19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Háttvirtu hlustendur. Þegar Framsfl. fór þess á leit, að útvarpsumr. yrðu hafðar um þetta mál, mun það hafa verið ósk flokksins, að þær umr. yrðu um landsmál yfirleitt. Ég mun því ekki ræða mikið kjördæmamálið sjálft, en láta mér að mestu nægja að staðhæfa einu sinni enn, að kjördæmamálið er útrætt mál og aðeins eftir formleg afgreiðsla þess á Alþ. Get ég þó ekki látið hjá líða að minnast með örfáum orðum á þá staðhæfingu hv. 1. þm. S.-M. (EystJ), að fulltrúar þeirra flokka, sem að kjördæmamálinu standa, hafi náð kosningu þrátt fyrir kjördæmamálið, en ekki vegna þess. Sá hv. þm. hefur viljað láta í það skína, að fjöldi þeirra manna, sem greiddu þessum flokkum atkvæði sitt, hafi verið meira og minna andvígir kjördæmamálinu sjálfu. Hér í þingsölunum hefur því verið haldið fram, að þetta hafi gilt hvað Sósfl. snertir, og það hefur verið tilfært, að í kosningabaráttunni höfum við haldið því fram, að kosningarnar snerust einnig um önnur mál og stærri en kjördæmamálið. Það er rétt, að kosningarnar snerust um önnur mál en kjördæmamálið, en hitt er þó jafnrétt, að hver einasti kjósandi okkar vissi, að um leið og hann gekk að kjörborðinu til þess að kjósa Sósfl., þá greiddi hann um leið atkv. með breyt. á kjördæmaskipuninni. Sama má segja um kosningar hinna flokkanna beggja, sem að kjördæmamálinu standa. Það er því ómótmælanlegt, að yfir 40 þús. alþingiskjósendur, eða 5/7 allra, sem atkv. greiddu við kosningarnar, voru með því, að kjördæmaskipuninni væri breytt. Og hæstv. Alþ. ber skylda til þess að framkvæma vilja þessara kjósenda.

Annað atriði, sem fram hefur komið í ræðum margra hv. þm., vil ég lítils háttar drepa á, það, að þessi breyt., sem gerð verður á kjördæmaskipuninni, sé fyrst og fremst miðað við það að rýra valdaaðstöðu eins ákveðins stjórnmálaflokks í landinu, sem sé Framsfl. Þessu hefur verið haldið fram bæði af framsóknarmönnum og einnig sumum sjálfstæðismönnum. Þessar staðhæfingar beggja þessara flokka sýna aðeins, hversu fjarri þessir flokkar eru því að berjast á heilbrigðum, málefnalegum grundvelli. En rökin fyrir því að breyta kjördæmaskipuninni eru þau, að reynt sé að tryggja það svo sem verða má, að kjósendur hafi allir sama rétt til áhrifa á val fulltrúa til Alþ., hvar sem þeir eru búsettir á landinu, að menn í einu kjördæmi hafi ekki tvöfaldan, þrefaldan eða jafnvel fimmfaldan rétt á við menn á öðrum stað á landinu til fulltrúavals til Alþ. M. ö. o., þegar fólkið flyzt frá einum stað til annars á landinu, þá á með því að flytjast valdið til áhrifa á skipan Alþ. Það má vera, að þetta verði til þess að draga úr völdum framsóknarmanna á Alþ., en slíkt á ekki að vera tilgangurinn og er ekki tilgangurinn fyrst og fremst með breyt. á kjördæmaskipuninni út af fyrir sig hjá þeim mönnum, sem hugsa á heilbrigðan hátt, eins og við sósíalistar gerum. Ef Framsfl. getur sýnt það, að þrátt fyrir kjördæmabreyt. komi hann jafnsterkur inn á þing eins og áður, þá á hann að vera það, og þá er það útrætt mál. En hv. 1. þm. S.-M. hefur haldið því fram og fleiri, að breyt. þessar á kjördæmaskipuninni muni alls ekki tryggja jafnrétti kjósendanna í landinu til þess að hafa áhrif á skipun Alþ., og því miður er þetta svo. Það hefur ekki verið búið svo um hnútana, að jafnrétti náist í kjördæmaskipuninni, þó að þessar breyt. verði samþ. Vel má vera, að svo skiptist fylgi flokka við kosningan. að jöfnuður náist milli flokka með þessari breyt., en trygging er ekki fyrir því.

Þá vil ég minnast á það atriði, sem oft er talað um, og það er réttur dreifbýlisins. Það er rétt og eðlilegt, að mennirnir, sem búa í hinum dreifðu byggðum landsins, eigi fulltrúa á Alþ. En þeir menn, sem sækja sitt kjörfylgi þangað, eiga þá að vera menn, sem í raun og veru eru fulltrúar dreifbýlisins, en ekki embættismenn. Framsfl. telur sér það til gildis að vera fulltrúi dreifbýlisins hér á Alþ. Sú skipan ætti þá að vera á um fulltrúaval þess flokks, að þm. hans væru búsettir þar, sem þeir eru í kjöri, þannig að fleiri en nú kæmu inn á þing af fulltrúum beint úr hinum starfandi stéttum landsins, bænda, sjómanna, iðnaðarmanna og verkamanna. Þetta mundi tryggja rétt dreifbýlisins og stéttanna í landinu. Og þetta mun frekar verða með því, að breytt sé kjördæmaskipuninni í fullkomnara horf.

Framsfl. hefur kosið við þessar umr. að benda frekar á annað mál heldur en kjördæmamálið, sem sé verðbólguna, sem vex dag frá degi, og þann voða, sem af henni getur stafað. Og framsóknarmenn hafa sagt við okkur: Þetta ástand er ákaflega ægilegt, og þörfin á úrbótum er ákaflega brýn. — Og þeir hafa talað um, að allir flokkar eigi að leysa þennan vanda. Og þeir hafa sagt: Við skulum vera með í að leysa þennan vanda, ef þið svíkið kjördæmamálið. Þetta er flokkur, sem hælir sér af því að vera ábyrgasti flokkur hinna ábyrgu. Hann segist vilja hjálpa til að afstýra hættum, en gerir þetta að skilyrði, að misrétti í skipan Alþ. haldist.

En í sambandi við verðbólguna spyrjum við: Hverjar eru orsakirnar? Hv. framsóknarmenn og sjálfstæðismenn tala sífellt þannig eins og orsökin sé aðeins ein: Kröfur verkamanna og annarra launtaka um bætt kjör. Þetta er vægast sagt áreiðanlega vísvitandi fölsun raka. Orsökin er hinn gífurlegi stríðsgróði, sem safnazt hefur á hendur tiltölulega fárra manna í þjóðfélaginu. Og spyrji menn um orsakir hinnar vaxandi verðbólgu, þá eru þær það, að þegar kaupgeta manna eykst gífurlega, eiga þeir erfitt með að ávaxta fé sitt og vilja koma því í fasteignir og framleiðslu. Og leiðin er að bjóða í fasteignir, hús, jarðir og framleiðslutæki hærra og hærra, án alls tillits til þess, hvað eiginlega borgar sig. Allir vita, að húsverðið hér í Reykjavík hefur þrefaldazt, ferfaldazt eða jafnvel fimmfaldazt, síðan stríðið hófst, án þess að viðskiptagrundvöllur sé til fyrir þeirri hækkun. En það, sem er orsök þessa, er, að við höfum stríðsgróðann, sem þeir, sem hafa hann í höndum, vilja leggja í fasteignir, en ekki liggja með rentulausa peninga. Þess vegna sprengja þeir verðið upp úr öllu valdi. Þess vegna fella þeir gildi peninganna. Enn fremur þurfa þessir menn á vinnukrafti að halda í stærri stíl en nokkru sinni fyrr, og við það bætist, að til landvarna er nú mikið spurt eftir vinnuafli. Afleiðingin verður sú, að eftirspurnin verður meiri en framboðið, og þá skapast þar eins og annars staðar verðhækkun, af því að menn bjóða hærra og hærra í vinnuaflið og kaup hækkar hröðum skrefum sem afleiðing verðbólgunnar en ekki orsök hennar. Þegar við á þennan hátt gerum okkur grein fyrir því, hver er hin raunverulega orsök verðbólgunnar, þá er að líta á, með hvaða ráðum Framsfl. og Sjálfstfl. vilja mæta þessum mikla vanda. Þeir hafa viljað það með aðeins einu, með því að halda kaupi verkamannastéttarinnar, sem er lægst launuð allra stétta, niðri. Næsta dæmið um þetta er setning gerðardómsl., sem voru sett með bróðurlegu samstarfi þessara beggja flokka. Þessi l. áttu, eftir því sem þeir sögðu, að draga úr hættu verðbólgunnar, en gerðu það eitt að fjötra hendur verkalýðsins í baráttunni fyrir bættum kjörum. Þegar stríðsgróðinn hefur myndazt í landinu, hefur verkalýðurinn borið skarðan hlut frá borði; meðan hvarvetna í heiminum er ákveðinn 8 stunda vinnudagur, er hér hafður 10 stunda vinnudagar með því kaupi, að ekki er hægt að lifa af sæmilegu lífi. En kröfur verkalýðsins nú eru 8 stunda vinnudagur og að það kaup verði greitt fyrir þá vinnu, að hægt sé að lifa af sómasamlegu lífi. Þetta á að dómi framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, að skapa verðbólgu. En það eru blekkingar — og því miður vísvitandi. Það, sem verkalýðurinn vill koma fram nú, er, að verkamenn nái rétti sínum og stríðsgróðinn dreifist á nokkuð fleiri hendur en að undanförnu hefur verið.

Hv. 1. þm. S.-M. spurði um það, hver væru okkar ráð til þess að afstýra hættunni af verðbólgunni. Þessu vil ég svara því, að að sjálfsögðu verður að taka stríðsgróða einstaklinganna úr umferð og þeirra eign í eigu alþjóðar. Það er fyrsta og óumflýjanlegt skilyrði til þess að hægt sé að stöðva verðbólguna, að stríðsgróðinn sé tekinn af þeim mönnum, sem hann hefur safnazt til. Og hvernig á að gera það? Til þess eru margar leiðir, og við sósíalistar erum fúsir til að ræða þær. Ein leiðin, sem virðist ekki liggja fjarri, er að taka alla utanríkisverzlunina í hendar ríkisins og þar með láta ríkið fá yfirráð yfir þeim mikla gróða, sem flýtur inn í landið gegnum utanríkisverzlunina. Annað virðist líka liggja nærri, að taka undir opinbert eftirlit eða jafnvel opinberan rekstur stærstu atvinnutækin, sem mestan stríðsgróða hafa myndað, togarana. Þetta eru aðeins nokkrar leiðir af þeim, sem hægt er að fara. Aðalatriðið er, að takmarkið náist, að stöðva myndun stríðsgróðans í höndum einstakra manna. Það er ekki hægt að krefjast þess af verkamönnum, að þeir sitji rólegir og leggi hendur í skaut og fái ekki rétt sinn fram, meðan stríðsgróðinn er látinn flæða eins og verkast vill til einstakra manna. En þegar stríðsgróðinn hefur verið tekinn úr umferð, ber okkur að snúa okkur að því að skipuleggja vinnuaflið í landinu á sem skynsamlegastan hátt. Hér eru hundruð manna, e. t. v. þúsundir manna, sem stunda óþarfa atvinnu. En vinnuaflið á að nota til framleiðslustarfa, því að fyrst og fremst eigum við að tryggja það, að framleiðslan gangi sinn gang. Það ber einnig að efla skilning þjóðarinnar á því, að það stríð, sem nú er háð í heiminum, er líka okkar stríð. Það er barizt um okkar framtíð sem einstaklinga og þjóðar. Og okkur ber að efla skilning þjóðarinnar á því, að sigur bandamanna er okkar sigur. Þess vegna eigum við ekki að líta með kæruleysi á þær landvarnir, sem hér eru unnar. Við eigum að kenna þjóðinni að leggja eitthvað á sig fyrir þær. En það verður svo bezt gert, að verkalýðnum verði veittur sinn réttur og aðrar þær ráðstafanir gerðar, sem ég nú hef greint.

Hv. 1. þm. S.-M. (EystJ) sagði, að menn verði að hafa þrek til þess að yfirgefa flokka, sem hafi brugðizt þeim. Það er rétt, menn eiga að hafa þrek til þess að yfirgefa slíka flokka. Ég bið þjóðina að líta á framkomu Framsfl., þess flokks, sem á sínum tíma byggði hús sitt á grundvelli samvinnustefnunnar og vildi jafna og bæta kjör manna, flokks, sem berst nú fyrir því að halda við óréttinum í kjördæmaskipuninni, flokks, sem vildi kalla sig flokk hinna vinnandi stétta, en skilur ekki lengur, hver hætta stafar af stríðsgróðanum og lítur á það sem bjargráð að halda niðri kaupi verkalýðsins. — Sjálfstfl. tekur þessum flokki ekki í neinu fram, nema hann virðist skilja ofurlítið í máli valdsins, að verkalýðurinn er nú það vald, sem taka verður tillit til. Já, menn eiga að hafa kjark til þess að yfirgefa flokka, sem hafa brugðizt þeim. Ég bið ykkur, góðir hlustendur, að athuga alvöruna í þessum orðum. Ég bið ykkur að gera upp við ykkur, hvort það er ekki Framsfl., sem hefur brugðizt ykkur.