20.08.1942
Neðri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

28. mál, kosningar til Alþingis

Skúli Guðmundsson:

Ég vildi aðeins mega koma með eina bendingu til n., en það er viðvíkjandi 104. gr., en hún er um, hvernig skuli ganga frá kjörkassa og öðrum kjörgögnum, eftir að atkvgr. er slitið á kjördegi. Þar segir, að ganga skuli frá öllu saman, atkvæðakassa, aðalumslagi og kjörbók í strigapoka þeim, er atkvæðakassanum fylgir, binda vandlega fyrir með snæri eða sterku seglgarni, sem ekki eru hnútar á, og setja innsigli kjörstjórnarinnar á fyrirbandið sem næst hnútunum. Frambjóðendur eða umboðsmenn þeirra eiga rétt á að setja innsigli sín á enda fyrirbandsins. Gert er ráð fyrir, að innsigli kjörstjórnar sé í vörzlum hreppstjóra. En nú getur komið fyrir, og er ekkert við því að segja, að dragist að senda atkvæðakassa kjördeildar, og er hann þá á meðan varðveittur hjá yfirmanni kjörstjórnar, hreppstjóra. Virðist mér óviðfelldið, að sami maður geti haft í sínum vörzlum bæði atkvæðakassa og innsigli það, er nota ber. Getur það valdið tortryggni. Ég vil vekja máls á því, hvort ekki megi setja þarna ákvæði um að skylda kjörstjórnarmenn til að setja einnig sitt innsigli á fyrirbandið. Ég vil aðeins beina þessu til n. til athugunar.