26.08.1942
Neðri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

28. mál, kosningar til Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég á brtt. á þskj. 118, sem ég vildi fara um nokkrum orðum. Fyrri brtt. er um að fjölga meðmælendum með frambjóðendum frá því, sem nú er, og hafa ákveðna tölu meðmælenda í þessum tilvonandi listakosningakjördæmum, en það er ekki ákveðið í frv. eins og það er nú. Ég er þar á öndverðum meið við ýmsa hv. þm. Reynslan hefur sýnt, að stundum hafa boðið sig fram menn, sem hafa haft svo lítið fylgi, að segja má, að framboð þeirra hafi engan rétt á sér, menn, sem í heilli sýslu hafa ekki getað fengið nema 12 meðmælendur, stundum gervimeðmælendur, sem er ekki heimilt samkv. kosningal., því að það er tekið fram, að þeir, sem mæla með framboði einhvers manns, styðji kosningu hans, en það hafa þeir ekki alltaf gert, því að það hefur komið fyrir, að menn hafa ekki fengið nema 9, jafnvel ekki nema 2 atkv., þó að meðmælendur hafi verið 12. Helzta leiðin til að koma í veg fyrir þetta er að mæla svo fyrir, að dálítill stuðningur sé á bak við frambjóðendur. Mér finnst það varla mega vera minna en 25–50 menn. Það er ekkert óskaplegt fylgi, sem frambjóðandi hefur, ef hann getur ekki fengið þá. Mér finnst það vera dálítið „princip“-spursmál, hvort á að leyfa hverjum, sem er, að bjóða sig fram til að tefja fundarhöld fyrir hinum og flækja mál á fundum. Ég vil reyna að koma í veg fyrir þetta með því að hafa ákveðna tölu meðmælenda. Í Rvík er þetta bundið við 100 til þess að útiloka, að þeir séu að bjóða sig þar fram, sem ekkert fylgi hafa.

Þá er brtt. við 57. gr., og er hún smávægileg. Þar er gert ráð fyrir, að kjörstjórn dreifi seðlum til undirkjörstjórna, og hver kjördeild skuli fá 10% af seðlum fram yfir tölu kjósenda, svo að tryggt sé, að nóg sé af seðlum. Nú veit ég, að sums staðar hagar þannig til, t. d. er það í einum víðlendum hreppi, að utan af jaðri hreppsins er um 3 tíma reið á kjörstað, en skammt á bílveg og ekki nema 10 mín. akstur yfir á kjörstað í öðrum hreppi. Það eru 6 bændur, eða um 40 kjósendur, sem þarna eiga hlut að máli og eiga þannig miklum mun auðveldara með að sækja kjörfund í aðra sveit. Ef þar væru nú til nógir kjörseðlar, mundi engum manni detta í hug að ferðast í 3 tíma á kjörstað sinnar sveitar, heldur fara með bíl á næsta kjörstað, sem er í annarri sveit, með vottorð um afsal kosningarréttar heima hjá sér, en þá er ekki nóg af seðlum á þeim kjörstað eftir núgildandi l. Ég legg því til, að kjörstjórnir í sveitum hafi leyfi til að miðla seðlum milli kjörstaða, þar sem svona stendur á. Ég legg dálítið upp úr þessari till., en þó veit ég, að hægt er að ráða nokkra bót á þessu með því að búa til sérstakar kjördeildir fyrir þá, sem langt eiga, en brtt., ef samþ. verður, veitir möguleika til að gera hvort, sem vera skal.

Þá vil ég benda á einstök atriði í öðrum till.

Brtt. 110 er ég samþykkur að eðli til, en hún hefur þann ágalla, sem er víðar í kosningal., sem sé, að þegar gengið hefur verið frá fylgibréfinu, skal kjósandi senda það með kjörseðlinum áföstum til hreppstjórans í þeim hreppi eða bæjarfógetans í þeim kaupstað, þar sem kjósandinn telur sig standa á kjörskrá. Þetta er algeng regla nú, en afleiðingin er sú, að það tapast ekki svo fá atkv. Það eru margir hreppar, sem búið er að skipta í kjördeildir, og þegar atkv. koma seint, koma seðlarnir svo seint til hreppstjóra, að þeir geta ekki komið þeim frá sér. T. d. fór svo núna, að það varð að kaupa aukaferðir fyrir kjörseðla, sem merktir voru til hreppstjóra, en ekki kjördeildar. Ég er því í vafa um, hvort hér á ekki að vera oddviti undirkjörstjórnar, en ekki hreppstjóri. Seðlarnir eiga ekkert erindi til hreppstjóra, þegar um allt aðra kjördeild er að ræða en hann er oddviti í. Þetta atriði held ég, að sé vert að athuga.

Þá hefur verið sagt hér, að fjórða brtt. á þskj. 112 væri óþörf, að í stað hreppstjóra geti oddviti undirritað vottorð um, að nafn kjósanda standi á kjörskrá í annarri kjördeild innan sama kjördæmis. Ég vil upplýsa, að síðan ég fór að koma nærri alþingiskosningum, hefur allur fjöldinn af kjörskrám alls ekki komið til hreppstjóra, fyrr en rétt fyrir kosningu, og nú síðast í þremur tilfellum vissi hreppstjóri ekki, hvort kjósandi væri á kjörskrá eða ekki, og ég varð að fá vottorð oddvita og fara með það til hreppstjóra, til þess að hann gæti gefið vottorð. Það er tvímælalaust í flestum tilfellum oddviti, sem á að gefa þetta vottorð. Hann hefur gögnin í höndunum. Ég get upplýst, að í Norður-Múlasýslu voru við endanlega atkvgr. ekki komnar tvær kjörskrár til yfirkjörstjórnar.

Þá er eitt atriði enn á þskj. 112, sem sé ákvæði til bráðabirgða. Ég legg mikið upp úr því, af því að mér er ljóst, að þegar komið er fram á vetur og dag farið að stytta, er enginn tími til þess í stórum hreppum að kjósa á einum degi. Hugsum okkur t. d. Vopnafjörð og Svarfaðardal. Þar er enginn tími til að ljúka kosningu á einum degi. Það er stundum upp undir 5 klukkustunda ferð á kjörstað. Menn veigra sér við að taka hesta í langferðir um það leyti árs, og sums staðar eru ekki til hestar handa öllu fólkinu, og verður því að tvínota sömu hesta, og endist dagurinn þá ekki. Þess vegna eru margir útilokaðir frá að kjósa, með því að kjördagurinn sé bara einn. En í kaupstöðum vilja Sjálfstæðismenn hafa þá tvo og láta kjósa alla nóttina. Það er greinilegasta dæmið um sérréttindi kaupstaðanna, sem ég hef heyrt: En í sveitunum, þar sem þarf að selflytja, á ekki að vera nema einn stuttur skammdegisdagur. Ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, að sá illvilji sé í raun og veru til staðar í garð sveitafólksins, sem í þessu birtist.

Þá sagðist hv. frsm. vera á móti því að heimila oddvita yfirkjörstjórnar að setja kjörstjóra þar, sem hreppstjóri væri illa í sveit settur. Það eru ekki mörg ár síðan hreppstjóri í Svarfaðardal bjó frammi á Melum. Það er stutt síðan hann dó, og þá tók við bóndinn á Tjörn. Hver maður, sem fer um Svarfaðardal, fer um Dalvík, og hvaða vit er í því að láta menn af Dalvík þurfa að fara fram á Mela? Sama máli gegnir víða annars staðar. Úr Hornafirði fer enginn nema um kauptúnið. Það er því tvímælalaust sjálfsagt að skapa mönnum skilyrði til að kjósa hjá öðrum en hreppstjóra. Ég vona, að menn sjái þetta, og enda þótt svo væri ekki nema á fáum stöðum, þá á að bæta úr á þeim stöðum, enda fyrirhafnarlítið.