26.08.1942
Neðri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

28. mál, kosningar til Alþingis

Gísli Guðmundsson:

Ég vildi leyfa mér að fara örfáum orðum um brtt. á þskj. 109 og 112. En það eru brtt. hv. stjskrn. og brtt., sem ég flyt ásamt 4 öðrum hv. þm. á þskj. 112. Ég vildi aðeins segja það um brtt, á þskj. 109, frá stjskrn., að ég leit svo á sem einn af nm., að um það væri samkomulag að bera þær brtt. fram af hálfu n. og þær hefðu verið fram settar með það fyrir augum, að samkomulag væri um, að n. stæði að þessum brtt. Nú sé ég, að einn nm., hv. 4. landsk. (ÁkJ), hefur borið fram brtt. við eina af þessum brtt., víðvíkjandi meðmælendafjöldanum. Og virðist mér þetta vera á nokkuð annan veg heldur en ég gekk út frá í gær um samkomulag nm. um brtt. á þskj. 109. Og ég verð að segja það, að ef því er haldið til streitu af þessum hv. nm., að þessi brtt. komi til atkv., tel ég mig ekki bundinn við þessa brtt. á þskj. 109. Annars vildi ég beina því til þessa hv. þm., hvort hann sæi sér ekki fært að taka aftur brtt. sína, vegna þess að ég sé ekki, að það sé svo mikið undir því komið fyrir hann eða hans flokk, hvort meðmælendur í tvímenningskjördæmum eru 18 eða í 2. Það hefur verið fært fram sem rök fyrir því að hafa fáa meðmælendur, — þegar sú regla var tekin fyrir nokkrum árum, — að ef tala meðmælenda væri ótakmörkuð, væri með því skapaður möguleiki fyrir frambjóðendur að safna meðmælendum sér til fylgis og reka þannig „agitation“. En hv. 4. landsk. (ÁkJ) færir nokkuð önnur rök fyrir sínu máli, nefnilega þau, að með þessu móti, að fjölga meðmælendum, verði fylgismenn einstakra flokka og þar með fylgismenn hans flokks að gefa upp nöfn sín og þar með sé kosning þess flokks ekki leynileg lengur. Þetta er annað sjónarmið í málinu, og annað sjónarmið en fram hefur komið, og ber á það að líta. En ég sé ekki, að það sé mikill munur fyrir flokka í þessu tilliti, hvort 12 eða 18 menn flokksins þurfa að opinbera nöfn sín. Þar að auki er sá möguleiki fyrir hendi fyrir þessa menn, eins og hv. 1. þm. N.-M. (PZ) benti á, að hafa ekki sérstakan frambjóðanda í kjördæminu, heldur vísa fylgismönnum sínum í því kjördæmi að kjósa landslista flokksins.

Þá vildi ég fara nokkrum orðum um þær brtt., sem ég er einn af flm. að á þskj. 112. Hefur reyndar verið gerð ýtarleg grein fyrir þeim. En það er aðeins í tilefni af ummælum, sem fallið hafa, sem ég vildi bæta þar nokkrum orðum við. Í þessum brtt. eru í raun og veru þrjú atriði, sem ég legg aðaláherzlu á. Og þar er einna veigamest fyrsta atriðið, sem er um það, að það sé nokkurn veginn tryggt, að sá maður í hverjum hreppi, sem atkv. eru greidd hjá utan kjörstaðar, sé á þeim stað, sem heppilegastur er fyrir hreppsbúa og aðra, sem atkv. greiða í þessum hreppi utan kjörfundar. Því að það eru margir fleiri en íbúar hreppanna sjálfir, sem þar þurfa á því að halda að greiða atkv. utan kjörfundar, og ég hygg, að þeir séu fleiri utanhreppsmennirnir í þessum tilfellum, og gæti ég trúað, að flestir þeirra séu kjósendur á kjörskrá í Reykjavík. Ég er nokkuð undrandi yfir því, að menn vilja ekki ganga inn á svo sanngjarna breyt. og hér er um að ræða og menn skuli tala um, að það sé öruggara að greiða atkv. hjá hreppstjóra heldur en öðrum í þessum tilfellum. Það er eins og menn loki augunum fyrir því, að hreppstjórar eru margir pólitískir menn og sumir þeirra mjög harðir fylgismenn flokka. Það eru þannig engar líkur til þess, af þessum mönnum, sem skipaðir yrðu að tilhlutun sýslumanns, væri á nokkurn hátt verr treystandi heldur en hreppstjórum til þess að sjá um utankjörfundarkosningar. Ég geri ráð fyrir, að hreppstjórum yfirleitt, og ég vona undantekningarlaust, sé algerlega treystandi í þessum efnum, og ég geri ráð fyrir, að þessum nýju kjörstjórum yrði það líka.

Annað atriðið, sem ég vildi minnast á í brtt., hefur verið rætt og m. a. af frsm. n. Mér virtist koma fram hjá honum nokkur misskilningur uni það, hverjir eigi að gefa vottorð um það, hverjir séu á kjörskrá. Hv. frsm. virtist líta svo á, að kjörskráin væri aðallega í vörzlum formanns undirkjör stjórnar, og ég býst við, að fleiri muni líta svo á. En við nánari athugun kosningal. munu menn komast að raun um, að svo er ekki. Það er engin vissa fyrir því, að kjörskráin liggi í höndum oddvita undirkjörstjórnar í hverju kjördæmi nema aðeins kjördaginn. En það eru þessir menn, sem ætlað er að gefa vottorð um það, hverjir séu á kjörskrá. Ég vil í því sambandi minna á ákvæði í 19., 20. og 21 gr. núgildandi kosningal., þar sem talað er um samningu kjörskrár og hversu þær skuli fram lagðar. Og ef menn athuga þær gr., geta menn gert sér grein fyrir, hver það er, sem hefur þessi plögg undir höndum. Kjörskráin er samin af hreppsnefnd, og þegar alþingiskosningar eiga að fara fram, á að leggja kjörskrána fram tveimur mánuðum fyrir kjördag. Þá er það gert á einhverjum stað, þar sem hreppsnefnd álítur heppilegast. Það er ekki sagt, að það sé hjá hreppstjóra, það er ekki nein vissa fyrir því, að hún liggi á þessum tíma í höndum oddvita undirkjörstjórnar. Svo gengur kjörskráin til hreppsnefndar aftur, þegar 3 vikur eru til kjördags. Þá kemur hreppsnefndin saman til þess að úrskurða, hvernig eigi að ganga frá kjörskránni. Og eftir það getur hún verið í vörzlum hreppsnefndaroddvita alveg fram undir kjördag, en hann þarf að senda oddvita undirkjörstjórnar. hana svo snemma, að hann geti haft hana á kjördaginn. En það er ekki til tekið, að hreppsnefndaroddvitinn eigi að senda kjörskrána löngu fyrir þann dag. Það er því oddviti hreppsnefndar, sem hefur bezt skilyrði til þess að gefa vottorð um það, hverjir á henni standa. Það er að vísu svo, að sá, sem á að gefa vottorðið, þarf ekki að hafa kjörskrána undir hendi, og það er hreppsnefndaroddviti, sem hefur eftirrit af kjörskránni allan tímann. Það liggur því í augum uppi, að það er oddviti hreppsnefndar, sem ætti að réttu lagi að gefa þetta vottorð. En vegna þess að hreppum er skipt í kjördeildir og að rétt fyrir kosningar getur verið þægilegra að gefa vottorð frá kjörstjórn, þarf hún að geta gefið þessi vottorð. En við leggjum til, að vottorð sé einnig gilt, sé það undirritað af hreppsnefnd í þeim hreppi, þar sem kjósandi er á kjörskrá, eða oddvita fyrir hennar hönd. Og sérstaklega væri það hægara fyrir kjósendur nokkru fyrir kjördag, að hreppsnefndaroddviti gæti einnig gefið þessi vottorð.

Svo eru aðeins nokkur orð um ákvæði til bráðabirgða. Ég vil taka það fram, að þessi till. var eiginlega ekki rædd í n. Þessari brtt. var varpað fram af mér í n., rétt áður en nefndarfundi lauk. Hún fékk daufar undirtektir. Sumir nm. voru þá ekki viðstaddir, svo sem hv. 3. landsk. (SK) og hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Hjá nm. var ekki samkomulag um hana. Þessi brtt. er flutt vegna þeirra sérstöku ástæðna, sem fyrir hendi eru, að kosningar eiga að fara fram á þeim tíma, sem getur orðið ákaflega óþægilegur fyrir fólk í sveitum landsins, og verður í öllum tilfellum óþægilegur, hvernig sem viðrar. Mér þykir undarlegt, að hæstv. ríkisstj. og hv. þm. hafa ekki reynt að finna eitthvert ráð til þess að koma kjósendum í dreifbýlinu eitthvað til hjálpar með tilliti til þess, hvað kjördagurinn verður nú við næstu kosningar á óheppilegum tíma fyrir þá til kjörfundarsóknar. Og ég er undrandi yfir því, að ekki skuli hafa komið fram meira af brtt. við þetta frv. til þess að bæta úr þessu, svo bersýnilegt sem það er, að sanngjarnt er að létta undir með þessu fólki í þessu efni. Sumir hv. þm., sem ekki stóðu að þessum brtt., tóku þó vel í þær. Ég undrast þó stórum, að hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) skuli hafa fundizt ástæða til að bera fram brtt. um tvo kjördaga í kaupstöðum, — um það hafa menn ekki verið með neinar kröfur —, því að það er eins og til þess að draga úr þeirri ástæðu, að sveitirnar þurfi að hafa tvo kjördaga, að kaupstaðirnir skuli fá að hafa það líka.

Því hefur verið haldið fram, að þessi tími til kosninga, seint í október, sé ekki óþægilegur fyrir sveitafólk, og er það fært fram því til stuðnings, að áður hafi kjördagur verið á þessum tíma. Það er nú nokkuð langt liðið, síðan kosið var fyrsta vetrardag, og mun það hafa verið síðast við alþingiskosningar 1923, en við landskjör 1926. En reynslan af kosningunum 1926 mun hafa orðið sú, að mönnum mun ekki hafa þótt líklegt, að sá kjördagur yrði tekinn upp aftur, ef annað reyndist mögulegt. Í ýmsum héruðum landsins var stórhríð þennan dag og sums staðar hnésnjór og ófærð, svo að ekki var um annað að ræða en fara gangandi, ef menn vildu á annað borð komast á kjörstað, því að ekki var hægt að fara á hestum. Þess má líka geta, að meðan siður var að kjósa fyrsta vetrardag, var fyrirkomulag að mörgu leyti ólíkt því, sem nú er, og höfðu konur t. d. lengst af engan kosningarrétt, en ófærð og illviðri á kjördag mundi fremur verða til þess að hamla kjörsókn þeirra en karlmanna.

Í l. þeim, sem nú gilda, er heimilað að ákveða kjördag síðar, ef kosning ferst fyrir. Ég tel þetta ákvæði lítils virði, því að það er alltaf álitamál, hvort veður skuli teljast fært eða ekki. Má gera ráð fyrir því, að alltaf geti einhverjir komið á kjörstað, hversu slæmt sem veður er, og er þá alltaf hægt að segja, að kosning hafi farið fram og að kosningafært hafi verið. Einhver skaut því hér fram, að þessi heimild væri brott fallin, ef bráðabirgðaákvæðin í brtt. okkar næðu samþ. En ég sé ekki, að svo þurfi að vera. Ég sé ekki, hvernig þessi bráðabirgðaákvæði geta komið í veg fyrir, að hægt sé að nota þessa heimild, þótt hún sé í sjálfu sér lítils virði.

Ég ætla svo ekki að fara um þetta miklu fleiri orðum. Ég tel svo mikið sanngirnismál felast í þessum bráðabirgðaákvæðum, að ég efast um, að meira sanngirnismál hafi verið borið fram á Alþ., og ég læt segja mér það tvisvar, áður en ég trúi því, að hv. d. felli þau. Og ég tel líklegt, að hæstv. ríkisstj. telji það skyldu sína að stuðla að framgangi þessa máls. Þó að ég vilji ekki fara að bera fram neinar sakir á hendur hæstv. ríkisstj., vil ég ekki draga dul á það, að hún hefði getað komið í veg fyrir það, að kjördagur væri ákveðinn á svona óheppilegum tíma. Kosningarnar fóru fram 5. júlí, en talningu var ekki lokið fyrr en 10. júlí, þó að hægt hefði sennilega verið að ljúka henni á tveimur dögum. Og ég tel, að hægt hefði verið að koma öllum gögnum í hendur landskjörstjórnar á þremur eða fjórum dögum, svo að hægt hefði verið að úthluta uppbótarsætum þegar í stað. Ætti þá að hafa verið hægt að kalla saman þing um 20. júlí, og hefði þá þingið getað verið búið að ljúka störfum um það leyti, er þetta þing kom saman, ef vinnubrögð hefðu verið skapleg. Hæstv. ríkisstj. á óneitanlega nokkra sök á því, að þetta var ekki gert, og vænti ég því, að hún vilji bæta um með því að stuðla að því, að þessi bráðabirgðaákvæði nái samþykki.