19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Sveinbjörn Högnason:

Framsfl. óskaði eftir, að þessi umr. um kjördæmamálið færi fram í útvarpinu, eftir að séð var, að stjórnarflokkarnir á Alþ. höfðu ekkert lært og engu gleymt síðan þeir hófu samstarf um ríkisstj., til að stofna til ófriðar og upplausnar innan lands á þeim alvörutímum, sem nú ganga yfir þjóð vora — eins og allar aðrar þjóðir — . Við höfðum í einfeldni okkar, það skal játað, búizt við því, að kosningar þær, sem nú eru um garð gengnar, afleiðingar þær, sem þegar eru komnar í ljós og eru að skýrast betur og betur með degi hverjum, af þeim ákvörðunum, sem þeir tóku á síðasta þingi um stjórnarfar og starfshætti í stjórnmálum, — við höfðum búizt við, að þingfulltrúar þessara flokka hefðu áttað sig á því, að þjóðin þarfnist ekki fyrst og fremst, eins og nú er komið, áframhaldandi innanlandsófriðar og sundrungar, ekki meira uppboðs og upplausnar í atvinnumálum og fjármálum, ekki meira kapphlaups milli flokka um völd, heldur meiri samhug og samstarf allra, sem einhver tök hafa á að veita viðnám hættum og áföllum styrjaldartímanna, meiri skilning á þörfum þjóðarinnar og meiri manndóm og karlmennsku til að horfast í augu við veruleikann eins og hann er, og að láta þörf og heiður þjóðarinnar ganga fyrir öllu, hvað sem á milli ber og hefur borið í öðrum málum.

Í þessu fórum við villir vega, það skal játað, og þá földum við rétt, að þjóðin öll gæti gert sér grein fyrir því, hvar hún er stödd, hversu högum hennar er háttað um stjórnarfar, atvinnu- og fjármál, — hvernig forusta hennar er í þeim málum, sem hún á nú að treysta. Ég held satt að segja, að það væri óþarfi fyrir okkur í raun og veru að taka þátt í þeim umr., til að ná þessum árangri. Ég held, að það hafi eitt verið nægilegt að láta andstæðingana tala, eins og þeir töluðu hér í gærkvöld og sá, er talað hefur í kvöld, til að gera þjóðinni ljóst, hvernig stjórnmálaforusta hennar er nú í dag, á alvarlegustu tímum, sem yfir hana hafa komið. Ég þekki illa íhugula og greinda menn og konur hér á landi, ef þau hefur ekki sett hljóð við að hlusta á ræður fulltrúa þeirra flokka, sem nú stjórna málefnum þjóðar okkar. Að heyra það hugarfar taumlauss ofstækis, ásakana og drýldni, — að heyra, hversu gersamlega úrræðalausir og ráðþrota þeir eru um allt, sem þjóðin ætlast til, að þeir geri. Ekkert orð hefur fallið um það, að þeir hugsi um þau mál. Hið eina, sem þeir sjá og vilja sinna, er hið svokallaða kjördæmamál, sem getur ekki leitt til neins annars og er ekki fram borið til neins annars en að rýra eitthvað áhrif þess hluta þjóðarinnar, sem erfiðasta á aðstöðu í hvívetna, en þjóðinni ríður þó mest á af öllu, að geti haldið uppi störfum sínum og unað sæmilega við sinn hag. Að vísu má þetta ekki teljast svo undarlegt, ef fulltrúar þessara flokka hafa trúað, þótt ekki væri nema nokkru broti af þeim lýsingum, sem þeir gáfu af þessu fólki, bændum og sveitafólki og forustumönnum þess. Eins og kunnugt er, er mikill meiri hluti þessa fólks í Framsfl., hefur byggt hann upp með fórnum og starfi sínu, sér til verndar. En lýsingarnar voru ekki fagrar, sem fulltrúar bæjarflokkanna gáfu hér í gærkvöld á þessu fólki, sem styður Framsfl.

Aldrei hefði ég getað trúað, að bóndi, eins og hv. þm. A.-Húnv. er, gæti sokkið svo djúpt að lýsa þannig sveitungum sínum og stéttarbræðrum, þótt þeir hefðu aðra skoðun en hann. Hitt fannst mér ekki nema að vonum, að sálufélagi hans, Áki Jakobsson, viðhefði þau orð og þær lýsingar, sem algengastar eru í herbúðum kommúnista, og þá sérstaklega þegar vitað er um viðnámsþrótt bændastéttar allra landa gegn hvers konar öfgum og byltingum, sem þjóðirnar stynja mest undir nú.

Þessi sami hv. þm. sagði við 2. umr. kjördæmamálsins hér í d., „að það mundi vekja almenna reiði hjá öllum bæjarbúum, sérstaklega Reykvíkingum, ef málið yrði stöðvað“. Hafði honum þá víst gleymzt að halda sér á línunni, eins og kallað er í þeim herbúðum, — þeirri línu, sem samherjarnir halda fram, að málið sé nú sérstaklega fram borið af umhyggju fyrir sveitunum — og það væri sérstaklega þeirra hagsmunamál. En það er nú svona, að mörgum kommúnista hefur veitzt erfitt að halda sér á línunni, þegar þeir vissu, að hún var fals og blekkingar einar. En óneitanlega er þessi yfirlýsing athyglisverð fyrir íbúa sveitanna, sem hafa látið blekkjast að línudansinum hjá sameiningarflokkum bæjanna í þessu máli.

Mótsagnirnar, blekkingarnar og hin beinu ósannindi eru svo mörg og margs konar í málaflutningi þessara manna, að ekkert nema illur málstaður og ljótur eða óróleg samvizka getur þurft slíks með. Það er ekki verið að reyna að verja málstaðinn, enda slíkt erfitt, en það er ausið botnlausum skömmum, óhróðri og svívirðingum um andstæðingana, bæði flokkinn og einstaka menn, sem leyfa sér að lýsa eða minnast á það athæfi, sem nú er í frammi haft í íslenzkum stjórnmálum. Ég hef í raun og veru alls ekki geð í mér til að svara þeim fúkyrðum og ósannindum orði til orðs, enda hvorki tími né ástæða til að gera það. Svo vel þekki ég dómgreind hugsandi manna hér á landi.

Aðeins örfá dæmi skal ég nefna um þennan einstæða málaflutning.

Hv. 4. landsk. (ÁkJ) sagði, að Framsfl. væri einkum embættismannaflokkur, en jafnframt, að hann væri svarnasti óvinur allra launamanna í landinu. Ef þetta væri rétt, þá undrar mig ekkert á því, sem margir hafa átt erfitt með að skilja, hvers vegna þessi sami hv. þm. styður formann Sjálfstfl., ÓTh, til að vera forsrh., einn mesta stríðsgróðamann landsins, til þess að gera það, sem hann telur svo bráðnauðsynlegt, að ná sér eitthvað niðri á stríðsgróðamönnunum.

Sami hv. þm. sagðist óttast, að herstjórnin gripi inn í okkar mál, ef alvarlegar vinnustöðvanir yrðu. En samhliða segir hann, að við framsóknarmenn séum að hóta að nota erlent hervald í málum okkar innan lands, alveg eins og Framsfl. hvetji mest til verkfalla og vinnustöðvana og hafi slíkt á valdi sínu. Hverjir beita mest þeim aðferðum hér á landi og nota slíkt sér til framdráttar? Hvaða flokkur og hvaða menn eru það? Það er engu líkara en þessi hv. þm. tali einatt með óráði eða hann sé farinn að óttast svo Framsfl., að hann sjái hann alls staðar á vegi sinum, einnig sem keppinaut í hinni alkunnu sérgrein kommúnista, verkföllum og vinnustöðvunum. Ég held, að þjóðin ætti að hafa slíkan draumóramann annars staðar en á Alþingi nú á tímum.

Þá töluðu þeir báðir um það, hv. 4. landsk. og hv. þm. A.-Húnv., að framsóknarmenn eyddu svo miklum tíma í að tala um þetta mál og gerðu allt, sem hugsanlegt væri til að tefja það. Væru þeir þannig sjálfir að seinka kosningum þeim, er þeir hafa ákveðið í haust eða í vetur. Hvað er svo satt í þessu? Ég hef aflað mér upplýsinga um meðferð og umr. þessa máls frá þeim heimildum, sem fyrir liggja í þinginu, og þær eru á þessa leið.

Tvisvar hafa verið veitt afbrigði um meðferð þessa máls, með shlj. atkv. Við 1. umr. var engra umræðna óskað af okkar hálfu. Við aðra umr. fluttu stjórnarliðar sjö ræður, en við fimm. Afbrigðum hefur verið heitið um alla meðferð málsins af okkar hálfu, eftir að vitað var, að stjórnarflokkarnir ætla að knýja málið fram, hvað sem öðru líður. Og er því ekkert því til fyrirstöðu af hálfu Framsfl., að máli þessu verði lokið strax á morgun. Og þingi þá lokið.

En um meðferð annarra mála er hið sama að segja frá hálfu stjórnarflokkanna. Mál stjórnarliða, sem ætlað mun að ganga fram, hafa hlotið þessa meðferð:

Frv. um alþýðutryggingar, — þar hafa stjórnarflokkarnir flutt 6 ræður, framsóknarmenn enga. Þingsályktun um bændaskóla, — þar hefur Sjálfstfl. flutt 8 ræður, Framsfl. 3. Um afnám gerðardómsl. — þar hafa stjórnarflokkarnir við 1. umr. flutt 11 ræður, en Framsfl. 1 ræðu.

Þannig má þetta lengi rekja, og svo gerast málsvarar þessara flokka svo ósvífnir að deila á Framsfl., að hann sé að tefja málin.

Mun hitt ekki réttara, að verið sé af ásettu ráði að bíða eftir aðstoð „konungs vetrar“ til að ná rétti dreifbýlisins, ef annað bregzt.

Hv. þm. A.-Húnv. fór enn fremur með mörg bein ósannindi, og skal ég aðeins benda á tvö, sem er hægt að sanna með skjallegum heimildum:

1. Hann sagði, að Hermann Jónasson, hv. þm. Str., hefði sagt um þá ákvörðun ríkisstj. að tryggja bændum síldarmjöl fyrir 32 kr. tunnu, að það væri svo ómerkilegt mál, að það væri varla vert að tala um það. En Hermann Jónasson sagði, að það væri svo sjálfsagt mál, að sig undraði á, að nokkur væri að hrósa sér af því, og hann spurði, hvaða ríkisstj. mundi ekki hafa gert það sama, eins og nú er ástatt um landbúnaðarframleiðslu, eftir að hefði verið tekið af henni vinnuaflið og sett í lúxusbyggingar. En einmitt það, að verið væri að hrósa sér af svo sjálfsögðum hlut, sýndi það, að ríkisstj. hefði jafnvel dottið í hug að láta það ógert.

2. Þá sagði sami hv. þm. enn fremur, að nefnd væri tekin til starfa til að reyna að semja um kaupgjald og annað við verkamenn. Tækju þátt í henni fulltrúar frá öllum flokkum nema Framsfl., þeir væru að tregðast við að leggja til mann í nefndina. En í öðru orðinu sagði hann hins vegar, að Framsfl. yrði að velja sér betri foringja, ef hann ætti að fá að taka þátt í þeim samningaumleitunum. — Þannig er leikið sér með sannleikann.

Hið rétta er það í þessu máli, að forsrh. man hafa snúið sér til einhvers framsóknarmanns og beðið hann að taka sæti í nefndinni, en hann óskað að tala við flokkinn um þessa málaleitan, áður en hann svaraði henni.

Hefur flokkurinn vitanlega ekkert á móti slíku. En til flokksins hefur aldrei verið leitað um að tilnefna mann í nefndina. Er því allt ósatt, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði um þetta hér í gærkvöld, eins og annað flest.

Þannig er þá starfað nú að íslenzkum stjórnmálum, þannig er um þau rætt, og þannig er snúizt við vandamálum þjóðarinnar á því herrans ári 1942, þegar ófriðarhættan grúfir alls staðar yfir, þegar hættumerki kveða við á degi og nóttu í íslenzkum bæjum, þegar verðbólgan og dýrtíðarflóðið vex með degi hverjum og er á góðum vegi með að gera allan hinn óvænta stríðsgróða að engu og eyða þeim innistæðum, sem þjóðin og einstaklingar áttu, þegar framleiðslan dregst saman, sem þjóðin á að lifa af, þegar aðflutningar til landsins eru að minnka um helming og við óttumst að geta tæpast flutt brýnustu lífsnauðsynjar til landsins, þegar flokkar setja metnað sinn í að hafa sem veikasta og óstarfhæfasta stjórn í landinu, og þegar erlent herlið og erlendar stórþjóðir gefa nánar gætur að öllu því, sem við aðhöfumst, og dæma þjóðina eðlilega eftir því. Hvert spor, sem við stígum nú, getur haft óútreiknanlegar afleiðingar fyrir frelsi okkar, líf og framtíð alla.

Ég held, að þjóðin hafi gott af því að horfast í augu við þessar staðreyndir, sjá hvar hún er á vegi stödd og hvers má af forustunni vænta, ef ekki verður tekið í taumana af henni sjálfri, og það fyrr en seinna.

Það er vissulega öllum til tjóns og engum til góðs, að þannig sé áfram haldið. Og mig undrar það ekkert, að ríkisstj. veigri sér við að taka mikinn þátt í þeim umr., sem hér fara fram. Mun hún telja sér heppilegra að ota fram grunnhyggnustu og samvizkuliðugustu skósveinum sínum, til að bera óhróður, níð og ósannindi á andstæðinga sína, heldur en að gera þjóðinni grein sinna eigin gerða og verja þau óhappaöfl, sem hún hefur gerzt viljalaust verkfæri fyrir. Hið sama ráð tók hún einnig við 2. umr. þessa máls. Voru þá allir ráðherrastólarnir auðir í deildinni, og enginn þeirra treystist til að verja það mál. eða ræða það, málið, sem hún taldi sitt eina verkefni að leysa.

Því miður fyrir hæstv. ríkisstj. hafa þessir þjónar hennar dregið upp skýrari mynd af eymdinni og ábyrgðarleysinu í gerðum hennar en nokkur andstæðingur hennar hefði getað gert. Þar er aðeins eitt, sem áhugi er fyrir, ná sér niðri á andstæðingum sínum, auka sundrungina. varast allt viðnám í hættunum og erfiðleikunum og varðveita veika og sem óstarfhæfasta ríkisstjórn.

Þetta er ekki fögur lýsing, en ég vil spyrja, hver hefur getað fengið annað út úr þeim ræðum, sem stuðningsmenn hv. ríkisstj. hafa hér flutt?

Þeir segjast vilja vinna að vandamálunum, sem nú steðja að, í friði og samstarfi við aðra, einnig við framsóknarmenn. Skilyrðið er aðeins það, að þeir fái óáreittir að halda áfram hernaði á réttindi sveitanna, að þeir fái friðarkosningar til að laumast að þessu fólki og brjóta niður áhrif þess. Þegar þeir sjá, að kjósendur dreifbýlisins geta enn, þótt seint sé, dregið mikið úr þeim ránsfeng, sem ætlað er að ná af þeim, þá er sagt við þá, ef þið látið þetta ekki af hendi orðalaust og í friði, þá skulum við halda áfram ófriði, sundrung og eyðileggingu í öllum málum þjóðarinnar framvegis eins og hingað til. Við skulum nota meiri hluta okkar á Alþ. og í ríkisstj. til að hafa allt stjórnarfar sem veikast og koma á sem mestu öngþveiti, og kenna svo ykkur um allt saman, þegar óhöppin dynja yfir. — Það skipti engu máli, þó að við höfum öll ráð í hendi okkar, þrjá fimmtu hluta Alþ., ríkisstj. og getum ráðið öllu, sem við viljum. Ef illa fer, skal ykkur, sem engu ráðið og við ætlum sérstaklega að eyðileggja, ykkar sök skal allt verða, sem miður fer.

Gott dæmi um þetta er vinnustöðvun sú, sem nú er hér við höfnina. Þjóðviljinn segir í dag, að ameríska herstjórnin hafi tilkynnt, að hún muni taka uppskipun úr skipunum í sínar hendur í dag, ef vinna verði ekki hafin tafarlaust. Í gær heyrðuð þið fulltrúa flokka ríkisstj. miklast yfir því, að þeir gætu ráðið fram úr öllu slíku með frjálsum samningum við atvinnurekendur og verkamenn, — og þeir væru að gera það nú. En í dag segir svo Þjóðviljinn, að tilraunin hafi ekki borið árangur. Þegar þeir eru sjálfir búnir að espa alla upp í hið taumlausa kapphlaup, þá er framsóknarmönnum fyrst og fremst kennt um, að svona fer, gerðardóminum, sem þegar er af numinn, og mönnunum, sem þeir sögðu í gær, að helzt mættu ekki koma nærri slíkum samningum og hafa ekki heldur gert það.

Það, sem hv. stjórnarsinnum gremst mest af öllu, er ekki það, að samvinna og samstarf getur ekki tekizt til að vinna gegn hættunum og upplausninni af hinu þjóðhættulega kapphlaupi um stríðsgróðann, sem öllum hugsandi mönnum er orðið fullkomið áhyggjuefni, heldur hitt, að þeir skuli ekki geta gert Framsfl. meðábyrgan í því þjóðhættulega stjórnmálastarfi, sem þeir reka nú. Framsóknarmönnum er hins vegar alveg ljóst, að þeir eiga ekkert erindi um borð í hið dauðadæmda stjórnarskip, sem lætur reka beint upp í klettana og á skerin framundan. Framsóknarmenn eiga ekki erindi í þá fleytu fyrri en þeim hefur tekizt að vekja þá, sem um borð eru, sýna þeim fram á hættuna og fá þá til að breyta um stefnu og halda fleyinu á floti gegnum ósjóina og áföllin, sem eru að ríða yfir. Þeir þekkja ábyrgðartilfinningu og starfhæfni þessara manna og flokka, ef kosningar eru á næstu grösum, og þeir muna, hversu fór um samstarfið í vetur, er kosningar nálguðust, fyrst bæjarstjórnarkosningar og síðan kosningar til Alþ., hversu forráðamenn Sjálfstfl. snerust eins og skopparakringlur í kringum höfuðmálin, sem leysa þurfti, sögðu eitt í dag og annað að morgni, höfnuðu stuðningi og ábyrgu starfi, til að svíkjast síðan frá öllu næsta dag. Og hversu foringjar jafnaðarmanna reyndu að sitja um tækifæri til að smeygja sér undan ábyrgð og „draga mann sinn út“ úr ríkisstj., og létu loks leiðast til að heimta grunnkaupshækkanir í kapp við kommúnista, þótt þeir hefðu áður lýst því, meðan þeir áttu til rólega yfirvegun, að grunnkaupshækkanir væru ekki ósk verklýðsfélaganna og dýrtíðarflóðið væri engum hættulegra en verkamönnum. Þetta er allt í fersku minni, og engir geta því síður talað um en þessir flokkar, svo að mark sé á því tekið, að hægt sé að vinna að öllu í sameiningu og til bjargræðis, þrátt fyrir kosningahríð framundan. Enda lýsir taugaóstyrkur og hugarfar það, sem fram hefur komið hjá þessum flokkum í umr. þessum, nægilega ljóst, að ég hygg, hve mikið mark er takandi á þessu hjali og blekkingum.

Og ef tekið er nærtækasta dæmið : Rufu ekki þessir flokkar samstarfið á síðast liðnum vetri og stofnuðu til ófriðar, eingöngu í þeim tilgangi að reyna að bæta flokksaðstöðu sína, með stjórnarskrárbreyt? Eru slíkir menn líklegir til að leggja flokkshagsmuni og flokkssjónarmið til hliðar í kosningum, ef fram fara, til að tryggja samstarf og treysta átök þau, sem gera þarf, til að einhverju af áföllum þeim, sem nú steðja að, megi verjast? Ég spyr og ætla engum þm. og engum áheyranda minna sé ofraun að svara og draga réttar ályktanir.

Einn ræðumanna hér í gærkvöldi, hv. 4. landsk., Áki Jakobsson, var að minnast á Frakkland, áður en hrunið kom þar. Vildi hann líkja Framsfl. við einn merkan stjórnmálamann, Daladier, sem gerði síðustu tilraun til að sameina þjóðina og mynda ábyrga stjórn, sem væri megnug að verjast utan að komandi hættum. En hann gleymdi að minnast þar á hlutverk tveggja aðila, sem grófu einkum undan öllum slíkum tilraunum kommúnistana annars vegar, sem þá litu einkum til þess, að bandalag var þá á milli Rússa og Þjóðverja, og höfðu línu samkvæmt því, — og auðmannaklíkurnar hins vegar, sem vildi líta á nazistana þýzku sem bandamenn sína, en ekki óvini. Báðir þessir aðilar unnu saman að því að hindra tilraunir með sterkt stjórnarfar. Baráttan innbyrðis var sett ofar baráttunni við hætturnar utan að, — og því fór sem fór.

Ég vona, að ekkert svipað sé að gerast hér. En óneitanlega vekur það marga menn til umhugsunar, að kommúnistarnir hér styðja stjórn stríðsgróðamanna og auðmanna hér á landi, hafa allt ráð hennar í hendi sér og segja, að þeir geri það einkum til þess að viðhalda veiku stjórnarfari og verjast því, að starfhæf og styrk stjórn geti myndazt. Til þess var innanlandsófriður hafinn og honum enn haldið við, þótt hætturnar utan að og innan að séu orðnar geigvænlegar. — Og nú virðast helztu ráðstafanir þessara flokka vera þær að reyna að koma af sér ábyrgðinni af því, sem miður fer, afleiðingum verka sinna, og kenna þeim um, sem þeir hafa tekið ráðin af og alvarlegast vöruðu við þeim leiðum, sem farnar hafa verið og farnar eru enn, og hafa neitað að hverfa inn á þær.

Þetta höfum við viljað benda þjóðinni á til athugunar, því að ekkert er hættulegra en að ganga í blindni á háskalegri leið. Og ég hygg, þó að mér og okkur framsóknarmönnum hafi ekki tekizt að skýra þetta eins og vert er, að ræðumenn úr stuðningsflokkum ríkisstj. hafi ljósast sýnt með ræðum sínum, hver ábyrgðartilfinning ríkir þar, hve ljós skilningur á hættum, hve einlægur vilji til samstarfs — og hve auðnuríkt hugarfar til að gera það, sem skyldan býður og helzt má nú að gagni koma.

En ef sá skilningur fæst, skilningur á því, hvar meinsemdin er, sem nú er háskalegust íslenzku þjóðinni, þá mun þjóðin vissulega enn þá eiga bæði manndóm, þrek og vilja til að gera háskaöflin óskaðleg, en slíkt má víssulega ekki dragast lengi úr því, sem komið er.