19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Jóh. Stefánsson:

Þó að þær útvarpsumr., sem nú fara fram, séu að forminu til 3. umr. í Nd. um stjórnarskrárbreytinguna eða kjördæmamálið, þá hafa umræðurnar að langminnstu leyti snúizt um það, heldur beinzt að stjórnmálaviðhorfinu yfirleitt og ástandi og horfum í íslenzkum þjóðmálum. Ég fyrir mitt leyti sé ekkert því til fyrir stöðu, að umræðurnar beinist aðallega inn á þær brautir, ekki sízt fyrir þær sakir, að stjórnarskrárbreyt. er raunverulega afgr. á síðasta Alþ. og með kosningum þeim, sem fram fóru 5. júlí s.l. Ég mun því ekki í þessum ræðum mínum víkja neitt sérstaklega að kjördæmamálinu og stjórnarskrárbreyt., en í stað þess að því, er skeð hefur á síðustu tímum í stjórnmálunum, og að ástandi því, er það hefur skapað, og hvað gera eigi til úrlausnar.

Því mun enginn geta með rökum neitað, að margs konar vandræði steðja nú að þjóðinni og að útlitið sé að ýmsu leyti uggvænlegt, þótt um leið verði að viðurkenna það, að það sé að mestu leyti sök þeirra manna, er ráðið hafa stefnu og starfsaðferðum íslenzkra stjórnmála á síðustu tímum. En sárust eru sjálfskaparvitin.

Því fer víðs fjarri, að það sé rétt, sem hv. 1. þm. S.-M, Eysteinn Jónsson, hélt fram í ræðu sinni í gærkvöldi, að samþykkt stjórnarskrárbreytingarinnar hafi valdið sérstakri upplausn og ástandi. Þvert á móti hefur sú samþykkt orðið til þess, að hikað hefur verið meira en áður var að renna óheilla- og ofbeldisskeiðið á enda, og þau íhaldsöfl, er valdið hafa mestum miska síðustu tíma, eru nú, um skeið að minnsta kosti, tvístruð og dreifð og stungið er nú við fótum á óheillabrautinni, þótt seint sé, með því að afnema hin illræmdu og þjóðhættulegu gerðardómslög, eins og nú virðist sýnt, að gert verði. En annars virðist mér ræða þessa hv. þm., Eysteins Jónssonar, vera einn sár harmagrátur yfir því hvoru tveggja, að stöðvaðar yrðu nú árásir löggjafans á mannréttindi verkalýðsins, og eins hinu, að Framsókn hefði nú ekki lengur hina sömu aðstöðu til þess að viðhalda rangindunum og auka þau. En þess mun sízt saknað af réttsýnum og þjóðhollum mönnum.

Það er bæði rétt og skylt að gera sér fulla grein fyrir því, hvar íslenzk þjóðfélagsmálefni eru nú á vegi stödd. Og því verður vissulega ekki neitað, að þar eru ástand og horfur sízt glæsilegar.

Við augum hvers heilskyggns manns blasa þrjár ömurlegar staðreyndir.

Í fyrsta lagi er óhindrað flóð stríðsgróða, er streymir hömlulítið eða hömlulaust um hendur fárra manna og félaga — og það meira nú en nokkru sinni fyrr í sögu landsins.

Í annan stað er hraðvaxandi dýrtíð, án nokkurra verulegra eða áhrifaríkra úrræða til viðnáms.

En þetta hvort tveggja hefur leitt og mun vissulega, ef áfram heldur á ógæfubrautinni, leiða til enn meiri verðbólgu og vandræða.

Loks eru, í þriðja lagi, fullkomin vandkvæði á vinnumarkaðinum, misræmi í kaupgjaldi og hættuleg hópabarátta, er öðru hverju leiðir til vinnustöðvana, samtímis því, er skortur hefur skapazt á vinnuafli til nauðsynlegra framkvæmda og framleiðslu. En þetta þriðja atriði getur leitt til meiri þjóðfélagsvandræða en flest annað og jafnvel orðið til þess, að erlent vald seilist til aukinna áhrifa á viðkvæmustu innanlandsmál okkar.

En af hverju stafa þá öll þessi vandræði? Að því skal nú vikið. Stríðsgróðinn fór fyrst alvarlega að flæða yfir landið, þegar kom langt fram á árið 1940, samtímis því, er verðlag nauðsynjavara tók að hækka hröðum skrefum. Langsamlega mesti gróðinn stafaði af of ört hækkandi verði sjávarafurða á útlendum markaði. Þá þegar, haustið 1940, var það lagt til af Alþfl., að lagt yrði útflutningsgjald á íslenzkar sjávarafurðir, er seldar voru með stríðsgróða, og því fyrst og fremst varið til þess að greiða íslenzkum landbúnaðarframleiðendum verðlaun á vörur sinar, svo að unnt væri að hafa þær í lægra verði til neytenda. En þessar tillögur voru algerlega hundsaðar af Sjálfstfl. og Framsfl. Í stað þess rann gróðinn óskiptur í vasa tiltölulega fárra einstaklinga, samtímis því, sem verðlag hækkaði hröðum skrefum á íslenzkum framleiðsluvörum, en það varð til þess að hækka stórkostlega dýrtíðina í landinu, en launþegarnir höfðu báðar hendur bundnar og fengu ekki einu sinni fullt álag á laun sín til samræmis hækkandi verðlagi, hvað þá að þeim veittist nokkurt svigrúm til grunnkaupshækkunar. Með þessu var dýrtíðar- og stríðsgróðaasninn leiddur sameiginlega af Framsókn og Sjálfstfl. inn í íslenzkar stjórnmálaherbúðir. Og það var ekki látið þar við sitja. Áfram var haldið á þessari sömu braut af þessum tveim flokkum; þrátt fyrir andóf og aðvaranir Alþfl. Skattalög voru sett á Alþingi 1941. Útgerðarfyrirtæki höfðu áður búið við skattfrelsi um skeið. Þessi skattalög voru, að því er snertir linkind og vettlingatök á stríðsgróðanum, mótuð af Sjálfstfl. og Framsfl. Stríðsgróðaskatturinn var ákveðinn miklu lægri en Alþfl. hafði gert tillögur um. Og hinir fyrrgreindu tveir flokkar samþykktu í sameiningu, gegn atkvæðum Alþfl., að leyfa mestu stríðsgróðafélögunum að draga frá skattskyldum tekjum sínum öll töp, sem orðið höfðu á rekstrinum frá því 1931. Með þessu var stríðsgróðanum beinlínis hrúgað á hendur fáeinna manna. Og ofan á allt þetta gerðu hinir tveir íhaldssömu efnamannaflokkur samtök sín á milli í niðurjöfnunarnefnd Reykjavíkur um það að hindra, að útsvör væru lögð jafnhá á stórútgerðina og vera bar og í samræmi við útsvarsstiga á öðrum. Bættust þar enn álitlegar fúlgur við stríðsgróðann, sem lék óhindraður í vösum einstakra manna. Heimild, sem sett var í lögum vorið 1941 um útflutningsgjöld á sjávarafurðum, sem seldar væru með stríðsgróða, var ekki notuð. Og svo komu loks skattalögin 1942. Sjálfstfl. og Framsfl. sameinuðust um það að leyfa stríðsgróðafyrirtækjum að stinga skattlaust í vasa sinn 40% af ársarðinum, og engar verulegar hömlur voru settar um notkun og yfirráð varasjóðs þessara stríðsgróðafyrirtækja, en í þá mátti leggja ¾ af hinum skattfrjálsu tekjum. Og svo var sveitar- og bæjarfélögunum bannað að leggja nokkur útsvör á stríðsgróða yfir 200 þús. kr.

Allt voru þetta sameiginleg verk og athafnir Sjálfstfl. og Framsfl.

Þannig leyfðu þessir flokkar stríðsgróðanum að flæða óáreittum til einstakra manna og félaga. Það er því vissulega ekki að ófyrirsynju, að það játningarandvarp stígur upp frá Framsfl. í bréfi hans frá 7. þ. m. til hinna flokkanna, þar sem sagt er orðrétt, „að enn hafi ekki orðið samtök um það að gera fullnægjandi ráðstafanir til að takmarka stríðsgróða einstaklinga á kostnað almennings, svo sem nauðsyn ber til.“ En Framsókn hefði átt að sjá þetta áður, en ekki eftir að hún gerði bandalag við Sjálfstfl. um að hrúga auðnum sem mest saman á höndum fárra manna.

Verðlagseftirlitið, í höndum hv. fyrra þm. S.-M., Eysteins Jónssonar, og í samvinnu við Sjálfstfl., hefur um leið verið næsta bágborið. Allt skipulag þess hefur verið á ringulreið og meingallað og mótað af þeirri grundvallarskoðun einni, að aðeins þær vörur hefðu þýðingu fyrir dýrtíðina, sem skipta verulegu máli fyrir vísitöluútreikninginn, en aðrar vörur mættu hækka eftir vild. Af þessu hefur leitt skefjalitla dýrtíð, sem þó hvergi nærri kemur réttilega fram í verðvísitölunni. Dýrtíðin hefur flætt yfir landið án nokkurra röggsamlegra né réttlátra hindrana. Og aftur er það sök Framsóknar og Sjálfstfl.

En þegar þetta allt saman hefur sigið á ógæfuhlið, fyrir samstilltan tilverknað Framsfl. og Sjálfstfl., hafa verkalýðurinn og launastéttirnar í landinu verið svo að segja hundeltar, fyrst og fremst af Framsfl. og undir forustu hans, en með fullkominni aðstoð Sjálfstfl. Í herbúðum þessara tveggja flokka hefur ríkt algert skilningsleysi, ef ekki fullur fjandskapur í garð þessara stétta. Forustumenn Framsfl. töldu það dauðasynd, er verkamenn og launastéttirnar yfirleitt fengu í ársbyrjun 1941 greidda fulla dýrtíðaruppbót eftir verðvísitölu á laun sín. Það flökraði meira að segja að hv. þm. Str., Hermanni Jónssyni, eftir því, sem hann hefur sjálfur skýrt frá, að segja af sér, þegar þessir samningar verkalýðsfélaganna náðust í ársbyrjun 1941, svo þjóðhættulegt taldi hann, að launastéttirnar fengju alla dýrtíðaraukninguna uppi borna. En þegar ekki tókst að hindra þetta, var Framsókn samt ekki af baki dottin. Hv. fyrri þm. S.-M., Eysteinn Jónsson, gerði þrálátar tilraunir til þess vorið 1941 að fá lögfestan tiltölulega mjög háan launaskatt og hafði á tímabili tekizt að fá forustumenn Sjálfstfl. í lið með sér. Þó heppnaðist þetta ekki, vegna harðrar andstöðu Alþfl., en söm var gerð og vilji þeirra manna og flokka, er að þessu stóðu. Og enn var haldið áfram. Alþingi var kallað saman haustið 1941 í því einu skyni að reyna að knýja í gegn lög, er ráðherrar og stjórn Framsfl. áttu upptök að, þar sem binda átti allt kaupgjald og banna greiðslu hærri dýrtíðaruppbótar en fram kæmi þá um haustið í verðvísitöluútreikningnum. Svo leit út fyrir um skeið, sem Sjálfstfl. mundi einnig hallast að framkvæmd þessara nýju árása á launastéttir landsins, og þó að ég lýsti yfir því í ríkisstjórninni, eins og ég hafði raunar áður ert, þegar rætt var um launaskattinn, að ef þessi lög yrðu samþ., mundi Alþfl. slíta öllu samstarfi, þá hafði það engin áhrif. Framsfl. var reiðubúinn til þess að taka höndum saman við Sjálfstfl. einan, aðeins ef unnt væri að fá þessum málum framgengt. Ekki var samheldnin talin þýðingarmeiri þá. En þó tókst Alþfl. að eyða þessu óþurftarmáli á haustþinginu 1941, og þáv. forsrh., hv. þm. Str., Hermann Jónasson, baðst þá lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Svo mikils þurfti þá við þurfa. En byrjað var þá aftur á nýjan leik, því að ekki hafði Framsókn enn gefið upp alla von um það, að hægt mundi að fá Sjálfstfl. til nýrra aðgerða gegn launastéttunum, er nýtt tækifæri gæfist, og þetta tækifæri kom um síðast liðin áramót, og vonir Framsóknar um aðstoð Sjálfstfl. létu sér ekki til skammar verða. Hin illræmdu gerðardómslög voru sett af þessum tveimur flokkum í sameiningu í ársbyrjun 1942, en Alþfl. hvarf þá tafarlaust úr samstarfinu. — Framsókn hafði fengið sitt fram. Verkalýðsfélögin voru sett í lagafjötra og þeim bannað að bæla kjör stéttar sinnar. Við sögðum það þá þegar Alþýðuflokksmenn, að slík þvingunarlög mundu ekki lengi standa og að launastéttirnar mundu hrista af sér þessa hlekki, sem á þær voru lagðir af skammsýnum og skilningslausum mönnum. Og það hefur rætzt. Gerðardómslögin eru að hverfa úr sögunni. En allar tilraunir til setningar þessarar löggjafar og reynsla hennar um tæpra 8 mánaða skeið hefur orðið þjóðinni dýrkeypt, en ætti um leið að vera lærdómsrík.

Það ræður af líkum, að allar þessar aðgerðir Framsfl. með aðstoð sjálfstæðismanna um meira en eins árs skeið gegn verkalýðssamtökunum og launastéttunum hefur sízt orðið til þess að laða þær til samstarfs og sameiginlegra átaka með öðrum til lausnar aðsteðjandi vandamálum. Þvert á móti hefur það orðið til þess að skapa fullkomna og réttmæta tortryggni og andúð verkalýðsins gegn þeim mönnum og flokkum, sem ekki hafa séð annað ráð til bjargar en síendurteknar árásir og ofríki á hendur launastéttunum. Þetta hefur fyrst og fremst spillt öllum friði og samstarfi í íslenzku þjóðfélagi og leitt til misréttis, glundroða og upplausnar. Og víginu er með réttu lýst á hendur þeim mönnum, er átt hafa upptökin og framkvæmdirnar að þessum óhappa- og óhæfuverkum. Þeirra er ábyrgðin, hvernig komið er, þeirra manna og flokka, er frömdu ranglætið, en ekki þeirra manna, er þola hafa orðið ranglætið.

Það, sem ég nú hef rakið í stuttum dráttum, eru fyrst og fremst orsakir þess ástands, er nú ríkir. Og um það munu flestir vera sammála, að ástandið sé ekki gott. Og þá er að reyna að bæta úr því. En það er skilyrði til þess, að það verði gert, að menn skilji og viðurkenni orsakirnar, sem til þess liggja. Alþfl. er það fullkomlega ljóst, að brýn þörf sé úrbóta og hverfa verði af leiðum ranglætis og misréttis. En leiðin til þess er allra sízt sú, að minni hluti þings og þjóðar kúgi meiri hlutann til þess að falla frá nokkurri lagfæringu á kjördæmaskipun landsins og hætta við að hafa fyrirhugaðar kosningar. Leiðirnar eru allt aðrar. Og Alþfl. er þess reiðubúinn að ræða í sameiningu við aðra um þessar leiðir út úr ógöngunum.

Það er alveg bersýnilegt, að taka verður öðrum tökum en gert hefur verið á stríðsgróðanum. Það verður að taka hann meira en nokkru sinni fyrr úr umferð, bæði til eignar alþjóðar, og þá ef til vill að einhverju leyti að leggja hann til hliðar, til uppbyggingar og víðreisnar síðar. Það er einnig augljóst, að gera verður aðrar, róttækari og samfelldari ráðstafanir gegn vaxandi dýrtíð og verðbólgu, og kemur þar til athugunar breytt skipulag á innflutningi til landsins og dreifingu nauðsynjanna meðal almennings.

En það, sem mest á ríður og ganga verður fyrir öllu, er allt annað og breytt viðhorf ríkisvaldsins til vinnumálanna og verkalýðssamtakanna. Hefur Alþfl. þar bent á leiðir með flutning þingsályktunartillögu á þskj. 14 um að leita samninga við verklýðssamtökin um kaup og kjör og allsherjar vinnumiðlun, og um undirbúning löggjafar um 8 stunda vinnudag og vinnuvernd.

Það er beinlínis lífsnauðsyn, að komizt verði að fullkomnum og frjálsum samningum við verkalýðssamtökin yfirleitt um almenna, samræmd grunnlaunahækkun og 8 stunda vinnudag, þar sem því verður á nokkurn hátt komið við, og um leið miðlun á vinnu til nauðsynlegra framleiðslustarfa og verklegra framkvæmda, um leið og keppt verði að því með löggjöf og samningum að bæta aðbúð og öryggi vinnustéttanna. Þessir samningar þurfa að fást og nást sem allra fyrst til varanlegrar frambúðar. Að sjálfsögðu þarf og einnig að samræma og bæta um leið kjör opinberra starfsmanna. Einnig þarf að koma á aukinni samvinnu og gagnkvæmum skilningi á milli bændanna í landinu og verkalýðsins yfirleitt, sem leiði til bættrar afkomu beggja aðila.

Það er ekki nokkrum vafa bundið, að fá verður fullt samkomulag við verkalýðinn og iðnstéttirnar yfirleitt til sameiginlegra átaka um lausn vandamálanna. Fram hjá því verður ekki komizt, ef upplausn og misrétti á ekki að aukast í þjóðfélaginu, sem leiða kann til stórháska um afkomu og sjálfstæði þjóðarinnar. En til þess þarf að skipta um stefnu og leggja inn á nýjar leiðir, hverfa frá stefnu þröngsýni og misréttis gegn vinnustéttum landsins inn á leiðir réttlátrar skiptingar arðsins og bættrar afkomu þjóðfélagsþegnanna yfirleitt. Það eru leiðir nýrra, aukinna og réttlátra skipulagshátta.

Um þessar leiðir vill Alþfl. ræða við aðra flokka og stuðla fyrir sitt leyti að nýrri, víðtækari framkvæmd mála til breytinga og bóta fyrir þjóðarheildina og til öryggis sönnu sjálfstæði þegna og ríkis.