frá því, er frv. hans var fellt og þangað til gerðardómsl. voru sett, leið aðeins rúmur mánuður, og á þeim tíma óx dýrtíðin sáralítið, og það litla, sem hún hækkaði þá, var fyrir aðgerðir framsóknarmanna. En ástæðan til þess, að Sjálfstfl. felldi frv. Eysteins Jónssonar, var meðal annars sú, að frv. var svo vanhugsað og ranglátt, að engin tök voru á að gera slíkan óskapnað að lögum. Gagnvart launastéttunum, verkamönnum og öðrum, er laun taka, var frv. ranglátt, þar sem ekki átti aðeins að banna grunnkaupshækkanir, heldur og að binda dýrtíðaruppbótina þannig, að þótt dýrtíðin hækkaði, áttu launamenn ekki að fá hærri verðlagsuppbót en 172, eins og vísitalan var í október. En gagnvart bændum var frv. einnig vanhugsað, því að afurðaverð þeirra átti að lögbinda, rígskorða, og það mátti alls ekki hækka, þótt kaupgjald í sveitum og annar tilkostnaður kynni að hækka. Af þessum ástæðum vildi Sjálfstfl. ekki ganga inn á þessa ósanngjörnu og vanhugsuðu till.

En það var einnig önnur ástæða, og hún var sú, að Sjálfstfl. kýs jafnan heldur í samræmi við grundvallarstefnu sína, að leysa málin af frjálsum leiðum heldur en með lögþvingun, sem Framsfl. er svo tamt að grípa til.

Um áramótin síðustu voru svo gerðardómsl. sett. Að þau hafi verið eitt og hið sama sem Eysteinsfrv., er fjarri öllum sanni. Með gerðardómsl. voru einmitt fyrir atbeina Sjálfstfl. afmáðir hinir miklu gallar lögfestingarfrv. Með gerðardómsl. var tryggt, að launamenn fengju fulla dýrtíðaruppbót og lagfæringu og samræmingu grunnkaups í vissum tilfellum, og gagnvart bændum var það tryggt í sjálfum l., að gerðardómurinn skyldi hækka afurðaverðið í samræmi við aukinn tilkostnað.

Á Eysteinsfrv. og gerðardómsfrv. var því reginmunur. Þeim var það sameigið, að gripið var til lögþvingunar, en þvingunarráðstafanir eru Framsfl. jafngeðfelldar og Sjálfstfl. eru þær ógeðfelldar.

Sjálfstæðismenn töldu yfirleitt, að þessi lagasetning um áramótin væri þjóðarnauðsyn. Það væri óhugsandi að stöðva dýrtíðina, nema binda hvorttveggja í senn, verðlag á vörum og kaupgjaldið. Því að sú röksemd, sem þá var oft haldið á loft, að kaupgjald í landinu hefði engin áhrif á dýrtíðina, er vitaskuld fjarstæða einber.

Um áhrif gerðardómsl. má segja, að þau hafi bæði borið árangur og ekki náð tilgangi. Þau náðu árangri að því leyti að stöðva dýrtíðarölduna, a. m. k. í bili. Vísitalan, sem á að sýna verðlagsbreyt. á nauðsynjum almennt, hafði farið ört hækkandi mánuð eftir mánuð. En við setningu gerðardómsins brá svo við, að þessi alda stöðvaðist. Vísitalan fyrir janúar var 183, og hún hækkaði ekki um eitt stig á 7 mánuðum. En gerðardómsl. hafa að öðru leyti ekki náð tilgangi sínum: að halda kaupgjaldi í landinu sem næst óbreyttu. Verulegar kaupgjaldshækkanir hafa orðið, bæði til sjávar og sveita, án þess að stjórnarvöld landsins hafi fengið rönd við reist.

Þessar kauphækkanir reynir svo Framsfl. að notfæra sér til pólitísks framdráttar á hinn ósvífnasta hátt. Þessar kjarabætur launafólksins heita á máli Framsfl. upplausn; því er slegið föstu og barið fram af dæmafáu blygðunarleysi, að Sjálfstfl. beri ábyrgð á þessari svo kölluðu upplausn og hún stafi fyrst og fremst af því, að Framsfl. eigi ekki lengur fulltrúa í ráðherrastólunum.

Það er nú rétt að reyna að gera sér ljóst, hverjar orsakir liggja til þess, að löggjöfinni hefur ekki tekizt að halda kaupgjaldinu óbreyttu og vinna þannig á móti dýrtíðinni. Því er fljótsvarað: Það er hin gífurlega eftirspurn eftir vinnuafli, sem hefur sprengt gerðardómsl. Það var öllum ljóst, strax þegar þau voru sett, að þessum ráðstöfunum stafaði mikil hætta af því, ef setuliðsvinnan héldi áfram í stórum stíl. Enda reyndist það svo, að hin mikla eftirspurn eftir verkafólki til sjávar og sveita handa útvegi, landbúnaði, herliði o. s. frv., leiddi af sér kauphækkanir samkv. órjúfanlegu lögmáli viðskiplalífsins um framboð og eftirspurn. Gerðardómsl. voru brotin leynt og ljóst, með eftirvinnu- og meturvinnuloforðum, og farið í kringum þau á hinn margvíslegasta hátt. En það, sem reið l. svo að fullu, var beinlínis hættan á því, að erlent vald hlutaðist til um mál okkar og tæki siglingarnar að meira eða minna leyti í sínar hendur. Þetta gerðist í kaupdeilu við höfnina hér í Rvík, og hæstv. forsrh., Ólafur Thors, hefur hér á hv. Alþ. skýrt frá alvarlegum aðvörunum frá erlendum valdhöfum vegna þessarar deilu. Og þá var um tvennt að ræða: Að afnema kaupgjaldsákvæði gerðardómsl. eða eiga á hættu alvarlega íhlutun um mál okkar. Það var vitaskuld rétt af hæstv. ríkisstj. að velja fyrri kostinn. Annað hefði verið fjörráð við fullveldi íslenzka ríkisins.

En fyrir þessum óhrekjandi sannindum loka framsóknarmenn á þingi augum og eyrum. Hvað varðar þá um staðreyndirnar? Hvað varðar þá um málin, þegar þeir eru komnir í stjórnarandstöðu, eins og gætnasti maður þeirra sagði, og hvað mun þá um innrætið og hugsunarháttinn hjá hinum framsóknarmönnunum, sem minna hafa vitið? Hvað varðar yfirleitt Framsfl. nú. um nokkuð annað en ráðast að ríkisstj. og stuðningsmönnum hennar, kenna stj. um allt, sem aflaga fer í landinu, róa að því öllum árum að telja fólki trú um, að hér ríki upplausnarástand, og ráðast svo að stj. fyrir það, að hún ráði ekki við neitt, og hafi ekki styrk til að standa gegn upplausninni?

Málflutningur Framsfl. er þessi: Meðan við vorum í stjórn, lék allt í lyndi, gerðardómsl. voru framkvæmd og þeim var alls staðar hlýtt; en síðan okkur var sagt upp vistinni, á krossmessu í vor, hefur allt leikið lausum hala, upplausnarástand í þjóðfélaginu, — og allt er þetta verk Sjálfstfl.

Ég hef rakið hér ástæðurnar til þess, að gerðardómsl. náðu ekki öllum tilgangi sínum. Og um leið og Sjálfstfl. sá fram á þennan sannleika, þá hafði hann líka manndóm til að taka afleiðingunum og nema þetta ákvæði l. úr gildi. Hann hafði ekki aðferð strútsins, að stinga höfðinu niður í sandinn til að fela sig, þegar háski er á ferðum.

En nú vil ég athuga framkomu árásarmannanna sjálfra, framsóknarmanna, sem ætla sér þá dul að varpa yfir sig helgihjúp og vilja láta. þjóðina taka sig í dýrlingatölu á dýrtíðarmálunum. Skyldu þeir nú vera hreinir og flekklausir sem englar? — Hefðu gerðardómsl. náð tilgangi sínum, ef Framsfl. hefði verið áfram við stjórn? Og voru engin merki þessarar upplausnar, sem Framsfl. hefur svo gaman af að tala um, farin að gera vart við sig, einmitt meðan Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson sátu við stjórnvölinn?

Þegar gerðardómsl. voru sett 8 jan. s. l., stóðu yfir 5 verkföll iðnstétta í Reykjavík. Gerðardómsl. mæltu svo fyrir, að verkföll væru ólögleg og einnig þessi verkföll, sem þegar voru hafin. Þungar fjársektir voru lagðar við, ef út af var brugðið. En hvað gerðist? Öll fimm verkföllin halda áfram, enginn þeirra manna, sem í verkföllunum stóðu, mætti til vinnu næsta dag né næstu daga né næstu vikur. Hvar voru þá hin sterku tök Framsóknar og forsrh. hennar? Hann hreyfði ekki hönd né fót til að framfylgja l. né til að koma fram ábyrgð á hendur hinum brotlegu. Með þessu afskiptaleysi sínu var það hann, forsætis- og dómsmálaráðherrann, sem manna freklegast braut l., sem hann hafði sjálfur sett, og er það raunar ekki nýlunda, því að hann hefur æfingu í því, frá skipun sýslumannsins í Árnessýslu fyrir nokkrum árum, að þverbrjóta l. um leið og hann setur þau. Ég er ekki að fullyrða, að slíkar ráðstafanir út af verkföllunum hefðu verið æskilegar eða borið árangur. En þegar Eysteinn Jónsson segir, að núv. stj. hafi sýnt algera vanhirðu um framkvæmd laganna, þá eru þeir vissulega að varpa grjóti, sem í glerhúsi búa.

Ríkisstj. hafði skipað 5 menn í gerðardóminn og gert það að borgaralegri skyldu að taka þar sæti. Þetta hlaut að verða óvinsælt og vandasamt verk, og því fremur hefði forsrh. átt að veita þeim nokkra vernd. Í blöðum og á mannfundum var ráðizt heiftarlega á þessa menn og jafnvel gerðar formlegar fundar samþykktir til þess að ærumeiða meðlimi gerðardómsins. Þeim var brugðið um vísvitandi hlutdrægni og misnotkun starfs síns. En þótt þessi blaðaskrif og svæsnu samþykktir vörðuðu við l., sá dómsmrh., Hermann Jónasson, enga ástæðu til að taka upp hanzkann fyrir þessa trúnaðarmenn ríkisstj. og veita þeim réttarvernd. Hann lét sér í léttu rúmi liggja, þótt þeir væru svívirtir, meðan þeir voru samkv. borgaralegri skyldu að vinna verk sín fyrir þjóðfélagið, eftir því sem l. landsins og sannfæring þeirra sagði fyrir.

Og á samri stundu og framsóknarmenn ákváðu að hlaupast undan ábyrgð í ríkisstj., hófu þeir beinan áróður gegn þessari löggjöf. Einn helzti áhrifamaður þeirra, Vilhjálmur Þór bankastjóri, sagði sig úr gerðardóminum, og Hermann Jónasson tók lausnarbeiðni hans til greina. Þar með var gerðardómurinn óstarfhæfur um tíma; virtist þetta vissulega gert til þess að grafa undan gerðardóminum.

Í útvarpsræðu rétt fyrir kosningarnar flutti Hermann Jónasson, þm. Str., beinlínis hvatningarorð til launastéttanna um auknar kaupkröfur. Hann mælti á þessa leið :

„Hvers vegna skyldu sjómenn á vélbátaflotanum ekki krefjast sömu áhættuþóknunar og hinir? Hvers vegna skyldu embættismenn ríkisins lengur sitja hjá, þegar aðrir leggja út í hið mikla kapphlaup? Hvers vegna skyldu húseigendur og aðrir fasteignaeigendur ekki hugsa til að hækka leigutekjur sínar? Er nokkur von til þess, að bændur uni því lengur, að kaupgjald þeirra sé bundið með lögákveðnu afurðaverði?“

Voru þessi ummæli liður í baráttunni fyrir gerðardómslögunum ?

Hina fyrstu fjóra mánuði, sem gerðardómsl. giltu, voru þau brotin á ýmsan hátt, farið í kringum þau með loforðum um eftirvinnu, meiri greiðslu fyrir tíma, sem aldrei voru unnir, með hækkun kaups í vegavinnu, — allt undir handarjaðri Hermanns Jónassonar og Eysteins Jónssonar. Allan þennan tíma sátu þeir í stj. Um kaupgjald í sveitum kom fljótt í ljós, að 1. voru óframkvæmanleg, ef landbúnaðurinn átti ekki að leggjast í auðn. Ef bændur áttu að fá vinnukraft, var ekki hægt að halda óbreyttu kaupi frá í fyrra. Allt var þetta að gerast, meðan þessir tveir ráðh. Framsfl. sátu við stjórn.

Það er því hin ófyrirleitnasta rökfölsun, að kaupgjaldshækkanir í landinu hafi fyrst hafizt, eftir að sjálfstæðismenn tóku einir við stj. En ef það er rétt, sem framsóknarmenn halda fram, að öll þessi gífurlega „upplausn“ hafi orðið afleiðing af brottför þeirra úr ríkisstj. og að þeir sjálfir hafi séð þessa eyðileggingu fyrir, hvílíkt himinhrópandi ábyrgðarleysi hefur það þá verið af Framsfl. að rjúfa stjórnarsamvinnuna í vor og hlaupast undan merkjum.

Hv. 1. þm. S.-M. sagði í ræðu sinni, að bændur fái ekki vinnufólk. En sú speki! Veit það ekki hvert mannsbarn í landinu? — En eru bændur nokkru bættari, þótt 1. þm. S.-M. uppgötvi þessi sannindi og áfellist núv. ríkisstj. fyrir? Hvaða ráðstafanir hafði þessi hv. þm. eða meðráðh. hans, þm. Str., gert, meðan þeir sátu að völdum í allt vor, fram í miðjan maí, til að tryggja bændum kaupafólk? Engar ráðstafanir, bókstaflega engar.

Hv. þm. sagði, að stj. mokaði fé úr ríkissjóði til að halda niðri verðlagi. Í öðru orðinu er stj. ásökuð fyrir að gera ekki neitt á móti dýrtíðinni, í hinu fyrir að veita fé úr ríkissjóði til þess. Þessi hv. þm. bar fram frv. í fyrra haust um að veita 8 millj. úr ríkissjóði til að halda niðri dýrtíðinni. Nú ræðst hann á núv. ríkisstj. fyrir hið sama. Eða er þm. að telja eftir þær fjárveitingar, sem núv. stj. hefur beitt sér fyrir, til þess að bændur landsins geti fengið síldarmjöl fyrir 32 krónur í stað 50–60 króna?

Það er alveg rétt, að atvinnulíf okkar er í háska statt vegna vinnufólkseklunnar. En til þess að bæta úr henni er ofstopi og einsýn stéttarpólitík Framsfl. áreiðanlega ekki leiðin. Eitt það fyrsta, sem gera þarf í þeim málum, er að leita samvinnu við verkalýðssamtökin um að fá heildarsamninga um kaupgjald, tryggja jafnframt, að hinn svonefndi „skæruhernaður“ í kaupgjaldsmálum hætti, að í kaupkröfunum verði staðar numið og vinnufriður tryggður. Í samræmi við þessa skoðun höfum við þrír þm. Sjálfstfl. flutt svohljóðandi þáltill. í sameinuðu þingi, á þskj. 27:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að hefja nú þegar samvinnu við verkalýðssamtök landsins um ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að atvinnuvegir þjóðarinnar bíði hnekki eða afrækist að meira eða minna leyti vegna vinnuaflsskorts af völdum hinna fjölþættu framkvæmda erlendra hernaðaraðila í landinu.

Njóti ríkisstj. í þeirri viðleitni stuðnings og samvinnu Búnaðarfélags Íslands, Fiskifélagsins, Landssambands iðnaðarmanna og annarra samtaka, sem forustu hafa í hinum ýmsu greinum atvinnulífsins. Jafnframt leiti ríkisstj. nú þegar nýrra samninga við stjórnir setuliðanna um þessi mál.“

Alþ. og forráðamenn þjóðarinnar verða að horfast í augu við staðreyndirnar. Ein þeirra er sú, að verkalýðssamtökin eru aðili í landinu, ekki sízt nú, þegar svo gífurleg eftirspurn er eftir vinnuafli, — aðili, sem ekki verður gangið fram hjá, þegar tryggja þarf tilveru og framtíð íslenzkra bjargræðisvega.

Framsóknarmenn hafa lýst því með sterkum lítum, hvílíkur þjóðarvoði sé og hafi verið á ferðum við brottför þeirra úr ríkisstj. og hvílík þjóðarnauðsyn sé á samstarfi stjórnmálaflokkanna. En hvernig fær þessi samstarfssöngur samrýmzt því, að Framsfl, hefur margrofið samstarf um ríkisstj. eða sett þau ósvífnustu skilyrði fyrir samstarfi, að aðrir flokkar gerist opinberir svikarar við kjósendur sína.

Ef Framsfl. vill taka upp heiðarlegt samstarf við hina flokkana, þá er það vel. En það er hægt að stjórna landinu án Framsfl. Og eitt hefur græðzt á stjórnarandstöðu Framsfl.: Hann hefur sýnt sig sem einhvern ófyrirleitnasta stjórnarandstæðing, sem hér hefur verið, jafnvel ekki skirrzt við að grafa undan þeirri löggjöf, sem hann sjálfur hefur talið þjóðarnauðsyn og stært sig af að hafa sett, og leyfir sér loks að gera það að skilyrði fyrir samvinnu við aðra flokka á þessum alvörutímum, að þeir flokkar gangi á gefin loforð við kjósendur landsins. Við næstu kosningar gefst þjóðinni kostur á að sýna, að hún óskar ekki eftir slíkum óheillavinnubrögðum í íslenzkum þjóðmálum.