26.08.1942
Neðri deild: 15. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

28. mál, kosningar til Alþingis

Einar Olgeirsson:

Út af till. hv. 4. landsk. vil ég taka það fram, að ég tel raunar ákvæðið um meðmælendur óþarft, en ef það er haft, á a. m. k. ekki að krefjast þess, að fleiri meðmælendur þurfi í tvímenningskjördæmum en fjölmennustu einmenningskjördæmum, því að sum einmenningskjördæmin eru, eins og kunnugt er, fjölmennari en tvímenningskjördæmin, og hvaða vit er í því, að fleiri meðmælendur þurfi í því kjördæminu, sem fámennara er? Ef 12 menn vilja bjóða fram mann, þá álít ég, að þeir eigi að hafa rétt til þess. Það hefur einmitt verið andi kosningal., að það sé tryggt, að kosningarnar séu leynilegar, og að því lýtur meðal annars það ákvæði, að ekki megi hafa nema ákveðinn hámarksfjölda meðmælenda. Tilgangurinn með því að krefjast fleiri meðmælenda virðist vera sá að knýja flokka, sem hafa lítið fylgi í þessum kjördæmum, til að gefa upp fylgismenn sína. Ég mæli því eindregið með því, að till. hv. 4. landsk. á þskj. 116 verði samþ.