31.08.1942
Efri deild: 18. fundur, 60. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

28. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Bjarni Benediktsson) :

Allshn. hefur haft mál þetta til meðferðar og hefur eftir föngum reynt að athuga frv. Frv. er, eins og kunnugt er, kosningal. óbreytt frá því, sem áður var, með þeirri breyt., sem stafar af stjskrbreyt., sem nú hefur verið samþ., ásamt nokkrum öðrum breyt., sem hv. Nd. hefur gert á frv. Eins og að líkum lætur, hefur allshn. ekki getað athugað sjálfan lagabálkinn til neinnar hlítar, þar sem hér er um flókin og vandasöm lög að ræða, og tæki það miklu lengri tíma en n. taldi fært að verja til athugunar á frv. í heild. Þess vegna hefur þetta verið lausleg athugun, en að mestu leyti höfum við haldið okkur við þær breyt., sem gerðar voru á frv. í Nd., og athugað það frá því sjónarmiði.

Þó er það svo, að við þá athugun, sem við gerðum á þessu frv., eins og það lá fyrir, þá fundum við 2 brtt., sem n. var sammála um að gera og lagði til, að gerðar yrðu. Önnur breyt. er við 9. gr., þar sem stendur í 2. málsgr.: „Þar sem sýslumaður er heimilisfastur í kjördæmi, skal hann vera oddviti yfirkjörstjórnar. Annars staðar skipar ráðh. oddvita, er sé kjósandi í kjördæminu“ o. s. frv. Þetta er óeðlilegt, eins og l. eru, vegna þess að það getur eins þurft varamann, þar sem sýslumaður eða lögmaður er oddviti kjörstjórnar. Það er gert ráð fyrir því í 11. gr., að oddviti víki sæti, og er þá meiri ástæða til þess að hafa greinileg ákvæðin um varamann. Þess vegna höfum við lagt til, að 9. gr. verði breytt svo, að það sé alveg ótvírætt, að ráðh. skipi varamann oddvita, þó að hann sé sýslumaður eða lögmaður. Hins vegar er ekki ágreiningur um þessa brtt. Hin breyt. leiðir að nokkru leyti af meðferð Nd., þannig að hún hefur ekki gætt fulls samræmis við þær breyt., sem hún gerði. Nd. felldi alls staðar niður það ákvæði, að maður skyldi talinn sjálfkjörinn, ef ekki stæðu fleiri nöfn á lista en kjósa ætti þm. og varaþm. Við gerðum ráð fyrir, að þetta hefði verið af vangá, og vorum því sammála um þessa síðari breyt. og vonum, að hv. d. geti á hana fallizt. Svo er ein brtt. til viðbótar, sem allshn. hefur komið sér saman um, en var út af breyt., sem Nd. hefur sett inn í frv. Þetta er í 21. gr., þar sem Nd. setti það inn, að umslög skyldu innsigluð með þar til gerðu innsigli. Okkur sýndist hæpið, hvort þessu yrði komið við, þar sem þessum innsiglum yrði tæplega komið út um allt landið á svo skömmum tíma sem hér er um að ræða.

Þá fluttum við brtt. við ákvæði til bráðabirgða, og heimilar það ráðh. að fresta gildistöku þessa ákvæðis, ef þurfa þykir. Það mun um tíma hafa verið tekinn upp sá háttur, að öllum undirkjörstjórnum í landinu hefur verið sent sérstakt innsigli, og þá skilst mér, að mundi vera hægt að leysa þann vanda nú með því, að kjörstjórnin á hverjum stað noti þetta innsigli undirkjörstjórnar. Það má að vísu segja, að þetta fullnægi ekki ákvæðinu að vera þar til gert, en væntanlega yrði það ekki látið sæta aðfinningum, þó að slíkt innsigli væri notað. Ef til vill er ekki nóg lakk til í landinu, en það væri æskilegt, að dómsmrn. athugaði það í tíma, því að það þýðir ekki að setja ákvæðið, ef það er óframkvæmanlegt.

Þá vil ég gera grein fyrir þeim brtt., sem n. er ekki sammála um, en meiri hl. vill fallast á. Þá eru fyrst brtt. á þskj. 161. Hv. þm. Str. (HermJ) gat ekki fallizt á þær, a. nl. k. ekki að svo komnu. Þá er fyrst brtt. við 27. gr. Í Nd. var sett inn breyt. frá því, sem áður hafði verið. Það er krafizt fleiri meðmælenda í tvímenningskjördæmum heldur en í einmenningskjördæmum, þannig að samkv. frv., eins og það kom frá Nd., eiga þeir ekki að vera færri en 18 og ekki fleiri en 36 í tvímenningskjördæmum, en í einmenningskjördæmum ekki færri en 12 og ekki fleiri en 24. Nú er á það að líta, að sum einmenningskjördæmi eru jafnvel mannfleiri heldur en sum tvímenningskjördæmin. Þess finnast a. m. k. dæmi, og þá sýnist okkur vera óeðlilegt, að fleiri meðmælenda væri krafizt í slíkum tvímenningskjördæmum heldur en í hinum, og urðum því sammála um að láta sömu tölu gilda um þetta eins og verið hefur, og jafnt í einmennings- og tvímenningskjördæmum.

Þá er brtt. við 97. gr., sem meiri hl. varð sammála um að gera. En þannig stóð á, að segja má, að Nd. hafi gert sig seka um nokkurt ósamræmi í ákvörðun sinni, vegna þess að í hinum minni kjördæmum skipaði hún svo fyrir, að þar skyldu vera 2 kjördagar, en ákvað hins vegar, að kosningu skyldi vera lokið í síðasta lagi kl. 12 á miðnætti í hinum stærri kjördæmum, svo sem Rvík, þar sem allt að 25 þús. kjósendur greiða atkv. Það hefur oft komið fyrir, að nokkuð margir kjósendur hafa greitt atkv. eftir kl. 12 á miðnætti. T. d. var það svo í bæjarstjórnarkosningunum í marz s. l., að fjölmennur hópur skíðafólks kom ekki í bæinn fyrr en eftir miðnætti og átti þá eftir að kjósa. Okkur finnst miklu eðlilegra, að þetta ákvæði sé látið halda sér, eins og það var. Við meiri hl. n. leggjum því til, að þessu ákvæði Nd. verði sleppt. Varðandi hitt ákvæði Nd., að lögbjóða 2 kjördaga í sveitum, þá viðurkennum við að vísu, að við næstu kosningar, sem fara eiga fram um miðjan okt., þá geti verið full ástæða til að gjalda nokkuð varhuga um það að gæta þess, að allir kjósendur eigi raunverulega kost á því að greiða atkv. En okkur sýnist hins vegar of umfangsmikið að lögbjóða 2 kjördaga í sveitum, en nægilegt mundi að heimila það, þar sem svo stæði á, að ófærð eða illviðri hamlaði kjörsókn, og þá mætti nota hinn síðari kjördag eftir sams konar reglum og greinir í 134. gr. kosningal. Þar er gert ráð fyrir því, ef kosning ferst fyrir vegna illveðurs eða ófærðar, að boðað sé til kjörfundar á ný innan viku, en það er alls ekki gert ráð fyrir því, að kosning falli þá niður — eigi sér ekki stað. En við viljum rýma þetta ákvæði svo, að kjörstjórn megi byrja kosningu t. d. í tvísýnu veðri. En jafnvel þó að kjörstjórn byrji kosningu í tvísýnu veðri, en síðan komi á daginn, að eðlileg kjörsókn hindrist, þá viljum við, að það sé heimilt að boða til kjörfundar af nýju á þann hátt, sem í 134. gr. segir. Ég vonast til þess, að menn geti fallizt á þetta fyrir mæli, því að það fullnægir þeim óskum, að allir eigi að hafa jafna aðstöðu til þess að kjósa, hvað sem ófærð og illviðri líður. Með þessu er nægilega tryggilega um hnútana búið, en það afnemur hins vegar það óþarfa umstang, sem yrði því samfara að lögbjóða 2 kjördaga í sveitum. Mér finnst hér vera um heppilegan milliveg að ræða, og vil ég vænta þess, að hv. d. geti fallizt á þá sanngjörnu lausn þessa máls, sem með þessu er nú fundin.

Loks er svo að minnast á brtt. hv. 1. þm. Eyf. Allshn. tók ekki formlega afstöðu til hennar, enda hygg ég, að ég fari með rétt mál, ef ég segi, að meiri hl. n. telur ekki ástæðu til þess að mæla með henni, heldur óskar þess, að hún verði felld. Mér skilst efni þessarar brtt. vera það, ef flokkur fær mann kosinn í tvímenningskjördæmi, þá leiði þar af, að hinn frambjóðandinn í tvímenningskjördæminu geti ekki náð. kosningu sem uppbótarþm. Ég sé enga ástæðu til þess að setja slík fyrirmæli. Mig skortir skilning á þeim rökum, sem kunna að vera fyrir þessu, og þar af leiðandi get ég ekki annað en mælt á móti þessari till. sem óeðlilegri breyt. frá því, sem verið hefur. Ég tel hana geta leitt til réttarskerðingar fyrir þau kjördæmi, sem hér eiga hlut að máli. Þetta mundi geta leitt til þess, að smákjördæmi, eins og t. d. Seyðisfjörður, fengju megnið af uppbótarþm., og það mundi leiða til hins fáránlegasta ósamræmis. Ég vona því, að þessi brtt. verði felld, en vænti þess, að frv. nái samþykki með þeim breyt., sem meiri hl. allshn. leggur til, að á því verði gerðar.