24.08.1942
Neðri deild: 13. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

28. mál, kosningar til Alþingis

Sveinbjörn Högnason:

Ég get ekki látið hjá líða að minna hv. þm. í þessari d. á það, sem er algerlega dæmalaust hér á þinginu, að hér hefur hv. síðasti ræðumaður talað langt mál gegn brtt. þeim, er fluttar hafa verið við þetta mál, áður en flm. þeirra hefur verið gefinn kostur á að mæla fyrir þeim. Þetta er alveg óheyrt, þar eð hv. þm. talaði ekki heldur í umboði n. Ég get ekki annað en vakið athygli þm. á þessu, og tel ég, að hv. síðasti ræðumaður þurfi að kynna sér þingsiðina betur. Enda kom í ljós við umræður hans um brtt. okkar, að ekki hefði honum veitt af upplýsingum flm. þeirra um þær, áður en hann flutti mál sitt. Annars skal ég ekki hafa langar skýringar með þeim. (GÞ: Það er gott að heyra það). Ég veit, að hv. þm. þurfa ekki miklar upplýsingar um þetta mál, þótt hv. síðasta ræðumanni virðist ekki hafa veitt af þeim.

Ég vil benda á það, að við setningu kosningalaga almennt hljóta jafnan að ráða tvö höfuðsjónarmið. Hið fyrra er að gera allar hugsanlegar varúðarráðstafanir til tryggingar hlutleysi í meðferð kjörgagna, hið síðara að gera hverjum kjósanda sem hægast að njóta atkvæðisréttar síns og gera öllum það jafn hægt, eftir því sem unnt er. Við þetta tvennt á að miða öll ákvæði kosningalaga, og við þetta er brtt. á þskj. 112 miðaðar.

1. brtt. miðar að því að gera mönnum auðveldara að njóta atkvæðisréttar síns. Það er til mikils hægðarauka, jafnt fyrir þá kaupstaðabúa, sem dvelja fjarri heimilum sínum og kjósa úti á landi, og sveitafólk, sem þarf að heiman fyrir kjördag. Það er alkunnugt, að víða eru torfærir vegir, og virðist alveg sjálfsagt, að oddviti kjörstjórnar nú vel í sveit settur með tilliti til þess. Tökum t. d., að kjörstjóri sé skipaður á hafnar stað, þar sem umferð frá og til einhvers héraðs er mest, ef hreppstjóri býr langan veg þar í frá og er e. t. v. ekki einu sinni akvegur til hans. Eða t. d. Ölfusið. Alfaraleið er um Hveragerði, og nú skyldi hreppstjórinn búa syðst í hreppnum. Hver maður sér, hversu langur krókur gæti verið til hans. Eða ég skal taka dæmi úr mínu kjördæmi í Kirkjubæjarhreppi. Alfaraleið er um Kirkjubæ, en tveggja stunda ferð á hesti er til oddvita kjörstjórnar þar. — Þetta ákvæði er ekkert fremur sett vegna sveita en kaupstaða. Ég veit dæmi til þess, að menn úr Rvík hafa ekki getað notið kosningarréttar síns vegna þessara örðugleika. Þetta er nauðsynlegt að lagfæra. Síðasta dæmið, sem ég tek, er sjúkur maður, sem verið er t. d. að flytja úr sinni sveit til lækninga fyrir kjördag. Hann vill gjarnan njóta atkvæðisréttar síns, en getur það ekki, þar eð hann getur aðeins ferðazt eftir alfaraleiðum, en til oddvita kjörstjórnar er löng leið á hestum. Þetta er svo augljóst mál, að þeir einir geta verið á móti því, sem vilja misrétti. Vitanlega eru margir menn til eins færir og hreppstjórar að gegna þessu starfi. Enda kemur það oft fram við skipun kjörstjórnar, að til þess starfa eru valdir ýmsir aðrir valinkunnir menn. Enda er, sem betur fer, orðinn fjöldi manna hér á landi, sem fær er um að stjórna kosningu, ekki vandameiri aðferð en við það er höfð. Það, að ekki sé auðvelt að fá nóg af mönnum, sem færir séu til að stjórna kosningu, getur því ekki verið ástæðan til að leggjast á móti þessum ákvæðum, sem miða til þess að greiða fyrir því, að kjósendur geti neytt kosningarréttar síns. Ef slík ástæða er borin fram, þá getur það ekki verið gert af öðrum en þeim mönnum, sem vilja hreint og beint torvelda það fyrir mönnum í dreifbýlinu að neyta atkvæðisréttar síns við kosningar til Alþ.

2. og 3. brtt. á þskj. 112 eru aðeins til samræmingar við þessa breyt., sem við förum fram á um það, að settir verði sérstakir undirkjörstjórar þar, sem hreppsnefndir í hreppum óski þess, eins og tekið er fram í 1. brtt.

Þá kemur 4. brtt., sem er við 85. gr., um það, að aftan við þá gr. bætist, að vottorð, sem menn eiga að gefa um það, að menn séu á kjörskrá, sé gilt, sé það undirritað af hreppsnefnd í þeim hreppi, þar sem kjósandi er á kjörskrá, eða oddvita fyrir hennar hönd. Nú er það vitað af okkur, sem bezt þekkjum til og störfum í þessum n. upp um sveitir, að kjörskrárnar liggja hér um bil ævinlega hjá oddvitum, svo að segja alveg fram að kosningum. Og í mörgum tilfellum hefur það verið þannig, að þegar menn hafa viljað fá vottorð hjá hreppstjóra svo sem mánuði fyrir kosningu, eru kjörskrárnar ekki komnar til hans. Þar sem oddvitar nú bera ábyrgð á samningu kjörskránna, er þess vegna ekki ástæða til annars en að láta oddvita hafa heimild til að gefa slík vottorð. Þetta er ekki annað en hagræðisatriði, þegar hreppstjórar geta ekki gefið slík vottorð, þegar á þarf að halda. Venjulega eru oddvitar eins færir um störf eins og hreppstjórar, og er því ekki ástæða til að ætla, að þeir geti ekki eins annazt þetta starf eins og hreppstjórar. Störf oddvita eru oft vandameiri heldur en störf hreppstjóra.

5. brtt. er við 97. gr., að aftan við gr. bætist, að eigi megi atkvgr. standa lengur en til kl. 12 á miðnætti. Það má segja, að það sé óþarfi að setja þetta ákvæði í l., vegna þess að í l. sé ekki heimilaður nema einn kjördagur. hess vegna er vitað, að þegar undirkjörstjórnir hafa látið kosningar fara fram, eftir að komið er miðnætti að kvöldi kjördags, þá er það brot á kosningal., því að dagurinn er talinn frá miðnætti til miðnættis. Þegar slíkt ber við, þá er búið að brjóta l., og það á þeim stöðum, þar sem langhægast er að sækja kosningar. Og þegar til þess er litið, að þar sem menn hafa miklar vegalengdir yfir að sækja til kjörstaðar, þar mega þeir ekki greiða atkv. nema nokkrar klst. á dag, þá virðist harla einkennilegt, að það þurfi að ganga fram yfir þennan lögákveðna dag að kjósa þar, sem allt fólkið er statt á kjörstaðnum sjálfum og því heimilt að hafa hversu marga kjörstaði sem það vill. Það er áreiðanlega hægt í þéttbýlinu að hafa kjörstaðina nógu marga og nógu víða til þess að fólkið þar geti allt kosið einhverntíma á tímanum frá kl. 8 að morgni til kl. 12 að kvöldi kjördaginn, ef ekki stendur á kjörstjórunum með að afgreiða það, sem óþarfi er að sé. Þetta ákvæði í þessari brtt. er því ekki til annars en að slá fastri þeirri reglu, að ekki sé notaður til kosninga nema einn dagur — á þeim stöðum, þar sem einn dagur nægir fullkomlega. Þeir, sem vilja fá lengri tíma til kosninga í kaupstöðunum, vilja það vitanlega ekki til annars en þess að hafa tíma til þess að reyna að draga fólkið nauðugt á kjörstað, það fólk, sem ekki vill neyta kosningarréttar síns. En það er ekki ástæða til þess að gefa mönnum tækifæri til þess að draga það fólk til þess að kjósa, sem ekki vill kjósa.

Þá er 6. brtt. á þskj. 112, við 104 gr., um það, að við gr. bætist ný málsgr., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: Eftir að kjörstjórn hefur gengið frá kjörgögnum samkvæmt fyrirmælum þessarar greinar, mega hin innsigluðu kjörgögn og innsigli kjörstjórnar eigi vera í vörzlu sama manns.“ Þetta er ekki sett til annars en að tryggja, að ekki leiðist neinn í freistni til að fremja neina fölsun á kosningum. Það hefur komið fyrir hér á landi, að kosningar hafa verið falsaðar, og er sjálfsagt að byggja fyrir það, eins og hægt er. Þetta er annað markmið kosningal. Ég sé ekki betur en þetta verki í þá átt að torvelda það, ef einhver, sem kjörgögn hefur undir hendi, væri þess sinnis, að hann vildi falsa atkv., og a. m. k. ef reynt væri að falsa atkv., þá yrðu þó að vera tveir um að framkvæma það. Mér er óskiljanlegt, að nokkur hv. þm. geti verið á móti þeim breyt., sem miða að því að gera kosninguna sem öruggasta. Það er áreiðanlegt, að þetta ákvæði „étur ekki mat“, eins og sagt er. Það getur ekki skemmt. Alltaf mun það þó heldur torvelda, að fölsunum sé hægt að beita við kosningar. Það er því óhugsandi, að nokkur hv. þm. geti verið á móti því að setja slíkt ákvæði inn í lögin.

Þá er 7. brtt. við 107. gr., um það, að aftan við gr. bætist, með leyfi forseta: „Ætíð skal talning fram fara svo fljótt sem verða má að dómi yfirkjörstjórnar.“ Við vitum frá síðustu kosningum, að þá var ekki látið telja atkv., strax eftir að búið var að kjósa. Það er ein af öryggisráðstöfunum að láta ekki geyma kjörkassana víða að ástæðulausu, áður en talin eru atkv. Í þetta skipti hefði það verið hagkvæmdaratriði að telja eins fljótt og unnt var, til þess að kosningarnar í haust gætu farið sem fyrst fram, áður en styttast mjög dagar. En í því kjördæmi, t. d. þar sem ég var í kjöri, var ákveðið, að ekki skyldi telja atkv. fyrr en á 3. degi, eftir að kosið var. En það var leikur að telja þar daginn eftir. Á öllum kjörstöðunum voru bifreiðar til taks strax til þess að fara með kjörkassana og því hægt að telja strax daginn eftir. Og bifreiðar eru hafðar í svo að segja hverju einasta kjördæmi til að flytja fólkið á kjörstað. Hvers vegna á þá ekki að láta bifreiðarnar, sem eru þegar til taks á kjörstöðunum, fara með kjörkassana strax eftir kosningar til yfirkjörstjórnar? Ef menn hafa á móti þessari brtt., þá getur það ekki verið af öðrum ástæðum en þeirri, að þeir vilji láta leika sér eitthvað að kössunum, áður en þeir fara til talningarstaðar. Þess vegna er það undarlegur hugsunarháttur að setja ákvæði í l., sem kemur í veg fyrir, að hægt sé að telja atkv., svo fljótt sem unnt er. Það kynni að vera, að einhverjum þætti mega telja, þegar komið væri fram á þingið (BÁ: eða þegar búið væri að skipta í deildir.), já, eða þegar búið væri að skipta í deildir, ef það væri hagkvæmt, eins og sumir virðast þurfa á að halda nú.

Það kom í ljós í ræðu hv. 6. landsk. (GÞ), að hann skildi ekki brtt., áður en hann fór að tala um þær, því að það er ekki ástæða til þess fyrir nokkurn mann að mæla á móti þessari brtt., ef sá hinn sami skilur hana, nema hann vilji láta leika sér að kjörkössunum, áður en þeir eru opnaðir.

Þá kem ég að lokum að 8. brtt., sem er um ákvæði til bráðabirgða. Það ákvæði er í brtt. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta.

„Í kosningum þeim, sem fram fara næst eftir gildistöku þessara laga, skulu vera tveir kjördagar, þó ekki í þeim kjördeildum, sem eru innan takmarka kaupstaðar eða kauptúns. Þegar kosningu er lokið hinn fyrri kjördag, skal í öllu svo að farið sem fyrir er mælt í 104. gr., að því viðbættu, að kjörskráin og þau eftirrit hennar, sem kjörstjórn hefur haft til afnota, skulu lögð með öðrum kjörgögnum í poka þann, sem innsiglaður er. Eftir að kjörfundur en settur hinn síðari kjördag, opnar kjörstjórn hinn innsiglaða poka og umslög, sem í honum eru, í viðurvist frambjóðenda eða umboðsmanna þeirra. Sé frambjóðandi eigi mættur eða umboðsmaður hans, kveður hún til valinkunnan mann að vera umboðsmaður frambjóðanda. Sé eigi unnt að fullnægja þessu ákvæði, má þó rjúfa innsigli, opna umslögin og hefja kosningu, þegar klukkustund er liðin frá setningu kjörfundar: Um hinn síðari kjördag gilda ákvæði XII. kafla laganna eftir því, sem við á.“

Nú er það sjáanlegt, að kosningar fara að líkindum ekki fram fyrr en síðari hluta októbermánaðar í haust. Gæti það því orðið mikið hagræði fyrir kjósendur í dreifbýlinu að fá þessa brtt. samþ., sem í bráðabirgðaákvæðinu felst, um tvo kjördaga. En það hefur vitanlega enga þýðingu fyrir kaupstaðina, vegna þess að þó að illviðri séu, eiga allir þar stutt að sækja til kosninga. Eins geta allir í kaupstöðunum af sömu ástæðu átt mjög auðvelt að sækja kosningar, þó að dimmt sé orðið að kvöldi. Enda hafa bæjarstjórnarkosningar farið fram að vetrinum. Hitt er vitað, að þegar kemur fram undir veturnætur, er erfitt fyrir þá, sem í dreifbýlinu búa, að sækja kjörfundi, vegna þess að dagurinn er þá orðinn svo stuttur, hvað þá þar, sem ekki er hægt að nota bifreiðar. Og margir kjósendur á þessum stöðum hafa um langar vegalengdir að sækja. Og einnig hagar þar svo til á ýmsum stöðum, að ekki geta allir, sem kosningarétt hafa á heimilunum, farið til kosninga einn og sama daginn, þannig að fyrirsjáanlegt er að jafnvel þó að gott veður væri kjördaginn, þá er svo um marga hreppa á landinu, að það er óhugsanlegt, að allir kjósendur þar geti sótt kosningar um veturnætur á einum degi — hvað þá, ef illviðri er að auki, þá er auðséð, hvernig þeim er gert fyrir í þjóðfélaginu, sem hafa erfiðasta aðstöðu allra til þess að komast frá bæjum sínum til kosninga. Það væri því harla einkennilegt að láta þá, sem í kaupstöðunum búa, hafa tækifæri til að hafa í raun og veru tvo kjördaga, sem hægt er með vissri aðferð við kjörsókn með því að láta kosningar ganga langt fram á nótt, jafnvel fram á næsta dag, ef svo verkast, en láta fólkið, sem þarf að verja öllum deginum til þess að mæta á kjörstað, ekki hafa nema 6–7 klukkustundir dagsins, aðeins einn dag, til þess að fara og mæta á kjörstað. Þetta, held ég, að muni vera öllum hv. þm. augljóst. Og ef hv. þm. hafi í huga annað meginatriði kosningal., um að gera öllum sem auðveldast að neyta kosningarréttar síns til Alþ., þá hlýtur hv. þm. að vera ljóst, að ef þeir eru á móti þessari brtt., þá gera þeir það á móti hagsmunum þess fólks, — með tilliti til kjörsóknarinnar, — sem í dreifbýlinu býr.

Hins vegar höfum við, sem berum fram brtt. þessa, bætt við öðru ákvæði, sem er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta :

„Ef öll kjörstjórnin er sammála og allir frambjóðendur eða umboðsmenn þeirra, sem mættir eru, samþykkja, má kjörstjórn, þegar kosningu er lokið hinn fyrri kjördag, ákveða, að eigi skuli vera fleiri kjördagar í kjördeildinni, enda sé kjörbókin undirrituð af frambjóðendum og umboðsmönnum, sem samþykkt hafa. Hafi 80% eða fleiri f kjósendum í kjördeildinni kosið eða fengið vottorð samkv. 85. gr., nægir einróma samþykki kjörstjórnar til slíkrar ákvörðunar.

Hinn fyrri kjördag skal setja kjörfund kl. 10 árdegis og hinn síðari kjördag kl. 12 á hádegi.“ Með þessu móti er alls staðar þar, sem þannig vill til, að hægt er að kjósa á einum degi, hægt að ákveða, að kosningum skuli lokið eftir einn dag. Og kosningin stendur með þessu ákvæði aðeins tvo daga á þeim stöðum, þar sem, ógerningur er að láta 80% kjósenda kjósa á einum kjördegi. Það er vitað, að það verða látnar fara fram kosningar aðeins einn dag í þeim kjördeilum, þar sem hægt er, því að það eru miklir erfiðleikar, kostnaður og fyrirhöfn að hafa tvo kjördaga, að láta t. d. bifreiðar vera í gangi vegna kosninganna í tvo daga. — Hér er því ekki farið fram á annað en það að hafa tvo kjördaga á þeim stöðum, þar sem óframkvæmanlegt er að kjósa á einum degi. Og að mæla á móti slíku, en óska þess, að kosningar geti staaið í tvo daga þar, sem vitað er, að hægt er að ljúka kosningu á einum degi, það sýnir ekki nema ranglætishneigð. Og slíks er tæplega von nema frá þeim mönnum, sem hafa látið slíkt til sín heyra áður en þeir skildu, hvað í brtt. þessum felst.

Þá er í lok þessarar brtt. ákvæði um það, hvenær kosningar skuli byrja, hinn fyrri kjördag, kl. 10 árdegis og hinn síðari kjördag kl. 12 á hádegi.

Hv. 6. landsk. sagði, að það væri ekkert torveldara að kjósa um veturnætur heldur en á vordegi. Þeir halda því fram, hann og annar hv. flokksbróðir hans, að það sé eins hægt að kjósa um veturnætur eins og í júní. Það er eins og þeir viti ekki mismuninn á því að kjósa, þegar bjart er allan sólarhringinn, og hinu að kjósa, þegar dagar eru orðnir stuttir. Það gerir kannske ekkert til í þessu tilliti, þó að dagur sé stuttur þar, sem ljósker eru meðfram öllum götum. En þeir, sem eiga yfir fjöll að sækja til kjörstaðar, þeir þekkja muninn á sumri og vori annars vegar til kjörsóknar og hins vegar vetrarmyrkrinu, sem grúfir yfir um veturnætur.

Ég held, að það sé svo ekki ástæða til að rekja nánar þessar brtt., sem við flytjum hér á þskj. 112. Ég held, að ég hafi gert það, sem í þeim felst, eins augljóst fyrir hv. þm. og unnt er. Það felst ekkert í þeim annað en það, sem á að tryggja þessi tvö meginsjónarmið kosningal., að tryggja, að vilji kjósenda komi skýrt í ljós, og hins vegar að auðvelda sem mest fyrir mönnum að neyta kosningarréttar síns.

Um brtt. á þskj. 110 hef ég það að segja, að ég er henni fylgjandi. Hún miðar að því að tryggja öryggi kjósendanna.