19.08.1942
Neðri deild: 9. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Olgeirsson:

Það var ekki innanlandsófriður, þegar þrælalög voru sett gegn verkalýðnum og mannréttindum rænt af meiri hluta Íslendinga! O, nei, nei, — það er bara innanlandsófriður, ef verkalýðurinn hindrar, að þessi þrælalög nái tilgangi sínum.

Það er góð mynd af innanlandsfriðnum, eins og Framsókn hugsar sér hann, að í vetur, þegar við þm. Sósfl. komum með till. hér á þingi um, að ríkisstj. leitaði samvinnu við verkalýðssamtökin um að tryggja vinnuafl handa landbúnaðinum og annarri nauðsynjaframleiðslu Íslendinga og landvarnarvinnunni, — þá hundsaði Framsókn gersamlega þessa till., og ráðh. Framsóknar virtu ekki einu sinni verkamannafélagið Dagsbrún svars, er það bauð samvinnu um þessi mál í vetur. En hnefi þrælalaganna í andlit verkalýðsins var svarið. Þetta var innanlandsfriðurinn eins og Framsókn vildi hafa hann. Það var kirkjugarðsfriður mannréttinda og verkalýðshreyfingarinnar, sem hún óskaði eftir.

Hv. þm. V.-Sk., Sveinbjörn Högnason, talaði um stríðsgróðann. Hverjir voru það, sem veittu stríðsgróðanum til fámennrar yfirstéttar hér í landinu, þannig að t. d. 1940 höfðu 40 menn í Rvík hver 350 þús. kr. árstekjur að meðaltali, meðan meðaltal árstekna þar var 1500 kr. á mann?

Hverjir voru það, sem gerðu togaraeigendur skattfrjálsa, en bönnuðu verkamönnum um leið kauphækkanir með lögum? Eru framsóknarmenn búnir að gleyma því, að þeir gerðu þetta sjálfir? Læt ég svo útrætt um þessar mislukkuðu tilraunir Sveinbjarnar Högnasonar til að leika vinstri mann.

Ranglæti það í mannréttindamálum, sem Framsfl. hefur beitt sér fyrir í sambandi við kjördæmaskipunina, er nú að fá þungt áfall með endanlegri samþykkt fyrirliggjandi stjórnarskrárfrv., þótt ekki verði með því skapað fullt jafnrétti kjósenda.

Kúgun sú gagnvart verkalýðnum, sem Framsfl. sem umboðsflokkur stríðsgróðavaldsins í Rvík beitti sér fyrir með setningu gerðardómslaganna, er nú að líða undir lok. Engu að síður heldur Framsókn dauðahaldi í þessar ritjur kúgunarlaga sinna, að hv. þm. Str. (HermJ) lýsir yfir því í Ed., að hefði hann setið í stjórn áfram, þá hefði ekki verið látið undan verkamönnum, heldur haldið fast í gerðardóminn. Með hvaða aðferðum þessir forustumenn Framsóknar hafa hugsað sér að tryggja þetta þrælahald í þágu milljónamæringanna í Rvík, er oss ekki fyllilega ljóst. Ef til vill hafa þær vélbyssur og táragas, sem þessi hv. þm. Str. lét kaupa á 2 undanförnum árum fyrir 74 þús. krónur og Jónas Jónsson, hv. þm. S.-Þ., lýsti yfir, að nota ætti gegn kommúnistum, átt að tryggja viðhald þrælalaganna. Ef til vill hafa samningar við ameríska hervaldið og vinnuskylda sú, sem Jón Árnason heimtar í Tímanum, átt að nægja til að tryggja framkvæmd þrælalaganna. Það að stöðva allar byggingar í Rvík átti vafalaust líka að vera liður í því að minnka svo atvinnuna, að hægt væri að halda kaupinu niðri. Sveinbjörn Högnason þorði litlu að svara spurningum um þetta efni, en viðurkenndi þó, að fleiri þrælalög hefði þurft að setja til að tryggja þau fyrstu.

Hvaða aðferðir, sem Framsóknarforustan hefur hugsað sér að nota, þá er eitt ljóst af þessu, að einskis átti að svífast til þess að framfylgja þeirri kröfu stríðsgróðavaldsins í Rvík að halda kaupinu niðri. Hnefahögg í andlit meiri hl. þjóðarinnar, verkalýðsins, en sameiginleg ráðstöfun við útlent hervald um, hvernig íslenzku vinnuafli skuli ráðstafað gegn vilja sínum, — það var stefna Framsóknar á síðasta þingi og auðsjáanlega enn.

Þetta er í skerandi ósamræmi við þá ræðu, sem fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, flutti fyrir kosningarnar, er hann lýsti yfir því, að auðvaldsstefnan væri dauðadæmd, — sú stefna, sem Tíminn þá flutti um, að Framsfl. mundi berjast fyrir hagsmunum hinna vinnandi stétta. Þá þurfti að tala til vinstri manna úti um land og reyna að blekkja þá til að greiða Framsókn atkv., af því að hún væri raunverulegur vinstri flokkur. — Nú lítur helzt út fyrir, að Framsóknarforustunni finnist engar afturhaldsaðgerðir nógu harðvítugar. Og mig skal ekki furða, þótt framsóknarmenn kvarti undan því hér í útvarpinu, að afhjúpuð séu þessi algeru umskipti þeirra, sem sanna, að hin róttæku vígorð þeirra fyrir kosningarnar voru lýðskrum eitt.

En þeir eiga einskis annars úrkostar, ef þeir ætla að reyna að ná aftur því trausti ýmissa vinstri manna í dreifbýlinu, sem þeir nú hafa misst, en að venda sínu kvæði í kross, gera iðrun og yfirbót fyrir allar sínar gerðardómssyndir og áralanga þjónustu við auðvald þessa lands. Og mér virðist á öllu, að Framsókn sé orðin of spillt til að geta slíkt, — en kjósendur hennar geta hins vegar við næstu kosningar gefið henni þá ráðningu, sem hún á skilið, ef hún hefur ekki gerbreytt um stefnu áður.

Framsókn hefur sýnt það, að hún er enn sem komið er ekki orðin vinstri flokkur aftur og því alls ekki fær til neinnar forustu fyrir vinstri hreyfingu í landinu né yfirleitt fær um að stjórna landinu öðruvísi en í samráði við erlent hervald og í harðvítugri andstöðu við ísl. alþýðu, jafnvel með harðstjórn yfir henni.

Ríkisstj. Sjálfstfl., sú er nú situr, hefur í ýmsu sýnt það, að hún hefur ekki viljað berja höfðinu við steininn, hvort nú sem orsökin er veikleiki hennar eða raunsæi, en prófsteinninn á afstöðu hennar og hæfileika til að stjórna landinu enn um nokkurt skeið (því til langframa er hún ófær um það), verður afstaða hennar til þeirrar vinnudeilu, sem nú stendur yfir í Reykjavík. Kröfur verkamanna um 8 tíma vinnudag og sómasamleg laun eru réttlætiskröfur. Bak við þær stendur það vald verkalýðsstéttarinnar, sem nú er orðið sterkasta innlent vald í landi voru. Sakir harðvítugustu yfirstéttarafstöðu meðal forustumanna atvinnurekenda hefur enn ekki verið látið undan þessum réttlætiskröfum verkalýðsins. Og nú hefur skapazt aukin hætta á erlendri íhlutun um mál vor, — á því, að setuliðið taki uppskipunina í sínar hendur, ef lengur er beðið.

Sósíalistaflokkurinn hefur hér á þinginu þegar bent á leið til þess að afstýra þessari hættu, þá leið, að ríkið taki skipaafgreiðslu Eimskipafélagins í sínar hendur og greiði verkamönnum það kaup, er þeir hafa krafizt. Frumvarp vort um þetta mál var til 1. umr. í dag. Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, sýndi lítinn skilning á því, hve nauðsynlegt er að grípa til slíkra úrræða sem þessara og leysa vandamál þetta á kostnað stríðsgróðamanna. Framsfl. sýndi það eitt í þeim umræðum, að hann þorði í hvorugan fótinn að stíga. Það var nú „manndómur hans, þrek og vilji“, sem Sveinbjörn Högnason talaði svo fagurlega um hér áðan, — Framsfl. var ráðþrota og úrræðalaus, ef dæma mátti eftir ræðu fulltrúa hans (SvbH) í þeim umr.

Verkalýðurinn einn og fulltrúar hans hér á þingi hafa bent á raunhæfa leið út úr öngþveitinu, sem kúgunarpólitík stríðsgróðavaldsins og embættismannaflokks þess, Framsóknar, hefur skapað á sviði atvinnumálanna. Og það er ekki aðeins á þessu sviði, sem stefna verkalýðsins flytur einu lausnina á vandamálum vorum.

Verkalýðurinn er nú orðinn sterkasta vald þjóðarinnar Framtíð hennar veltur nú á því, að hann verði pólitískt fær um að taka forustu hennar í sínar hendur. Til þess þarf hann að sameinast, pólitískt og faglega, og fylkja bak við sig öðrum vinnandi stéttum. Það verður verkefni alþýðunnar í kosningunum í haust.

Alþýða Íslands til sjávar og sveita þarf í haust að sýna vilja sinn til þessarar einingar, því að hún ein getur bjargað þjóðinni frá missi sjálfstæðisins, afstýrt yfirdrottnun stríðsgróðavaldsins og fært öllum vinnandi stéttum þessa lands bætta afkomu, aukin mannréttindi og þau völd, er þeim ber.