21.08.1942
Efri deild: 12. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Árnason:

Ég vildi aðeins beina því til hæstv. forseta, hvort hann sæi sér ekki fært að afgreiða stjórnarskrármálið í dag frá þinginu. Við, sem á móti því erum í þessari d., höfum ákveðið að greiða fyrir því, að afbrigði verði veitt, sem þarf, og ræða ekki um málið, nema tilefni gefist. Hins vegar er það svo, að flestir eða allir þeir þm., sem heima eiga úti um land, óska þess að þurfa ekki að sitja hér lengur að sinni en brýna nauðsyn ber til og fagna því, ef þinginu mætti bráðlega slíta, en það ætti að mega, þegar stjórnarskrá og kosningalög eru afgreidd, og mun einnig verða greitt fyrir þeim. Ég vildi, að forseti sæi sér fært að fara eftir þessari bendingu, það yrði öllum og líka þjóðinni fyrir beztu.