24.08.1942
Neðri deild: 13. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

28. mál, kosningar til Alþingis

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti! Brtt. á þskj. 110, sem ég flyt, ásamt hv. 11. landsk. (GTh), miðar að því, að gengið verði nokkru tryggilegar frá utankjörfundaratkv., heldur en áður hefur verið. Eins og kunnugt er, er sá háttur á hafður og leyfður í kosningal., að utankjörfundaratkvæði er heimilt að fela svo að segja hverjum, sem vera skal, til fyrirgreiðslu og flutnings. Það lætur að líkum, að þegar atkvæði fara þannig manna á milli, þá sé nokkru meiri varúðar þörf heldur en ella. Sú breyt., sem farið er fram á í brtt. okkar, er það, að til viðbótar því, sem áður hefur verið krafizt í því efni, skuli innsigla umslagið með kjörseðlinum, til þess þannig að koma í veg fyrir, að umslagið sé brotið upp og rannsakað, með hverjum hætti kjósandinn hefur greitt atkv., þ. e. a. s., á hvaða frambjóðanda eða lista atkv. hans hefur fallið. En eins og nú er frá þessu gengið í kosningal., er hægt að opna þessi umslög, af þeirri gerð, sem þau eru, og enn fremur er hægt með sérstökum aðferðum að opna hina límbornu rönd kjörseðilsins sjálfs. Þegar þetta er vitað, verður ekki við það unað, að svo ófullnægjandi sé gengið frá atkvæðaseðlinum eins og raun er á. Og það, sem er um að ræða, er, að hæstv. Alþ. átti sig á þeirri staðreynd og geri breyt. á þessum ákvæðum í samræmi við það. Ég hygg, að hv. þd. geti ekki haft ástæðu til að leggjast á móti þessari brtt. Eins og hv. þm. V.-Sk. (SvbH) benti á, miðar hún til öryggis.

Hv. frsm., 6. landsk. (GÞ), benti á það, að hv. stjskrn. hefði ekki treyst sér til þess að taka upp þessa brtt., og benti m. a. á það, að hætta kynni að vera á því, að lakkið brotnaði, og það væri erfitt um vik fyrir undirkjörstjórnir að átta sig á því, hvort spjöllin, sem orðið hefðu á lakkinu, væru af völdum þeirrar löngu leiðar, sem bréfin hefðu farið, eða af því, að reynt hefði verið að brjóta þau upp. Ég sé ekki, að það sé svo mikil hætta á þessu sem hv. 6. landsk. vill vera láta. Ég álít, að reynslan muni hafa sýnt, að bréf, sem innsigluð hafa verið á slíkan hátt, sem hér er um að ræða, hafi komizt gegn um margar hendur, án þess að brotnað hafi innsiglið á þeim. Og ég álít, að þess vegna sé ekki ástæða til að leggjast á móti þessari brtt.

Ég vildi svo aðeins að lokum benda á það ósamræmi, sem er milli þeirra ströngu reglna um atkvgr. á kjörfundi, varðandi atkvæðaseðla, og hins vegar þeirra reglna, sem gilda um utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Og þegar sá mismunur og það ósamræmi er athugað, verður auðsæ nauðsynin á því, að þessi breyt. verði gerð.

Ég tel svo ekki nauðsyn á því að fylgja þessari brtt. úr hlaði með fleiri orðum, en vildi aðeins drepa á nokkrar brtt. aðrar, sem hér eru fram komnar, og þá fyrst á brtt. stjskrn., og af þeim fyrst á þá breyt., sem hún vill gera á 27. gr. l. Þar er til tekið í b-lið 2. gr., að niðurlag 2. málsgr. skuli orðast svo: „og eigi færri en l8 og eigi fleiri en 36 í tvímenningskjördæmum“, þ. e. a. s., þessi brtt. miðar að því að fjölga meðmælendum úr 12 og 24 og í 18 og 36. Ég tel þessa breyt. ekki aðeins óþarfa, heldur fara dálítið í bága við þann anda, sem upphaflega átti að vera í kosningal., það að takmarka meðmælendafjöldann við lága tölu, sem miðaði fyrst og fremst að því að koma í veg fyrir, að frambjóðendur geti með smölun undirskrifta meðmælenda bundið menn með sérstökum hætti og gengið þannig nokkuð á snið við það, að kosningarnar séu leynilegar. Ég sé ekki ástæðu til þess að gera þessa breyt., þó að breytt sé um kosningaaðferð í tvímenningskjördæmunum. Ég sé ekki, að sú breyt. á kosningaaðferð réttlæti það á nokkurn hátt að breyta til með meðmælendafjöldann. Réttmætt er að taka upp hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmunum, en ekki að fjölga meðmælendum þar. Hættan er nákvæmlega sú sama í tvímenningskjördæmunum eins og í einmenningskjördæmunum á því, að slík smölun mundi verka sem nokkurs konar binding kjósenda, og þar með væri gengið nokkuð á snið við þá meginreglu, að kosningar til Alþ. skuli vera leynilegar. Ég er mótfallinn öllum breyt. í þá átt að fjölga meðmælendum frá því, sem nú er, og mig furðar á því, að slík till. skuli koma fram nú, þegar talað er meira en nokkru sinni um hinn helga rétt þjóðarinnar og einstaklingsins til lýðræðisins, — að það skuli koma till., sem gengur í þá átt að ganga á snið við þennan rétt og binda menn fyrir fram með undirskriftasmölun, eins og ætlazt er til með till. hv. þm. N.-M. Ég læt svo útrætt um þetta atriði, því að það voru önnur atriði, sem ég ætlaði að víkja að.

Ég ætla þá að byrja á brtt. á þskj. 112. Um fyrstu 4 tölul. á þessari brtt. er ekki mikið að segja. Þessar breyt. eru fremur lítils virði, en virðast öllu fremur óþarfar, og hygg ég ekki þörf á að ræða um þær frekar en gert hefur verið, en um 6. tölulið vildi ég einungis segja það, að ég er fylgjandi honum, þar sem gert er ráð fyrir að meira öryggis sé gætt í geymslu kjörgagna en áður hefur verið, þ. e. a. s., að innsigli og kjörgögn séu ekki í vörzlu sama manns. Sama er að segja um 7. tölul. Hann er meinlaus og kann að verða til þess, ef hann verður samþ., að ýta undir, eins og hv. þm. V.-Sk. drap á, að formenn kjörstjórna hraði talningu, svo sem verða má og eftir föngum.

Þá kem ég að aðalatriði þessarar till., að 2 kjördagar skuli verða við kosningar þær, sem fyrst fara fram eftir þessum l. Ég skal játa, að ég er alveg eindregið á þeirri skoðun, að það beri að gera allt til þess, að kjósendum um sveitir og í þorpum landsins sé gerð sem auðveldust kjörsóknin, og er að því leyti algerlega sammála um það bráðabirgðaákvæði, sem þessi brtt. felur í sér, en án þess að taka beina afstöðu á móti þessu ákvæði um 2 kjördaga vildi ég benda hv. flm. á það, að því ákvæði, að það skuli vera 2 kjördagar, fylgir nokkur hætta, því að í því frv. til kosningal., sem gildir og hefur gilt undanfarið, þar er svo að orði komizt, með leyfi forseta: „Nú ferst kosning fyrir í einhverri kjördeild á hinum ákveðna degi sökum óveðurs eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum, og kveður þá undirkjörstjórn innan viku til kjörfundar að nýju.“ Þarna er kjörstjórn heimilað, ef kosning ferst fyrir, að kveðja til kjörfundar að nýju innan viku, ef veður batnar, svo að unnt sé að kjósa. Það er auðsætt, að það er ætlazt til, að kjörstjórn meti það, hvort rétt er að byrja kosningu eða fresta henni. Það er rétt að athuga í þessu sambandi, að ef kosning er ekki hafin, er heimilt að fresta henni, en ef hún er hafin, er óheimilt að fresta henni, þótt veður stórversni. Kosningu verður að ljúka þann eina dag. Ef nú er horfið að því, að um 2 daga sé að ræða, sem menn megi kjósa, þá er vitað mál, að kosning mundi fara fram seinni daginn. Þó mundu þeir, sem næstir eru kjörstað, kjósa fyrri daginn. Það er oft, að tveir óveðursdagar koma í röð, og er það tíðara heldur en að það sé bara einn. Þá væri kosningu þar með lokið, því að eftir að kosning er hafin, er algerlega óheimilt að fresta henni. Þá væri verr farið en heima setið, því að þar með væri komið í veg fyrir, að kosning mætti bíða næsta góðveðursdags. Ég taldi rétt að benda hv. flm. á þetta, því að ég hygg, að það sé réttur skilningur hjá mér, að kosningu sé ekki heimilt að fresta, enda þótt ekki nema örlítill hluti kjósenda kæmist á kjörstað, svo að þetta er varhugavert.

Svo er það annað atriði í þessu, að fyrirhöfn kjörstjórna er stórkostlega aukin, svo að vafasamt er, að kjörstjórnir mundu una við það, og ég hygg, að þar sem svo háttar, að hreppum er skipt í 4 kjördeildir, þá sé það nokkuð mikill hluti manna í hreppnum, sem bundnir verða yfir þessu, því að ef heimildin er sett inn, stendur kosningin í 2 daga, hvernig sem veður verður. Því að þegar svo er komið, að það þarf einróma álit kjörstjórnar, til þess að kosningu sé lokið fyrr í daginn, þá er líklegt, að kapp það, sem er í kosningunum, leiði til þess, að seinni dagurinn verði notaður til þess að „gjörsmala“, ef svo mætti að orði komast. Ég held þess vegna, að hér sé örðugt um vík, og þó að það, sem fyrir fhn. vakir, sé að gera mönnum sem hægast að sækja kjörfund, þá er hér um vandkvæði að ræða. Og ég hygg, að þessi tilgangur náist fullt eins vel með því ákvæði, sem er í lögunum nú, ef ekki betur.

Það, sem hér hefur verið haldið fram, að Sjálfstfl. vilji hamla gegn því, að sem flestir menn í dreifbýli landsins geti komið á kjörstað og að sú gagnrýni, sem hér hefur verið tekin upp af mér gegn þessum brtt., mótist af því, er hin mesta fjarstæða, og harma ég það, að hv. flm. þessarar till. skyldi vera með svo ljótar getsakir, að það geti verið keppikefli ákveðins flokks, að sem fæst fólk komist á kjörstað og að koma í veg fyrir, að sem flestir kjósendur fái lagt sitt lóð á vogarskálina. Ég veit ekki, hvað hv. þm. V.-Sk. meinar með því að leyfa sér þetta, ekki sízt, þegar það er athugað, að fyrir nokkrum árum var kjördagurinn nokkru síðar en kjördagurinn verður í haust, fyrsta vetrardag. Ég veit ekki annað en að til ársins 1927 hafi þessi kjördagur verið notaður og þótt gefast sæmilega nema 1926, þegar óveður hamlaði kosningu og fjöldi manna varð að sitja heima í sveitum. Ég vænti, að hvernig sem afstaðan verður til þessarar brtt., þá eigi ekki eftir að heyrast, að svo freklega óviðurkvæmilegum og óverðskulduðum ummælum sé kastað aftur fram hér í þessari virðulegu deild.