20.08.1942
Neðri deild: 10. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

28. mál, kosningar til Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Það er vitanlegt, að stj. gat flýtt talningu atkv. Þær leiðir, sem lengst er að fara með atkvæðakassa, eru úr Geiradal á Patreksfjörð, úr Skeggjastaðahreppi að Bót og úr Öræfum að Brunnhól, og úr öllum þessum stöðum gátu kassarnir verið komnir á öðrum degi eftir kosningu á talningarstað.

Hv. þm. N.-Ísf. segir, að ekki hafi verið lokið talningu viku síðar en hefði þurft. Hvenær fer lokatalning fram? Hún fer fram, þegar landskjörstjórn telur endanlega öll atkv. og úthlutar uppbótarsætum. Fyrst þá er talningu lokið. Hægt hefði verið að koma kjörgögnum til landskjörstjórnar það fljótt, að hinni endanlegu talningu hennar hefði verið lokið viku eftir kosningu. Ég stend því við það, sem ég sagði, að ríkisstj. lék sér að því að láta telja viku seinna en þurfti að vera, og ég hef fyllstu ástæðu til að ætla, að það, ásamt þeim drætti, sem varð á að kalla þing saman, sé gert í þeim tilgangi að láta haustkosningarnar verða á sem allra óhentugustum tíma fyrir sveitafólkið.